((ath. ef þið eruð ekki búin að lesa 5.bókina í Harry Potter seríunni þá leynast nokkrir spoilerar í þessum áhugaspuna.))

Þetta er 4.kaflinn í þessum áhugaspuna mínum. Hann hefur verið svolítið lengi á leiðinni, útaf miklum önnum hjá mér, en hérna er hann loksins.
Fyrstu þrír kaflarnir eru mikilvægir til að skilja hvað er í gangi, en þar sem ég er ekki ennþá búin að læra á þetta kerfi hér á hugi.is þá læt ég slóðirnar fylgja með og þið verðið svo bara að copy-paste-a. :) verði ykkur að góðu… ;)

fyrsti kafli: http://www.hugi.is/hp/greinar.php?grein_id=16332242
an nar kafli: http://www.hugi.is/hp/greinar.php?grein_id=16332578
þr iðji kafli: http://www.hugi.is/hp/greinar.php?grein_id=16338862


Þau gengu þögul út úr salnum og alla leið að skrifstofu hennar. Hann gekk inn á eftir henni og settist niður, eins og hún benti honum. Prófessor McGonagall settist niður fyrir framan og starði brúnaþung á hann.
”Þér lentir aldeilis í því í nótt, herra Potter” Sagði hún. Harry hallaði sér aftur á bak og krosslagði hendurnar. ”Ég dottaði aðeins í setustofunni og datt úr stólnum.” Svaraði hann og leit undan.
”Ekki ljúga að mér, Harry Potter!” Sagði hún með hárri og ákveðinni röddu og Harry dauðbrá. ”Segðu mér hvað gerðist í nótt. Ég veit að þú muldraðir nafn guðföðurs þíns í nótt og að hann væri á lífi.” Harry passaði sig að líta ekki upp.
”Harry?” Sagði Mcgonagall með mildari röddu. ”Harry, kom hann til þín í nótt?”
Hann leit snöggt upp. Hún vissi það! Var hann þá á lífi? Það hlaut að vera víst að prófessor McGonagall sagði það.
Hann þagði um stund en opnaði svo munninn til að svara henni. McGonagall leit niður og tók frammí fyrir honum. ”Ég óttaðist að þetta myndi gerast. Harry, Sirius er ekki á lífi. Ég veit það og þú ættir nú líka að vita það”.
Harry leit aftur niður, ákveðinn að hann skyldi ekki trúa henni. Hann sá Sirius. Sirius talaði við hann. Hann var á lífi.
Það var bankað á hurðina. Harry og prófessor McGonagall litu bæði upp og um leið opnaðist hurðin og prófessor Donahue gekk inni, brosandi út í annað.
”Afsakið hvað ég er sein, Minerva, en þessi kjötleifur hérna er bara alveg einstaklega góður”. Það hnussaði í Mcgonagall. ”Jæja, ég skil ykkur tvö þá eftir”. Hún stóð upp og gekk út.
”Hvað er í gangi?” Hugsaði Harry og leit undrandi á prófessor Donahue er hún settist niður í sætið fyrir framan hann.
”Jæja, Harry.” Sagði hún og brosti. “Minerva sagði mér að þér hafði dreymt eitthvað illa í nótt..”
Harry fann hvernig reiðin braust út innra með honum. “Þetta var ekki draumur!” sagði hann reiðilega en sá þó eftir því um leið. Donahue var aðeins að spyrja hann út frá einhverju sem henni hafði verið sagt.
En prófessor Donahue brosti enn til hans, róleg eins og ekkert hafði í skorist.
”Allt í lagi Harry minn. Segðu mér þá, hvað gerðist í nótt?”
Út af einhverri ástæðu fann Harry til léttis. Kannski trúði hún honum. Áður en hann vissi af var hann byrjaður að segja henni frá öllu því sem hafði gerst. Og ekki aðeins því. Hann sagði henni líka frá því hvernig guðfaðir hans hafði komið til hans á þriðja árinu í Hogwarts, hvernig þeir höfðu hist og hvað hafði í raun gerst fyrir föður hans. Hann sagði henni hvernig guðfaðir hans hefði þurft að vera í felum svo lengi, hvað honum leið illa og frá því hvernig hann hafði komið honum til bjargar í ráðuneytinu og þar með látist.
”Og svo kom hann í gær. Ég sá hann og hann talaði við mig. Hann er á lífi” Bætti Harry við.
