Á korkunum hefur verið mikil umræða á undanförnu um það hvort hér sé of mikið af áhugaspunum eða ekki. Margir virðast á einu máli um að hér sé um full auðugan garð að gresja og að gæðum hinna ýmsu spuna sé mjög ábótavant. Fram kom sú hugmynd um að stjórnendur áhugamálsins ættu að hafna spunum sem ekki væru með nógu spennandi söguþræði. Ég vil fá að staldra aðeins við þessa hugmynd. Mér persónulega finnst það ekki okkar stjórnendanna að meta gæði áhugaspuna nema að vissu leyti. Okkar starf er að sjálfsögðu að athuga að öllum reglum sé fylgt hvað varðar uppsetningu, málfar, stafsetningu og annað sem kveðið er á um í reglum um áhugspuna sem finna má neðst á forsíðu áhugamálsins. Þegar kemur að innihaldi sögunnar, söguþræðinum sjálfum, er það hlutverk ykkar notendur góðir að vera gagnrýnendur. Það er sannarlega mikilvægt hlutverk sem þið þurfið að vera virk í.

Á síðum sem sérstaklega eru ætlaðar áhugaspunum er auðvitað einungis þeim bestu hleypt í gegn en hugi.is er ekki slík síða. Hugi.is er opinn öllum og fólk á öllum aldri er að senda hér inn greinar, myndir og spuna. Á þessu ákveðna áhugamáli eru það einna helst krakkar á aldrinum 10-14 ára sem eru virkastir. Nokkrir notendur eru farnir að nálgast tvítugt, en ég held hreinlega að ég sé sú eina hér sem er komin yfir tvítugt, endilega leiðréttið mig ef það eru fleiri ellismellir hér ;)

Hinn almenni notandi hér á áhugamálinu á að telja það skildu sína að vera góður gagnrýnandi fyrir þá sem eru að leggja hart að sér við að senda inn spuna. En hvað er að vera góður gagnrýnandi?

Góður gagnrýnandi gerir eins og í orðinu felst og rýnir til gagns. “Að rýna til gagns” er mjög mikilvægt allstaðar í lífinu. “Að rýna til gagns” er ákveðin list og stundum getur verið erfitt að finna réttu leiðirnar og þurfa gagnrýnendur að vera vel á verði um hvort rýnin sé til gagns eða ógagns.
“Þú ert ömurlegur” er t.d. engum til gagns.
“Þú mættir skoða persónurnar þínar aðeins betur og spá betur í hvernig þeim líður og segja okkur frá því.” er aftur á móti til heilmikils gagns fyrir ungan spunahöfund sem er að stíga sín fyrstu skref.

Hér á vefnum eru spunarnir sannarlega misgóðir, það vitum við öll. Allir spunarnir eiga þó rétt á sér því allir höfundar eiga rétt á að láta ljós sitt skína. Það eru svo viðbrögð gagnrýnenda sem ákveða hvort framhald verður á spunanum eða ekki. Ef viðbrögðin eru “Frábært, komdu með framhald!” verður viðkomandi spunahöfundur ánægður og kemur líklega með framhald. Ef viðbrögðin eru á þessa leið “ Þetta er nú ekki alveg nógu gott…” og færður rökstuðningur fyrir því afhverju það er ekki nógu gott reynir viðkomandi höfundur að bæta sig og gerir úrbætur í næstu köflum. Ef það dugar ekki til og viðbrögðin eru enn ekki góð gefst hann líklega upp eftir nokkra kafla og reynir kannski aftur síðar.

Mér finnst allt of algengt að spunar sem eru engan veginn nógu góðir séu að fá viðbrögð sem hljóða á þessa leið: “Frábært, komdu með framhald!”. Svo virðist sem sumir af okkar gagnrýnendum sendi svör á þessa leið við öllum spunum sem berast. Hvar er réttlætið í því?
Þetta er ósanngjarnt bæði gangvart þeim sem skrifa góða spuna og einnig gagnvart þeim sem ekki eru að standa sig nógu vel.
Þeir sem eru að skrifa góða spuna og hafa lagt mikla vinnu og alúð í gera vel finnst þeirra verk ekki metið jafn mikils þegar aðrir spunar sem eru sumir hverjir hreint út sagt lélegir fá sömu dóma. Tveir einstaklingar skila frá sér listaverkum, annar hefur málað landslagsmynd með þúsundum lita og hver einasta lína og hvert einasta strik er fullkomið en hinn skilar inn lélegri mynd af Óla Prik sem var teiknuð á tíu sekúndum. Báðir einstaklingarnir fá sömu laun fyrir. Er þetta hvatning fyrir þann sem lagði alúð og mikla vinnu í verk sitt til að halda áfram á þessari braut? Nú þegar hann sér að hver sem er getur skellt einhverju á blað og það er metið til jafns við það sem hann sjálfur lagði sálu sína í? Að sjálfsögðu er það ekki réttlátt og sá sem lagði metnað sinn í verkið ætti að sjálfsögðu að fá meiri viðurkenningu fyrir sitt en sá sem einhverju skellti á blað.

Þetta er líka ósanngjarnt gagnvart þeim sem eru að skrifa spuna í lakari kanntinum. Flest viljum við bæta okkur en það getum við ekki ef okkur er ekki bent á veikleika okkar og vísað veginn til framfara. Ef óreyndir spunahöfundar fá ekkert nema hrós, þrátt fyrir að eiga það ekki skilið, halda þeir áfram sinn veg óbreyttan og senda inn fleiri kafla sem jafnvel enginn nennir að lesa. Þeir gera sér þó ekki grein fyrir því vegna þess að einhverjir halda áfram að segja “Frábært, komdu með framhald!”. Það vill enginn senda inn kafla eftir kafla af einhverju sem engum líkar. Það er ykkar sem gagnrýnendur að láta fólk vita hvað ykkur líkar og hvað ekki.

Ég vil hvetja ykkur hugararnir mínir til að vera góðir gagnrýnendur, segja satt og rétt frá og hjálpa þeim sem eru að semja spuna að gera betur. Ef allt er að fyllast hér af lélegum spunum, eins og einhver orðaði það, hverjum er það að kenna? Er þá ekki gagnrýnendum um að kenna?

Munið bara að “rýna til gagns” ekki ógagns og hafið í huga orð Einars Ben “aðgát skal höfð í nærveru sálar.”

Kveðja
Tzipporah