Harry og Malfoy litu hvor á annan, hræðsla og sársauki skein úr augum þeirra beggja.
“Ég held ég hafi brotið á mér ökklann þegar ég lenti,” sagði Malfoy lágt, það hnussaði í Harry sem enn var nokkuð reiður við Malfoy.
“Þú braust alla vegana á mér fótinn þegar þú lentir á honum,” hreytti hann reiður út úr sér og benti á hægri sköflunginn sem lá undarlega beygður í átt frá líkama hans. Malfoy varð skelfdari á svip og skreið í áttina til Harrys til að líta betur á fótinn. Það var lítil birta sem barst inn um opið á loftinu en nóg til að þeir gátu séð sitt nánasta umhverfi sem ekki var þó upp á marga fiska. Þetta var stór rúmgóð hvelfing með gati í miðju loftinu, það var rétt hjá Bane, það var engin leið að komast upp um þetta gat hjálparlaust. Þegar Malfoy hafði tekist að komast upp að hlið Harrys fór hann að athuga brotna fótinn.
“Hvað ertu að gera?” spurði Harry sem ekkert leist á það að leyfa Malfoy að athuga fótbrotið sitt.
“Leyfðu mér að skoða þetta,” svaraði Malfoy, “ég veit ýmislegt um skyndihjálp.” Harry starði á hann tortrygginn á svip en sársaukinn var svo mikill að hann ákvað að hann hefði ekki annarra kosta völ en að leyfa Malfoy að hjálpa sér. Malfoy færði skikkju Harrys upp fyrir hné til að skoða beran fótinn betur. “Þetta lítur út fyrir að vera hreint brot,” tautaði hann meira við sjálfan sig en Harry. “Ég þarf að færa fótinn á þér og setja hann í rétta stöðu, en þú þyrftir að komast hérna upp að veggnum því þú þarft að geta verið alveg kyrr á eftir.” Harry horfði tortrygginn á hann en reyndi svo að draga sig áfram á höndunum í átt að veggnum. Það var erfiðara en hann átti von á, í hvert skipti sem örlítil hreyfing komst á brotna fótinn var eins og verið væri að slíta hann af.
“Ég veit þetta er vont,” sagði Malfoy, óvenju samúðarfullur, “en þú verður að reyna. Ég skal hjálpa þér.” Hann skreið aftur fyrir Harry og tók undir hendurnar á honum og dró hann aftur á bak í átt að veggnum.

Þegar Harry var loksins kominn í stöðu þar sem hann gat slakað á og lagst upp að veggnum sneri Malfoy sér aftur að brotna fætinum.
“Þetta verður vont, en þegar ég hef komið brotinu í rétta stöðu þá getur það gróið betur og verður í öllu falli ekki verra þar til við komumst á sjúkraálmuna.” sagði hann, “ef við komumst þá einhvertímann þangað.” bætti hann svo við vonlaus á svip. “En mig vantar eitthvað til að binda utan um þetta.” Hann fór að svipast um og fann nokkrar greinar sem lágu á gólfinu í kring um þá. Hann fann til tvær sem honum leist ágætlega á og sneri sér svo að Harry. “Ertu í einhverju undir skikkjunni?” Þetta fannst Harry óvenjuleg spurning,
“Já ég er í stuttermabol, af hverju spyrðu?” svaraði hann hikandi.
“Því mig vantar eitthvað sem ég get notað til að binda utan um fótinn á þér, var ég ekki að segja það?” svaraði Malfoy óþolinmóður. “Láttu mig fá stuttermabolinn þinn, ég get notað hann.” Harry klæddi sig úr, rétti Malfoy bolinn og fór svo aftur í skikkjuna. Malfoy reif bolinn niður í ræmur og sagði svo,
“Jæja, ertu tilbúinn?” Harry kinkaði kolli og Malfoy tók í brotna fótinn og færði brotið rétt saman. Harry beit fast saman til að æpa ekki af sársauka, hann ætlaði ekki að leyfa Malfoy að njóta þess að sjá hann kveljast. Malfoy tók greinarnar og lagði meðfram fætinum og hófst handa við að binda utan um spelkurnar með rifnum bolnum.