Donahue kinkaði kolli rólega, íhugul á svip. ”Segðu mér Harry, hvernig vissi guðfaðir þinn hver í raun sagði frá felustað foreldra þinna?”
Harry áttaði sig þá á, að í þessari ræðu sinni hafði hann aldrei sagt nafn Siriusar. Hann leit niður á gólfið.
”Þeir voru bestu vinir í skólanum, pabbi og Sirius.”
Það var löng þögn og Harry leit upp eftir smá stund til að líta á prófessor Donahue. Hún starði hissa á svip á hann.
”Sirius? Ertu að tala um Sirius Black?” spurði hún. Harry andvarpaði. Þarna kom ástæðan af hverju hann hafði ekki fengið sig til að segja nafnið hans. Í augum allra var Sirius ennþá morðinginn sem hafði sloppið út úr Azkaban, morðinginn sem myrti muggana og Peter Pettigrew úti á götu.
”Sirius var saklaus af þessum glæpum. Hann myrti ekki þessa mugga og Peter Pettigrew er ennþá á lífi” Sagði hann pirraður í skapi.
”Ég veit það, Harry” Nú var það prófessor Donahue sem leit niður. ”Ég veit að Sirius er saklaus. En ég vissi ekki að hann væri dáinn”.
Harry brá þegar hann sá tár falla niður á bókfellið á skrifborðinu fyrir neðan Donahue.
”Prófessor Donahue?” Sagði hann rólega. ”Þekktir þú Sirius?”.
Hún leit upp, þurrkaði tárið í burtu og reyndi að brosa. ”Já, við vorum saman hér í Hogwarts. Hann var í Gryffindor en ég var í Ravenclaw. Ég var vinkona Lily, mömmu þinnar, og þegar hún og pabbi þinn fóru að vera saman, byrjuðum við að kynnast. Við urðum mjög góðir vinir eftir skólann líka. Ég flutti svo út til Bandaríkjanna eitt árið vegna vinnunnar og var alltaf í stöðugu sambandi við Sirius og James og Lily.” Hún brosti til Harrys og tár féll niður kinnina aftur. ”Ég man eftir því þegar Sirius kom einu sinni í arininn hjá mér og tilkynnti mér að James og Lily höfðu eignast barn. Þig. Tíminn leið og ég heyrði frá þeim annað slagið. Svo…..” Hún þagnaði og horfði sorgmædd á Harry. ”Svo kom það fyrir að ég heyrði ekki frá þeim öllum í langan tíma. Ég heyrði fréttirnar fljótlega. Lily og James dáin og Sirius í Azkaban. Ég fór aftur hingað, reyndi að útskýra fyrir ráðuneytinu að Sirius hefði aldrei getað gert nokkuð svona. Enginn trúði mér, ég var álfur og á þessum tíma voru álfar ekki mikils metnir.” Hún leit niður á borðið aftur, hálfbrosandi þó að eitt lítið tár lék niður kinnina.
Harry starði undrandi framfyrir sig. Hann hafði alls ekki átt von á þessu. Svo Donahue þekkti mömmu hans, pabba og Sirius. Hann hafði aldrei hitt annan skólafélaga þeirra fyrir utan Lupin, Peter og svo að sjálfsögðu Snape.
“En…” Sagði Harry. “En ef þú þekktir hann, af hverju vissirðu ekki að hann var guðfaðir minn?”
Donahue horfði íhugul á hann um stund. “Sirius sagði mér aldrei frá því. Eins og ég sagði, þá bjó ég úti í Bandaríkjunum og heyrði lítið í þeim eftir að þú fæddist.”
Harry kinkaði kolli rólega og í nokkrar mínútur ríkti þögn á milli þeirra.
”Jæja, þrátt fyrir það….” Sagði Donahue loksins. ”Prófessor McGonagall bað mig um að ræða þetta við þig, þetta með drauminn þinn. Eins og mér hefur verið tjáð deilduð þið hinn myrkri herra hugsunum í fyrra.”
Harry kinkaði kolli rólega.
”Já…. Þegar prófessor McGonagall var tjáð að þú hafðir…..séð Sirius Black í nótt, fór hún til Dumbledores og þau hafa áhyggjur af því að þetta gæti verið einhver ný aðferð herrans að ná til þín.”
