Gryffindornemarnir sem nú voru að hefja sitt sjötta ár við Hogwarts sátu á ganginum fyrir framan skrifstofu prófessors McGonagall, reiðubúnir að ræða við hana um framtíðaráætlanir sínar.
“Ég ætla að fara í spádómafræði, jurtafræði og ummönnun galdraskepna,” sagði Lavender Brown, “Ég ætla að verða spákona.”
Það hnussaði í Hermione sem greinilega fannst það ekki merkileg áform.
“Ég ætla að reyna að fá vinnu í Galdramálaráðuneytinu,” sagði Dean Thomas, “mig langar að vinna í samskiptum við muggana. Foreldrar mínir eru nátturlega muggar svo ég þekki þann heim ósköp vel og ég held að það veiti ekki af fólki sem skilur muggana betur til að starfa í þeirri deild ráðuneytisins.” Harry gat nú ekki annað en verið sammála því eftir að hafa séð aðfarir hr. Weasleys og félaga hans í gegn um árin en við hlið hans hnussaði í Ron, sem var enn fremur ósáttur við þá tilhugsun að Dean væri að slá sér upp með litlu systur hans.

“Neville, hvað stefnir þú á?” spurði Hermione. Neville roðnaði upp í hársrætur og varð ósköp vandræðalegur að sjá.
“Það er eiginlega bara eitt sem ég hef alla tíð viljað vera” stundi hann upp úr sér, “mig langar alveg rosalega að verða læknir, en það þarf svolítið betri einkunnir en ég er með til þess að það gangi, svo ég veit ekki alveg. Ég ætla að tala við prófessor McGonagall og athuga hvort hún haldi að ég geti kannski fengið að halda áfram í töfradrykkjum ef ég tek líka aukatíma eða eitthvað svoleiðis.”
“Það er rosalega góð hugmynd,” sagði Hermione hughreystandi. “Neville, þú yrðir örugglega fínn læknir. Ef þú vilt þá get ég alveg reynt að hjálpa þér við töfradrykkina á kvöldin.” Neville brosti og þakkaði Hermione kærlega fyrir. Í því birtist prófessor McGonagall í dyrunum og kallaði Neville inn til sín.
“Hermione, hvað ætlar þú að velja þér?” spurði Ron allt í einu, undrandi á svip, “ég var að uppgötva að við erum búin að spjalla oft um það að við Harry ætlum að stefna á skyggnanámið, en við vitum ekkert hvað þú ætlar að gera.” Hermione brosti út í annað og svaraði,
“Ég ætla að velja mér töfrabrögð, ummyndun, varnir gegn myrku öflunum, umönnun galdraskepna, sögu galdranna, fornar rúnir og svo er eitt fag sem mig langar að taka en veit ekki hvort sé hægt, ég þarf að ræða við prófessor McGonagall um það.”
“Vá, það munar ekki um það,” andvarpaði Ron, “það á eftir að vera nokkuð mikið að gera hjá þér í vetur. En afhverju sögu galdranna, það er svo leiðinlegt.”
“Ron, það er mjög mikilvægt að vita hvaðan við komum til að átta sig betur á hvert við stefnum.” sagði Hermione ströng á svip.
“…og hvað þýðir það á mannamáli?” spurði Ron ringlaður á svip. Hermione andvarpaði og hristi höfuðið mæðulega,
“Þú ert vonlaus! Sjáðu til, það er ýmislegt sem þarf að laga í galdraheiminum í dag, margt sem er svo rangt og enginn gerir neitt í neinu. Hvernig eigum við að geta bætt það sem betur má fara ef við höfum ekkert lært af reynslunni?” Allt í einu virtist Ron hafa skilið eitthvað.
“Hermione, ertu að tala um SÁR?”
“Meðal annars,” svarað hún.
“Ætlarðu að gera það að æfistarfi þínu?” spurði Ron með vantrúarsvip en Hermione gafst ekki tækifæri til að svara því nú birtist Neville í dyrunum skælbrosandi á svip.
“Hún ætlar að sjá til þess að ég fái að komast í öll fögin sem læknar þurfa að taka og vera viss um að ég fái nóga hjálp í þeim fögum sem mér gengur illa í. Harry, þú átt að fara inn næst,” bætti hann svo við og benti á dyrnar sem höfðu lokast á hæla hans.

