Fór í gær á Harry Potter og fangann frá Azkaban og verð því miður að segja að ég hef sjaldan ef ekki aldrei orðið fyrir jafn miklum vonbrigðum með neina mynd eins og Harry Potter og fangann frá Azkaban. Þannig er mál með vexti að Harry Potter bækurnar eru einu best skrifuðu bækur sem sögur fara af, að mínu mati allavega og persónulega finnst mér bækurnar hjá J.K Rowling alltaf vera að batna og batna. Reyndar finnst mér bók númer 2 síst af öllum bókunum en bíómyndin Harry Potter og Leyniklefinn er lang besta myndin sem gerð hefur verið um Harry Potter.

Fyrstu 2 myndunum leikstýrði Cris Columbus, og ég hreinlega get ekki skilið af hverju hann leikstýrði ekki þeirri þriðju, því við vitum öll hvernig fyrsta Harry Potter myndin var, ÁGÆT, en alls ekki meira en það, og miðað við það hversu góðar bækurnar eru er alls ekki nóg að myndin sé ÁGÆT. En þar sem þetta var nú einu sinnu fyrsta myndin sagði maður við sjálfan sig að maður yrði að gefa þessu aðeins séns, sem og maður gerði og eftir að ég labbaði út úr Sambíóunum eftir Harry Potter og leyniklefan var ég mjög sáttur. Mjög góð mynd í alla staði, fyrir utan Daniel sem hefur jafn góða leiklistarhæfileika og Austur-Þýskur klámyndaleikari.
Þess vegna á ég mjög erfitt með að skilja af hverju Cris Columbus fékk ekki að leikstýra þriðju myndinni eða af hverju hann hreinlega vildi það ekki? Ef það er einhver sem veit þetta væri það hið besta mál.

En aftur að Harry Potter og fanganum frá Azkaban, þetta er skömm við J.K. Rowling og ég neita að trúa því að hún sé sátt með myndina. Ég las í blaðinu í síðustu viku og Alfonso hefði tekist mjög vel upp með myndina, en í myndinni væri alls ekki farið ofaní smáatriði heldur væri söguþráðinum haldið áfram jafn óðum. Einnig heyrði ég að framleiðurnir vildu breyta út af venjunum með þessu, því í fyrstu tvemur myndunum var farið ofaní smáatriðin, en þeir vildu breyta því í mynd númer 3. Það sem gerir góðar myndir góðar eru oft smáatriðin, og það sem gerir Harry Potter bækurnar BESTAR eru smáatriðin! Það hefur einnig verið talað um að þessi mynd eigi að vera miklu hryllilegri heldur en hinar tvær, og hvað mig varðar er það alls ekki rétt, öll þau augnablik í bókinni þar sem að maður var nánast að deyja úr spenningi eru höfð að fíflum í myndinni. Flestum þessum atriðum er sleppt og pernónulega finnst mér Sirius Black alls ekki ógnvekjandi eins og hann var í bókinni heldur frekar fyndinn.
Þetta er ömurleg mynd og skömm við alla Harry Potter aðdáendur, til að mynda fær Harry Potter sendan Þrumufleygin í endann á myndinni, en í bókinni fær hann Þrumufleygin í miðri bókinni. Þeir sem hafa ekki lesið bókina vita ekki einu sinni hvað þrumfleygurinn er af því að honum er ekki gerð skil í myndinni, en í bókinni er talað mjög mikið um þrumufleyginn þar sem Harry kemur fyrst auga á hann í Skástræti að mig minnir.

Allavega verð ég að segja að ég er skuggalega óánægður með þessa mynd og það er nánast ekkert gott í henni, fyrir utan Grágogg sem er ofur töff, Albus Dumbledore er ekki nærri því jafn góður eins og í mynd 1 og 2, en kannski maður þurfi að gefa Michael Gambon séns því hann er nýr í þessu hlutverki og Richard Harris var án efa KJÖRINN í hlutverk Dumbledores og verður MJÖG ERFITT fyrir einhvern leikara að toppa hann. Það eina sem mér fannst standa upp úr í myndinni fyrir utan grágogg er Emma Watson, og þá ekki kannski bara leikurinn hennar heldur líka hversu mikil ofurgella hún er að verða, og verð ég bara að segja að hún á framtíðina fyrir sér í þeim efnum. Daniel er ALLTAF jafn ÖMULEGUR og toppar hann allt sem ömurlegt er þegar að Hermione og Ron finna hann grátandi á steininum í Hogsmede.

Þannig að Harry Potter og fanginn frá Azkaban er langlélegasta Harry Potter myndin hingað til og vonandi verður þetta ekki eitthvað sem koma skal, og finnst mér í raun vanta alla spennu í myndina. Það er því mín skoðun að Alfonso Cuarón ætti hreinlega að skammast sín!