Harry andvarpaði. Þetta var ekkert þannig, hann hafði séð Sirius og það var hann sem hafði setið fyrir framan hann í setustofunni.
”Þess vegna munt þú sækja svokallaða hjálpartíma hjá mér eftir skóla í hverri viku þar sem við getum reynt að spjalla um þetta og komast til botns í þessu. Mér skilst að þú hafir lært hughrindingu í fyrra?” Sagði prófessor Donahue og skrifaði eitthvað niður á smá pergamentsbút. Harry kinkaði kolli, annars hugar. Átti nú að senda hann í aukatíma aftur af því að Sirius var á lífi og kom til hans? ”Jæja, sem betur fer eru þetta ekki tímar hjá Snape…” hugsaði hann og tók við pergamentsbútnum, sem Donahue rétti honum.
”Þetta verður eitthvað svona svipað hjá okkur eins og núna, en samt ekki eins.” Hún benti á pergamentið. ”Þetta er tíminn sem við hittumst næst, þá verðum við á skrifstofunni minni. Þú ættir að geta fundið hana.” Hún brosti og stóð upp.
”Við sjáumst bara þá, Harry minn.”Sagði hún og gekk út.
Harry stóð í rólegheitunum upp og gekk út, hugsi. Hann gekk þannig alla leiðina upp í Gryffindorturninn. Þegar hann kom inn í setustofuna gaut hann augunum strax í áttina að arininum.
”Harry!” Ariana stóð við tilkynningartöfluna og benti honum að koma. ”Sjáðu, fyrsta Hogsmeade helgin er þessa helgi. Þú hefur komið þangað, er það ekki? Hvernig er það?” Spurði hún óðamála og Harry mundi að hún var glæný í þessum skóla.
Hann brosi og byrjaði að segja henni frá bænum; hann sagði henni frá Þremur kústum og hunangsölinu sem þar mátti fá, frá Zonkos og frá Sælgætisbaróninum.
”Þú munt skemmta þér ótrúlega vel þarna, ég er viss um það” Sagði hann og brosti.Hann tók eftir Ron og Hermione í horninu og saman gengu þau til þeirra.
Kvöldið var ekki svo slæmt. Harry og Ron kepptu í galdraskák meirihlutann af kvöldinu með sigri Rons allan tímann. Hermione og Ariana ákváðu að gera þetta meira spennandi og tóku að hvetja þá áfram. Þegar lengsta leiknum lauk, með sigri Rons, ákvað Ariana að prófa að keppa á móti honum.
”Ég er ekkert góð í skák” Sagði hún brosandi um leið og þau byrjuðu en eftir tíu mínútur af skákinni lauk henni, nú með sigri Ariönu.Hermione og hún fögnuðu gríðarlega en Harry lét sér nægja að klappa á bak vinar síns, þar sem hann sat og starði hissa fram á skákborðið.
Ron fór snemma í háttinn þetta kvöld, sem uppskar mikinn hlátur frá Hermione. En þegar Ariana og Hermione fóru fljótlega að tala um sögu galdranna, byrjaði Harry að geispa ógurlega og tilkynnti þeim að hann ætlaði bara að fara að sofa.
Harry var ánægður og glaður þegar hann lagðist til svefns þetta kvöld, þó að honum kveið fyrir tímanum hjá prófessor Donahue. Hann veiddi samankurlaðann pergamentsbútinn úr skikkjuvasanum sínum og las:

Á morgunn, klukkan átta
skrifstofan mín er í suðurturninum
á fjórðu hæð.
virðingarfyllst,
prófessor Cecilia Donahue.

Harry leit upp til loftsins og andvarpaði. Sirius hafði reynst vera á lífi og nú átti hann að fara í aukatíma til að reyna að bæla það niður. Og það var bara annar dagur hans í skólanum!
Hann lagði pergamentið á borðið og lét gleraugun sín við hliðina á þeim. Svo snéri hann sér á hina hliðina og sofnaði, djúpum svefni.


Harry vaknaði snemma þriðja skóladaginn og dreif sig á fætur. Hann klæddi sig í flýti og rölti niður í Stóra salinn, vonandi að Ariana væri þar eins og alltaf. Aftur á móti var Gryffindor borðið alveg tómt þennan morguninn. Hufflepuff borðið var einnig tómt, við Slytherin borðið sátu nokkrar fyrsta árs stelpur pískrandi á milli sín og við Ravenclaw borðið sat Lúna Lovegood, sötrandi á heitu kakói. Hún vinkaði Harry og brosti til hans. Harry brosti annars hugar og settist niður við borðið.