Harry steig inn á skrifstofu prófessors McGonagall sem bauð honum sæti fyrir framan skrifborðið sitt.
“Jæja Harry, þú varst að stefna á skyggnanámið, var það ekki?” spurði hún. Harry kinkaði kolli. “Þú hefur ekki skipt um skoðun er það?” spurði hún aftur.
“Nei, nei, alls ekki,” svarði Harry, “Ég er bara að spá í því að prófessor Snape sagði að það fengi enginn að koma í tímana hans nema vera með A í töfradrykkum, ég var með A í verklegu en F í bóklegu.”
“Það ætti nú að nægja fyrir prófessor Snape,” svaraði hún að bragði, “ég skal eiga við hann orð og sjá til þess að það verði í lagi.
Þannig að þá tekur þú varnir gegn myrku öflunum, ummyndun, töfrabrögð, umönnun galdraskepna og töfradrykki. Eru einhver aukafög sem þú vilt taka með eða viltu láta þetta nægja? Þú stendur þig ágætlega í flestum þessum greinum, en það er spurning með töfradrykkina, þú þyrftir kannski að taka aukatíma í þeim eins og nokkrir aðrir,” bætti hún við.
“Ætli ég láti þetta ekki nægja,” svaraði Harry sem hugsaði með sér að hann þyrfti nú líka að hafa tíma fyrir quidditch, hughrindingu og að fylgjast með störfum Fönixreglunnar.
“Þá skrái ég þig í þessi fög og hef svo samband við þig seinna um aukatímana í töfradrykkjum.” Harry þakkaði henni fyrir og fór aftur fram á gang til hinna.

Seinni part dagsins ákváðu Harry og Ron að fara út á quidditch völlinn og æfa sig svolítið þar til kæmi að inntökuprufunum. Hermione kom með þeim en tók með sér nokkrar bækur til að lesa í sólinni á vellinum.
Harry átti svolítið erfitt með að handleika kústinn sinn á ný. Hann hafði ekki snert hann síðan að Sirius hafði dáið. Kústurinn hafði verið gjöf frá honum, gjöf sem hann hafði sent áður en Harry hafði fengið að vita að hann væri saklaus. Þegar Harry hafði haldið að hann væri svikari sem hafði selt foreldra hans í dauðann. Hann hafði aldrei fengið tækifæri til að sanna fyrir umheiminum að hann væri saklaus. Harry fann tárin lauma sér fram í augnkrókana.
Nei, hann ætlaði ekki að fara að gráta, ekki núna. Núna ætlaði hann að fara í quidditch með Ron og skemmta sér, hann var búin að gráta nógu mikið undanfarna daga.
“Harry, er allt í lagi?” spurði Ron og horfði á hann með spurn í augum og svolítinn áhyggjusvip.
“Já,” svaraði Harry harkalegar en hann hafði ætlað sér, “spilum bara.”
Þeir svifu um völlinn með boltana, æfðu hvorn annan og skemmtu sér konunglega þar til fleiri fóru að birtast á vellinum.

Heimavistirnar skiptu vellinum nokkuð bróðurlega á milli sín og undirbjuggu sig til að taka á móti þeim sem vildu spreyta sig. Katie Bell hafði verið valin fyrirliði Gryffindor liðsins í ár og nú sat hún ásamt Harry, Ron, Ginny, Andrew Kirke og Jack Sloper, öllum sem höfðu verið í liðinu í fyrra og voru enn við skólann.
“Ok, Andrew og Jack, þið verðið áfram varnarmenn,” sagði Katie, “Þið voruð farnir að standa ykkur ágætlega í vor, en þið verðið að gera mikið betur í vetur, þið þurfið mikla æfingu. Ginny, þú ert nokkuð góður leitari, en því miður jafnast þú ekki á við Harry. Harry verður því aftur leitarinn okkar í vetur.” Katie varð vandræðaleg á svip en Ginny svaraði að bragði,
“Ég veit það vel, þess vegna var ég að spá í að fá að reyna við sóknarmannastöðu í dag. Mér finnst það hvort eð er mikið skemmtilegri staða.” Katie létti mikið við þessi orð.
“Frábært, endilega. Þá vantar okkur bara einn sóknarmann í viðbót og svo er Ron áfram gæslumaðurinn okkar. Við þurfum mikla æfingu og þið skuluð búast við æfingum að lágmarki tvisvar í viku og oftar fyrir leiki.”
Nú tóku upprennandi quidditch leikmenn að streyma að tilbúnir að spreyta sig fyrir nýjar stöður.
Prufurnar stóðu langt fram á kvöld og þegar Gryffindor liðið hélt upp að Hogwartskastala til að snæða kvöldverð hafði Ginny verið ráðin sem nýr sóknarmaður ásamt Victoriu Frobisher, en hún hafði ákveðið að láta quidditch ganga fyrir annarri klúbbastarfsemi þennan veturinn. Vicky var reyndar mun betri sóknarmaður en gæslumaður eins og hún hafði sjálf uppgötvað um sumarið og var mjög spennt fyrir því að vera hluti af liðinu.
Við kvöldverðarborðið var lítið rætt annað en quidditch prufurnar og framtíðarhorfur liðsins, meira að segja Hermione tók þátt í umræðunum, þó reyndar einungis af hálfum hug.
“Hver er þetta?” spurði hún allt í einu og horfði upp að kennaraborðinu. Hinir litu upp og sáu sér til mikillar furðu að í sæti prófessors Snapes sat ungur huggulegur maður með svart hár tekið í tagl aftan á hnakkanum og í snyrtilegri, svartri skykkju.
“Þetta er Snape!” sagði Harry furðulostinn. “Hann er búinn að þvo sér um hárið og fá sér nýja skykkju.”
“Og hann er búinn að raka sig,” bætti Ron við alveg jafn hissa, “allavegana kinnarnar, bíddu… ég held að hann sé að reyna að safna skeggi.”
“Hann er bara myndarlegur þegar hann lappar aðeins upp á útlitið,” sagði Ginny forviða, “Hvað skyldi hafa hlaupið í hann?”
Það var spurningin sem brann á vörum margra í stóra salnum þetta kvöld.