“Þetta er ekki alveg nóg, ég þarf að rífa neðan af skikkjunni þinni og nota það líka,” sagði hann eftir litla stund og reif í einum vettvangi stóra ræmu neðan af skikkju Harrys sem giskaði á að nú næði hún honum rétt niður fyrir hné. Malfoy notaði þessa ræmu og batt betur um fótinn sem nú var orðinn nokkuð stöðugur og Harry fann að brotið var kyrrt þó að hann hreyfði fótinn. Það leit ekki út fyrir að Malfoy væri að gera þetta í fyrsta skipti og það kom Harry á óvart. Hann hafði haldið að svona lagað væri ekki eitthvað sem Draco Malfoy hefði haft þörf fyrir að kunna.

“Hvernig kanntu þetta allt saman?” spurði Harry loksins þegar Malfoy var að ljúka við að ganga frá umbúðunum um fótlegginn. Malfoy varð vandræðalegur á svip, horfði niður fyrir sig og virtist ákaflega upptekinn af því að ljúka verkinu.
“Ég hef bara oft þurft á því að halda og hef lært af reynslunni,” svarði hann loksins lágt.
Hvað átti þetta að þýða? Harry varð ringlaður á svip og spurði,
“Hvenær hefur þú þurft á því að halda að hlúa að eigin sárum? Ekki hér í skólanum og ég hefði nú haldið að pabbi þinn færi með þig beint á St. Mungos bara ef þú fengir smá blóðnasir þó ekki væri meira.” Það hnussaði í Malfoy,
“Það sýnir bara hversu mikið þú veist um fjölskylduna mína,” svaraði hann pirraður um leið og hann færði sig nær veggnum og hallaði sér upp að honum þreyttur á svip.
Harry hallaði sér upp að veggnum þreyttur og ringlaður. Hann verkjaði um allan skrokkinn, ekki bara í brotna fætinum heldur líka í nefið og á fleiri stöðum eftir slagsmálin við Malfoy.
Hvað átti hann við? Af hverju hafði hann þurft á því að halda að læra skyndihjálp og af hvaða reynslu var hann að læra? Hvað vissi Harry ekki um fjölskylduna hans og hvað kom það málinu við?

Harry leit aftur í átt til Malfoys og sagði lágt,
“Takk,” Malfoy leit undan og tautaði eitthvað sem átti víst að þýða ekkert að þakka. Hann reisti sig nú við og fór að athuga ökklann á sjálfum sér. Harry leit á hann og sá að hann var stokkbólginn og leit út fyrir að vera í það minnsta tvöfalt breiðari en sá sem var heill. Malfoy klæddi sig nú úr skikkjunni sinni til að ná sér í skyrtuna sem hann var í innanundir. Þegar hann klæddi sig úr skyrtunni sá Harry að líkami hans var allur þakin örum og sum þeirra voru nýleg að sjá.
“Hvað kom fyrir þig?” spurði Harry áhyggjufullur á svip. Malfoy dreif sig aftur í skikkjuna sína og lét eins og ekkert væri.
“Í alvöru, hvað gerðist?” spurði Harry aftur, Malfoy reif niður skyrtuna sína og hófst handa við að binda um ökklann.
“Við skulum bara segja að það borgar sig ekki að óhlýðnast Luciusi Malfoy,” sagði hann lágt á milli samanbitinna tannanna með reiðiþrunginni röddu. Augun á Harry stækkuðu töluvert og munnurinn opnaðist ósjálfrátt.
“Áttu við… ” stundi hann, “áttu við að pabbi þinn hafði gert þér þetta?”
“Og það var rétt, þú hefur unnið þér inn ferð fyrir tvo til Honolulu.” svaraði Draco Malfoy með mikilli kaldhæðni. Harry starði á hann,
“Er það þess vegna sem þú hefur þurft að læra að skyndihjálp?”
“Rétt enn á ný,” svaraði Malfoy með sömu kaldhæðnina í röddinni. “Þú ert ekki eins vitlaus og þú lítur út fyrir að vera.” bætti hann svo við.
Harry horfði á hann skelfingu lostinn.
“Hvers vegna?” spurði hann, Malfoy ranghvolfdi í sér augunum og leit svo á Harry með uppgjafasvip,
“Af því að hann getur það. Af því að hann vill sýna mér að ég á allt mitt undir honum. Af því að hann vill refsa mér fyrir að vera ekki eins og hann. Af því að hann er fúll yfir því að eina barnið sem hann mun nokkru sinni eignast þurfti að vera ég og ég er ekki týpan sem hlýðir einu og öllu sem hann segir mér að gera Af því hann er fífl. Viltu fleiri ástæður?”