Smátt og smátt fór fólk að týnast inn í salinn og borðin fóru að fyllast af skvaldrandi nemendum skólans.
Brátt gengu Hermione og Ron inn og settust við hlið hans.
”Hvar er Ariana?” Sagði Harry og horfði undrandi á Hermione, sem var byrjuð að smyrja sultu á ristað brauð.
”Hún fór eldsnemma í morgunn úr svefnsalnum. Hún fer örugglega að koma.” Sagði Hermione og byrjaði að borða.
Harry fékk það á tilfinninguna að Hermione vissi eitthvað sem að hann vissi ekki og leit á Ron. Ron yppti bara öxlum og hvíslaði til hans: ”Þær eru alltaf svona, þessar stelpur.”
Meira gátu þeir ekki rætt um þetta því að Katie Bell vatt sér allt í einu upp að þeim.
”Sælir strákar!” Sagði hún og brosti út að eyrum. ”Eruð þið ekki hressir?”. Ron og Harry kinkuðu kolli rólega.
”Frábært! Æðislegt!” sagði hún brosandi og lagaði skikkjuna sína. ”Heyriði, eins og þið vitið þá fóru Alicia og Angelina úr skólanum í ár og George og Fred…tja, þið vitið hvað þeir gerðu.” hún glotti.
”Ert þú orðin fyrirliði, Katie?” Spurði Ron og reyndi að hljóma eins glaður og hún var, með misheppnuðum árangri. Katie tók hins vegar ekkert eftir því og brosti til hans, aftur.
”Já, ég er orðin fyrirliðinn. En sætt af þér að minnast á það, Ron.” Ron muldraði eitthvað og leit niður, rjóður í kinnum.
”Allaveganna, við þurfum að halda prufur fyrir tvo sóknarmenn og tvo varnarmenn, ef við ætlum að eiga roð í Slytherin liðið þetta árið. Varnarmennirnir sem komu í stað Fred og George í fyrra ætla ekki að halda áfram í liðinu. Ég heyrði að þau í Slytherin séu með frekar gott lið núna í ár… ljóshærði leitarinn þeirra er víst orðinn fyrirliði.” Sagði Katie og gaut augunum í áttina að Slytherin borðinu, þó að Malfoy væri ekki kominn þangað ennþá.
”En prufurnar..” Sagði hún og brosti til þeirra aftur. ”Ég var að velta fyrir mér að hafa þær núna á föstudaginn, þannig að þið skuluð hafa þann dag lausan. Ég er kannski ekki eins ströng og Oliver og Angelina, en ég get orðið virkilega reið ef að þið takið svo upp á því að mæta ekki.” Hún setti snöggvast í brýrnar, glotti svo og kvaddi þá, með sama brosinu og áður.
”Það er aldeilis að hún er glöð” Sagði Ron og stakk upp í sig skeið af hafragrauti. ”Ah! heitt!”.
Hermione leit á þá. ”Enda er hún orðin fyrirliði. Ég heyrði hana vera tala við einhverjar vinkonur sínar um daginn og þær voru að tala um hver yrði fyrirliðinn í liðinu. Hún var alveg viss um að þú, Harry, myndir fá stöðuna af því að henni finnst þú vera svo góður í Quidditch.”
Harry brosti aðeins og smurði ristað brauð handa sér. ”Hún er náttúrulega eldri, hefur verið lengur í liðinu og er með meiri reynslu heldur en ég.”
”Mér finnst það frábært að hún sé fyrirliðinn. Ég kynntist henni aðeins í fyrra þegar þú varst ekki með í liðinu, Harry. Hún var ofboðslega dugleg að reyna að hughreysta mig þegar æfingarnar gengu ekki nógu vel.” Sagði Ron og lagði frá sér tómt mjólkurglas. Hann hafði verið að kæla á sér munninn með mjólkinni eftir að hafa brennt sig smávegis út af hafragrautnum og var nú með mjólkurskegg upp á nef.
Harry hafði þó ekki fyrir því að segja honum frá því, því í þessu augnabliki gekk Ariana inn í stóra salinn með prófessor Donahue.
Þær stoppuðu fyrir framan kennaraborðið og sögðu eitthvað við hvor aðra. Að lokum lagði prófessor Donahue hendina á öxl Ariönu, klappaði henni mjúklega og kvaddi hana greinilega.
Svo héldu þær í sitthvora áttina, Donahue upp að kennaraborðinu og Arianda að Gryffindor borðinu. Hún settist niður við hliðina á Hermione og brosti til þeirra allra.
”Hæ hæ. Guð, hvað ég er orðinn svöng. Ég er vön að fá mér að borða klukkan hálf sjö til sjö á morgnanna og nú er klukkan að verða átta!” Hún glotti og tók við að borða af fullum krafti.
Harry og Ron litu á hvorn annan undrandi og svo aftur á Ariönu.
”Hérna, Ariana?” Spurði Ron. ”Hvað varstu að gera með prófessor Donahue?”
Það hnussaði í Hermione. ”Þú ert með mjólkurskegg, Ron. Þurrkaðu það af þér, þú lítur út eins og hálfviti með þetta á þér.” Ron roðnaði og sneri sér undan, til að þurrka sér um munninn. Hermione snéri sér aftur á móti að Ariönu.
”Hvernig var?” spurði hún hljóðlega og gaut augunum að Harry, sem fylgdist með.
Ariana hló. ”Hvernig var? bara eins og vanalega. Það kom samt ekkert fram um…” hún þagnaði þegar hún sá að Harry var að fylgjast með. ”…um þetta sem við töluðum um í gær. Hún segir að ég sé ekki ennþá tilbúin til að vita það.”
Hermione kinkaði kolli og báðar fóru þær aftur að borða, nú talandi um ummyndun.
Harry andvarpaði og snéri sér að Ron. ”Alltaf eins…” Muldraði Harry og Ron botnaði: ”…þessar stelpur.”

Fyrsti tíminn var saga galdranna, tvöfaldur. Fjórmenningarnir fundu sér sæti aftast í kennslustofunni, Harry og Ron aftast og Ariana og Hermione fyrir framan þá. Öll tóku þau upp bækurnar sínar, munurinn var sá að Hermione og Ariana gerðu pergament og fjöðurstafi einnig tilbúna á meðan Harry og Ron lögðu bækurnar sínar lokaðar fyrir framan sig og komu sér vel fyrir í sætunum sínum.
Eftir að restin af 6.árs nemum Gryffindors höfðu komið sér fyrir, leið prófessor Binns inn. Hann var varla kominn inn þegar hann byrjaði að þylja upp um stofnun Ráðuneytisins og fyrstu starfsmenn þess.
Fjöðurstafirnir byrjuðu strax að þeytast um pergamentið hjá stöllunum fyrir framan þá Harry og Ron og þeir litu á hvorn annan glottandi.
”Hermione er bara búin að finna sér einhvern álíka námsfúsan og hana” hvíslaði Ron og flissaði. Harry brosti og horfði á Ariönu hripa niður stikkorð úr ræðu prófessor Binns.
Hvað hafði hún og Hermione verið að tala um um morguninn? Og af hverju gekk Ariana inn með prófessor Donahue?
Harry varð að hætta hugsunum sínum því að Ron potaði harkalega í hann með fjöðurstafnum sínum. Hann benti Harry með látbragði á að líta út um gluggann.
Harry skimaði yfir skólalóðina en þurfti ekki að leita lengi til að sjá hvað Ron var að tala um. Við vatnið stóðu Hagrid og prófessor Donahue og voru greinilega að tala saman.
Donahue leit einstöku sinnum niður og strauk hendinni yfir augun, svo það leit út að hún væri að gráta. Hagrid klappaði henni góðlátlega á öxlina sem olli því að hún datt til hliðar og Ron flissaði þessi heilu ósköpin.
Hagrid hjálpaði Donahue upp fljótt og eftir smá spjall faðmaði Donahue Hagrid allt í einu að sér. Hagrid faðmaði hana á móti, svo kvöddust þau og gengu sitt í hvora áttina.
”Hvað var nú þetta?” hvíslaði Ron og Harry yppti öxlum. ”Hagrid bara kominn með kærustu..” Ron glotti en Harry hristi höfuðið. ”Ég efa það, enda virtist hún vera grátandi. Það er það sem ég er að velta fyrir mér.” Hvíslaði hann. ”Það og….”Hann kinkaði kolli í átt að Ariönu og Ron gaf honum merki um að hann skildi þetta.