Harry gapti og starði á hann,
“En mamma þín, stoppar hún hann ekkert?” Það hnussaði í Malfoy,
“Hún reynir stundum, en þá er henni bara refsað líka svo yfirleitt passar hún sig bara á að vera ekki á staðnum og lætur sem hún viti ekkert af þessu.” Þetta hafði Harry aldrei dottið í hug, hann sem hélt að Draco Malfoy fengi allar sínar óskir uppfylltar og væri eins og prins á Malfoy setrinu og allt fyrir hann gert.
“En, pabbi þinn er alltaf að gefa þér flotta hluti og þið talið um hvern annan eins og þið séuð bestu vinir og hann gaf öllu Slytherinliðinu flotta kústa á öðru árinu okkar.” sagði hann eins og til að reyna að fá heiminn til að fylgja réttum rökum á ný.
“Fólkið í kring má ekki vita hversu ömurlegur sonur ég er. Hann keypti kústana til að ég fengi að vera í liðinu, annars hefði ég ekki komist inn eins og þú veist alveg sjálfur” Malfoy roðnaði örlítið, “og það hefði hann ekki mátt sjá, mér var líka refsað talsvert mikið fyrir að komast ekki í liðið af sjálfsdáðum. Við tölum alltaf vel hver um annan því að enginn má vita neitt, ef ég myndi segja eitthvað slæmt um hann geturðu bókað það að hann myndi frétta af því. Allir svokallaði vinir mínir eru synir og dætur vina hans og allt sem ég geri fær pabbi að vita nánast samdægurs. Þannig að það er eins gott fyrir mig að leika mitt hlutverk allan daginn, sama hvar ég er. Ég meina, í alvöru, heldurðu virkilega að ég hangi með fólki eins og Crabbe og Goyle af því að mér líkar vel við þá?” Þetta kom Harry jafnvel enn meira á óvart,
“u… ” stamaði hann, “já, ég hélt reyndar að þér finndist bara ágætt að hafa svona þursa við hliðina á þér sem vernda þig og gera allt sem þú segir þeim að gera.” Það hnussaði enn hærra í Malfoy við þetta
“Þeir gera það sem ég segi þeim að gera og fylgja mér í einu og öllu af því að pabbar þeirra eru skíthræddir við pabba minn og eru búnir að skipa þeim að láta eins og ég sé konungur alheimsins.”
“Vá, áttu þá enga alvöru vini?” spurði Harry varlega. Malfoy varð niðurlútur og hristi höfuðið.
“Ég hef aldrei átt alvöru vin” sagði hann ósköp lágt, hann leit upp og Harry sá hatur í augum hans, “Annað en þú,” bætti hann við, “þú átt nóg af vinum og færð allt upp í hendurnar, án þess einu sinni að þurfa að biðja um það.”
“Fæ ég allt uppí hendurnar hvað?” spurði Harry pirraður,
“Þú færð allt sem þig vantar, þú fékkst nýjan kúst þegar þú þurftir á honum að halda, fyrst fékkstu nimbusinn og svo þrumufleginn, án þess einu sinni að þurfa að biðja um hann. Allir kennararnir í skólanum elska þig út af lífinu og gera allt fyrir þig, nema kannski Snape en hann er líka vinur hans pabba. Þú kemst upp með hvað sem er, ég hefði svo innilega verið rekinn úr skólanum ef ég hefði gert helminginn af því sem þú hefur gert og í þokkabót ert þú bara sjálfs þíns herra og þarft ekkert að kljást við foreldra. Okei, ég veit að þetta hljómar ekki vel og foreldrar þínir voru eflaust ágætir og þú hefðir lifað talsvert betra lífi með þeim,”bætti hann hratt við, “en ég myndi frekar vilja vera munaðarlaus og fátækur en að búa í þessu fangelsi sem ég bý í. Ég myndi næstum gera hvað sem er til að losna þaðan. Það var frábært þegar hann lenti í Azkaban í vor, en því miður var hann ekki þar nema nokkra daga og kom svo heim helmingi verri en venjulega.” Harry horfði á þennan strák sem hann hélt hann hefði þekkt en vissi í raun ekkert um. Þennan strák sem virtist engan eiga að. Hann sjálfur átti þó Weasley fjölskylduna, Hermione, Lupin og fönixregluna eins og hún lagði sig og meira að segja Dumbledore. Draco Malfoy átti ekki neinn.