”Herra Porter og Herra Wilson, viljiði hafa þögn á meðan tímanum stendur eða yfirgefa stofuna.” Sagði prófessor Binns og fór vitlaust með nöfn þeirra eins og vanalega. Svo hélt hann lestrinum áfram eins og ekkert hafði í skorist.
”Nú, ráðuneytið hafði í fyrstu aðeins fimm deildir sem fljótt klofnuðu í tólf og þaðan í tuttugu. Þessar tuttugu deildir voru Muggavarnardeildin undir stjórn John H. Marson, sem einnig var fyrsti galdramaðurinn til þess að……………”

”Var þetta bara ég eða var þetta sá allra lengsti tími sem að við höfum nokkurn tímann farið í í Sögu galdranna?” Sagði Ron og geispaði um leið og þau gengu út úr stofunni.
”Þetta ert bara þú” Sagði Hermione og glotti.
Leiðir skildust þegar Harry, Ron og Ariana héldu saman í átt að turninum þar sem spádómafræðin fór fram. Harry og Ron til mikillar mæðu hafði Trelawney prófessor fengið gamla starfið sitt aftur eftir að Umbridge yfirgaf skólann á seinasta ári. Ariana, sem var auðvitað ný, hafði ekki hugmynd um hvernig tímarnir í spádómafræði voru og virtist hlakka mjög mikið til.
”Tímarnir okkar í gamla skólanum mínum í Salem voru alveg æðislegir. Prófessorinn okkar, herra Williams, var alveg frábær og hafði virkilegan hæfileika. Enda var hann vinsælasti prófessorinn í skólanum. Búinn að skrifa nokkrar bækur um sjáendahæfileikann og hvernig má uppgvöta hann og fleiri fleiri bækur.” sagði hún og bætti svo glottandi við. ”Sumar stelpurnar í skólanum mínum voru meira að segja bara í þessum tímum til að vera nálægt honum..af því að þær voru skotnar í honum”.
”Lockhart” sögðu Ron og Harry samtímis en Ariana leit út eins og spurningamerki í framan. Ron hóf að útskýra fyrir henni hver Lockhart var og hvernig hafði farið fyrir manngreyinu, en þegar þau komu að stiganum uppí kennslustofuna gat Harry ekki hugsað um neitt annað en það hversu miklum vonbrigðum Ariana myndi verða í þessum tíma.
Þegar þau stigu upp í kennslustofuna helltust minningarnar yfir Harry. Í kennslustofunni var allt eins, sama þunga ilmvatnslyktin og svimandi hitinn.
Þrenningin kom sér fyrir á borði aftarlega í stofunni og eftir stutta stund var kennslustofan full. Í því birtist prófessor Trelawney er hún gekk framundan þykkum tjöldum sem huldu einn vegginn í kennslustofunni. Eitthvað virtist hafa breyst við Trelawney þó. Hárið á henni virtist vera greitt í fyrsta sinn í langan tíma og klæðnaðurinn var snyrtilegur.
”Velkomin í kennslustund í spádómum þetta árið.” sagði hún með djúpri rödd. ”Við ætlum að byrja á að spá í kristalskúlur í þessum tíma, smá upprifjun frá því í fyrra”. Trelawny gekk innar í kennslustofuna en stöðvaði svo allt í einu. ”Ég skynja eitthvað nýtt hérna inni..nýjir hæfileikar..” Sagði hún með sömu röddinni en nú virtist hún vera að reyna að hljóma einhvern veginn öðruvísi. ”Er nýr nemandi hérna inni?” Spurði hún.
Feiminn rétti Ariana upp hönd og Trelawny leit á hana. ”Hvað heitir þú vinan?” spurði hún með vinalegri röddu og Ariana svaraði. ”Ég er frá Salem.” bætti hún svo við.
”Ah, ég vissi það nú fyrir” sagði Trelawny með djúpri röddu. Allt í einu greip hún um höfuð sér og æpti upp.
”óóó! prófessor, er allt í lagi?” stundi Lavender sem sat nálægt henni.
”Svo miklar tilfinningar, svo mikið sem á eftir að koma í ljós!” Kallaði Trelawny upp og hélt enn þéttar um höfuð sér. Ron leit undrandi á Harry.
”Hryllilegur sannleikur..” stundi Trelawny. ”Hryllilegur sannleikur mun koma fram fyrir eitt ykkar í lok ársins!”
Harry og Ron skiptust á þýðingamiklu augnaráði. Þessi spádómur var á einhvern hátt öðruvísi en aðrir kjaftæðisspádómar Trelawnys.
”En bíðið!” gall allt í einu í kennaranum. Hún hafði nú tekið hendurnar frá augunum og leit á nemendurnar í kringum sig. ”Ég sé líka dauða. Í lok ársins mun aðili fæddur í júnímánuði deyja og yfirgefa okkur fyrir fullt og allt.”
Ron leit glottandi á Harry. Þeir vissu vel að eina manneskjan í þessari kennslustund sem fædd væri í júní væri Harry og Trelawny hafði spáð honum dauða síðastliðnu þrjú árin.
”Enn einu sinni.” Hvíslaði Ron og flissaði. ”Þú virðist ekki ætla að sleppa í ár, félagi.”
Harry brosti laumulega. Eitt augnablikið hafði honum dottið þar í hug að Trelawny væri að koma með sannan spádóm. Trelawny hafði aðeins nokkrum sinnum spáð rétt fyrir og hafði Harry verið vitni af einum. Einum sem snerist um Ormshala og Voldemort.
Tíminn leið hratt eftir þetta og sluppu Ron og Harry við heimavinnu eftir að þeir spáðu fyrir sjálfum sér hryllilegum örlögum með notkun kristalskúlunnar. Harry spáði því að hann myndi lenda í hryllilegu slysi í lok annarinnar og Ron spáði því að hann yrði fyrir mikilli sorg, einmitt líka í lok annarinnar.
Þeir hlógu af þessu öllu þegar þeir klifruðu niður stigann úr kennslustofunni í lok tímans. ”Ég var farinn að halda að hún væri að segja eitthvað með viti í þetta sinn, en hún gjörsamlega eyðilagði það með þessu tali um dauða.” Sagði Ron og hristi höfuðið brosandi. Harry brosti en tók svo eftir Ariönu sem gekk fyrir aftan þá. Hún virtist föl og mjög hugsi. ”Ariana?” sagði Harry og stoppaði. Ariana leit á hann. ”Er ekki allt í lagi?”
Ariana leit á Ron og Harry til skiptis eins og hún vissi ekki alveg hvað átti að segja.
”Áttu nokkuð afmæli í júní?” spurði Ron og Ariana hristi höfuðið. ”Nei, ég á afmæli í október.”. Ron brosti til hennar. ”Þú þarft ekki að hafa neinar áhyggjur um þetta. Trelawny getur ekki spáð fyrir. Hún er hefur ekki hæfileikann til að sjá. Til dæmis er hún búin að spá því að Harry deyji í lok ársins í heil þrjú ár núna. Og eins og þú sérð hefur það aldrei staðist.” Ariana glotti og leit brosandi á Harry sem endurgalt brosið, og saman gengu þau þrjú niður í dýflissurnar þar sem tími í töfradrykkjum átti að fara fram.
Fyrir framan dýflissuna stóð Hermione ein og nálægt henni stóð Slytherin hópurinn. Hermione virtist einstaklega fegin þegar Harry, Ron og Ariana komu og brosti út að eyrum þegar þau stilltu sér upp við hlið hennar. Harry gaut augunum í áttina að Slytherin hópnum og kom auga á Pansy Parkinson, þar sem hún stóð ásamt vinkonum sínum í hóp og þær horfðu illilega í áttina að þeim.
Hurðin að kennslustofunni opnaðist að sjálfdáðum og nemendurnir gengu inn.
”Oj, hvaða lykt er þetta stelpur?” Hvæsti í Pansy þegar hún og vinkonur hennar gengu inn á eftir Harry og vinum hans. ”Hlýtur að vera af útlendinginum, þeir fara aldrei í bað” Pansy brosti illkvittnislega og flýtti sér með flissandi vinkonum sínum að sætum sínum. Harry horfði undrandi á eftir henni og velti fyrir sér hvað í ósköpunum hún væri að meina með þessu. Hann þurfti þó ekki að velta þessu fyrir sér lengur því Ron hnippti laumulega í skikkjuermina á honum og kinkaði kolli í áttina að Ariönu og Hermione, sem höfðu fengið sér sæti við tveggja manna borð. Ariana virtist vera miður sín og Hermione var að hvísla einhverju að henni. Hún klappaði henni á bakið og leit svo illilega í áttina að Pansy og vinkonum hennar.