Allt í einu skaust hugmynd í kollinn á Harry og hann leit á Draco fullur af ákafa,
“Þú sagðist vilja gera nánast hvað sem er til að sleppa, meinarðu það?” Draco var brugðið og leit efins í augun á Harry,
“Jah.. ég ætla ekki að drepa hann ef það er það sem þú átt við, þá fæ ég bara aðeins öðruvísi fangelsi.” sagði hann hugsi.
“Nei, ég meinti það nú ekki,” svaraði Harry, “en gætirðu hugsað þér að svíkja hann og sjá til þess að hann verði lokaður inni í nýja fangelsinu?” Það birti yfir svip Dracos,
“Ég skal svíkja hann og alla vini hans, jafnvel hinn myrka herra.” svaraði hann og lúmskt glott færðist yfir andlit hans, “Ég verð vígður inn sem Drápari í lok janúar, afmælisgjöfin mín,” sagði hann með falskri gleði, “þá verð ég sautján og þar með hef ég náð aldri og þá á ég að verða gjöf til hins myrka herra. Ég er búin að vera að hugsa hvernig ég geti snúið þessu uppá pabba og hefnt mín fyrir allt sem hann hefur gert mér en mig vantar hjálp og ég veit ekkert hvert ég á að snúa mér.”
Harry brosti til hans og svaraði,
“Ég er með sambönd við frekar sterkan hóp sem er að leita allra leiða til að klekkja á Voldemort og öllum sem honum tengjast. Það vantar alltaf fleiri í upplýsingaöflun, ef þú skilur hvað ég á við. Ef þú ert reiðubúinn til að gefa okkur upplýsingar og segja okkur það sem þú veist um áætlanir Voldemorts, pabba þíns og fleiri, þá getum við séð til þess að þeir verði lokaðir inni um ókomna framtíð.”
Bros læddist um varir Dracos Malfoy,
“Ég er til! Um leið og við komumst héðan út, er ég þinn. Bara segðu mér hvað þú vilt að ég geri.” Harry brosti og þeir tókust í hendur,
“Ég tala við mitt fólk og læt það vera í sambandi við þitt fólk.” sagði hann og hló.
“Hljómar vel,” sagði Draco og hló líka. Harry áttaði sig á því að hann hafði aldrei séð Draco hlæja áður. Í öll þessi ár hafði hann aldrei séð hann glaðan. Hann hafði oft glott og verið með illkvittnisvip en aldrei alvöru gleðisvip. Hann fann að þrátt fyrir allt þá gat hann treyst Draco Malfoy.
Vá, þetta er skrýtið, tveir Slytherin gaurar á einni viku sem mér er farið að líka við. Aldrei hefði ég trúað því, hugsaði hann með sér.

“Af hverju sagðir þú að þú værir eina barnið sem pabbi þinn myndi nokkru sinni eignast? Getur hann ekki átt fleiri börn?” spurði Harry allt í einu upp úr þurru. Draco glotti og leit á hann,
“Hann lenti í smá.. útreiðarslysi,” svaraði hann sposkur á svip, “Hann datt af baki og hesturinn fældist og sparkaði svolítið duglega í ”slátrið“ með þeim afleiðingum að allar áætlanir um fleiri börn heyra sögunni til.” Harry átti erfitt með að halda aftur af sér hlátrinum, hann leit á Draco og þeir sprungu báðir úr hlátri. “Reyndar verð ég að segja að ég er þessum hesti mjög þakklátur, því ef pabbi ætti fleiri börn þá væri ég eflaust löngu dauður. Ég er sjáðu til sá eini sem getur borið nafn hans og arfleið áfram og þess vegna fæ ég að lifa, þrátt fyrir að vera ekki hann endurborinn.”

Það var langt liðið á kvöldið og þeir tóku eftir því að myrkrið í holunni þeirra var orðið talsvert meira og sólargeislarnir sem höfðu brotið sér leið niður um opið virtust vera að verða færri og færri. Eftir örskamma stund sáu þeir ekki lengur handa sinna skil.
“Ætli við komumst einhvern tímann héðan?” spurði Draco og Harry greindi áhyggjutón í röddinni.
“Dumbledore bjargaði Umbridge frá kentárunum í fyrra, hann reddar okkur líka.” svaraði Harry og reyndi að hljóma sannfærðari en hann í raun og veru var. Allt í einu fékk hann hugmynd,
“Draco,” sagði hann, “á öðru árinu mínu lenti ég í vanda en af því að ég sagðist treysta á að Dumbledore gæti bjargað hlutunum og að hann væri sterkasti galdramaður veraldar kom fönixinn hans og bjargaði mér. Hann skynjar það ef einhver sýnir Dumbledore hollustu og kemur til bjargar. Við verðum að prufa hvort að það virkar hérna. Ég veit ekki hvort að hann skynjar það fyrir utan skólann, en hann gæti skynjað það hingað, við erum ekki það langt í burtu.”
“Þannig að við þurfum bara að tala vel um Dumbledore og þá reddar fönixinn okkur?” spurði Draco hissa,
“Já en við þurfum að meina það.” svaraði Harry.
“Okei eftir hverju ertu að bíða.” hélt Draco áfram, “Dumbledore er besti skólameistari sem Hogwarts hefur nokkru sinni haft.” sagði hann hátt og skýrt, “og hann er lang öflugasti galdramaður sem nokkru sinni hefur gengið á þessari jörð.” hélt hann áfram, “hann bjargar okkur, sannaðu bara til,” Harry tók undir og dágóða stund bergmálaði hvelfingin af lofum til Dumbledores.

Eftir nokkrar mínútur heyrði Harry kunnuglegt hljóð og í örskamma stund lýstu ljósir logar upp hvelfinguna og Harry sá Fawkes sem stuttu seinna sat í fangi hans.
“Fawkes,” sagði hann, “geturðu náð í Dumbledore og sagt honum hvar við erum?” spurði Harry. “Heyrðu bíddu, ég er með blað, Draco, ertu með eitthvað sem skrifar?” Draco tók fram fjaðurstaf sem var sjálfblekungur og rétti honum. “Bíddu Fawkes ég ætla að fá að skrifa Dumbledore bréf.” Hann hripaði eitthvað niður á blaðið og rétti það til Fawkes, “Flýttu þér með þetta til Dumbledores, takk fyrir elsku vinur.” sagði hann um leið og Fawkes hvarf aftur í ljósum logum.
“Hvað nú?” spurði Draco sem sat við hlið hans í myrkrinu.
“Nú þurfum við bara að bíða,” svaraði Harry, “Dumbledore fær bréfið og veit þá hvar við erum. Hann reddar okkur einhvern veginn.”

Drengirnir tveir sátu hlið við hlið í myrkrinu og reyndu að láta fara vel um sig á moldargólfinu. Næturkuldinn nísti þá í gegn um þunnar skikkjurnar sem þeir nú voru nánast naktir undir. Sársaukinn frá brotnum fótum þeirra og öðrum áverkum eftir ævintýri dagsins hélt fyrir þeim vöku. Þeir fundu ekki hjá sér þörf fyrir að tala saman allan tíman en fannst gott að vita hver af öðrum. Þessi nýfundna vinátta kom þeim báðum á óvart en þeir vissu að þeir gátu treyst hvor á annan héðan í frá.
Eftir langa og kalda nótt fóru fyrstu sólargeislar morgunsins að teygja sig inn um opið fyrir ofan þá.
“Hvað skrifaðir þú í bréfið til Dumbledores?” spurði Draco og leit á Harry,
“Bara að kentárarnir hefðu tekið okkur og hent okkur ofan í holu og þar sætum við báðir fótbrotnir. Svona eitthvað á þá leið.” sagði Harry og yppti öxlum, “vildi bara að hann vissi hvar við værum og að við gætum ekki gengið sjálfir héðan út.”
Það hvað við hár hvellur og drengirnir hrukku báðir í kút og litu upp. Við þeim blasti dásamleg sjón, Albus Dumbledore stóð og horfði niður um opið til þeirra og sagði,
“Jæja piltar, eigum við ekki að koma ykkur á sjúkraálmuna, fröken Pomfrey bíður eftir ykkur.”