Harry áttaði sig á þessu. Ariana var útlendingur. Hún var ekki bresk. Harry hafði gjörsamlega gleymt því að Ariana hafði komið ný inn í skólann, jafnvel þó að hann og Ron höfðu verið að útskýra alls konar hluti fyrir henni um Hogwarts í allan dag. Í hans augum var Ariana bara venjuleg manneskja, manneskja sem honum þótti nú vænt um. Vinkona hans. Besta vinkona hans, ásamt Hermione auðvitað.
Hann og Ron settust niður á borðinu fyrir aftan Hermione og Ariönu og tóku upp bækurnar sínar. Harry leit snöggvast yfir kennslustofuna og stöðvaði aðeins við á Pansy og vinkonum hennar, sem ennþá voru flissandi og glottandi. Nema Pansy. Pansy var sest niður og horfði undarleg á svip framfyrir sig. Harry fylgdi augnaráði hennar að sæti nokkrum röðum fyrir framan hana. Í sætinu sat Malfoy og við hlið hans sat Crabbe. Draco horfði í áttina að Ariönu og virtist vera áhyggjufullur á svip. Allt í einu tók hann eftir því að Harry var að horfa á hann. Fyrst virtist eins og hann vissi ekki hvað hann ætti að gera en að lokum kipraði hann augun aðeins saman og sneri sér svo að bókunum sínum. ”Hvað er eiginlega í gangi hjá Slytherinkrökkunum?” Hvíslaði Ron að Harry og horfði í sömu átt og hann. ”Sérstaklega hjá Malfoy og Pansy…”. Harry yppti öxlum.
”Veistu hvað ég held?” Hvíslaði Ron áfram og Harry leit á hann. ”Ég held að þú sért ekki sá eini sem er skotinn í Ariönu.”. Harry horfði undrandi á Ron. Hann leit á Ariönu, svo á Malfoy og að lokum aftur á Ron. ”Ég er ekkert skotinn í Ariönu….Við erum bara vi…” Hann náði ekki að klára því að inn í stofuna gekk hávaxinn maður, frekar ungur á að sjá. Hann var klæddur í snyrtilega svarta vinnuskikkju og með stutt svart hárið greitt aftur. Hann var fríður á að sjá, greinilega maður sem hafði hugsað um útlit sitt síðastliðnu ár. Hann var velrakaður og þegar hann stöðvaði við kennaraborðið litu skærblá augun rólega yfir nemendahópinn sem starði til baka. Hann virtist hafa verið með arnarnef einhvern tímann en að það hafði brotnað fyrir löngu, því smá beygja sást á því.
”Góðan daginn, Slytherin og Gryffindor. Velkomin í fyrsta tíma ykkar í Töfradrykkjum.” Sagði hann með hárri og öruggri röddu. Harry kannaðist ótrúlega við þennan mann, en kom því bara ekki fyrir sig hvar hann hafði séð hann áður. Hugleiðingum hans var svarað í næstu setningu mannsins. ”Ég heiti Andreas Snape og er forfallakennari ykkar í töfradrykkjum.”. Muldur braust út í bekknum. ”Snape?” Sagði Neville upphátt, án þess að ætla sér það. Andreas Snape leit á Neville og horfði á hann um stund. ”Já. Kennari ykkar, prófessor Severus Snape, er eldri bróðir minn.” Harry og Ron litu hissa á hvorn annan. Átti Snape bróður? Hermione rétti upp hendi svo snögglega að Ariönu virtist dauðbregða. Andreas leit á hana og gaf henni leyfi til að spyrja hann spurningu með því að kinka kolli eldsnöggt.
”Prófessor Snape? Mætti ég spyrja, hvar er prófessor Snape?” Spurði Hermione. ”Hinn þá, meina ég. Prófessor Severus Snape..” Bætti hún við vandræðaleg.
Prófessor Andreas Snape horfði á nemendurnar og leit út eins og hann væri að velta fyrir sér hvað hann ætti að segja þeim. Að lokum leit hann niður á kennaraborðið og svo aftur á Hermione. ”Bróðir minn varð fyrir árás stuttu fyrir byrjun skólans hér í Hogwarts”

kv.
Sillymoo