Eftir kvöldmatinn ákvað Harry að nú væri kominn tími til að standa við loforðið sem hann hafði gefið sjálfum sér og reyndar Siriusi líka. Hann ætlaði að fara og tala við prófessor Snape og biðja hann um annað tækifæri til að læra hughrindingu. Harry gekk niður stigann í áttina að töfradrykkjastofunni, þar sem skrifstofa Snapes var fyrir innan. Hann var þungt hugsi. Hvernig átti hann að koma orðum að þessu? Hvernig átti hann að sannfæra Snape um að hann ætlaði að æfa sig og hann ætlaði að vera duglegri núna, að hann væri ekki eins og pabbi hans hafði verið. Fyrr en varði var hann kominn að stofunni. Hann staðnæmdist fyrir utan dyrnar sem ekki voru alveg lokaðar, að innan heyrði hann að einhver var að raula glaðlega. Harry hikaði örstutta stund en barði svo dyra og gægðist inn. Fyrir innan var prófessor Snape að laga til í hillunum sínum, næstum glaðlegur á svip, hann steinhætti að raula og hóstaði reiðinnar ósköp þegar hann sá hver það var sem stóð við dyrnar. Svipurinn breyttist samstundis og varð aftur eins og Harry þekkti hann best, kaldur og hatursfullur. Það var skrýtið að sjá þennan nýja Snape, svona snyrtilegan og vel til hafðan en samt svona reiðan og fullan af hatri.
“Hvað get ég gert fyrir þig, Potter?” spurði hann hranalega. Harry hikaði örlítið en ákvað svo að það væri nú eða aldrei,
“Mig langaði að biðja þig afsökunnar.” sagði hann, “Fyrirgefðu að ég skyldi kíkja í þankalaugina þína.” Þetta virtist koma flatt uppá Snape sem varð tortrygginn á svip. Harry hélt áfram,
“Ég veit ekki afhverju ég kíkti, ég veit hreinlega ekki hvað ég var að hugsa.”
“Nei, það er nú svo sem ekki nýtt með þig,” hreytti Snape út úr sér. Harry varð vandræðalegur á svip og svaraði,
“Ég veit það, ég gerði margt síðasta vetur sem ég vildi óska að ég gæti tekið til baka.” Hann varð hryggur á svip og fann að tárin voru ekki langt undan. Snape starði á hann og hörkusvipurinn mildaðist örlítið. Harry reyndi að harka af sér og stundi upp,
“Ef þú getur fyrirgefið mér þá langar mig að biðja þig… hvort þú værir til í að kenna mér meira í hughrindingu?”
Það varð löng þögn.
“Afhverju ætti ég að vilja gera það?” spurði Snape að lokum. Harry varð ringlaður á svip, afhverju? Hann hafði ekki hugmynd um hverju hann ætti að svara.
“Ég veit það ekki, en þú varst til í það í fyrra og ef ég lofa því að núna er mér treystandi, ég er búinn að læra af reynslunni að ég verð að ná þessu. Ég verð að geta lokað huganum betur, það hefur ekki liðið einn einasti dagur síðan Sirius dó sem ég hef ekki hugsað með mér að ef ég hefði bara verið duglegri að læra hugrindingu þá hefði þetta ekki gerst. Ég vil ekki að HANN komist inn í hausinn á mér og geti ráðskast með mig.” Harry ákvað vísvitandi að nefna Voldemort ekki á nafn, því hann vissi að Snape líkaði það illa. “Ég verð að geta varið mig fyrir honum á einhvern hátt, til að ég og aðrir í kringum mig séu öruggari.” Snape virtist hissa á þessu svari og svipurinn hafði mildast til muna.
“Leyfðu mér að hugsa málið,” svaraði hann. Harry kinkaði kolli og sneri sér við til að fara. Hann var rétt að leggja af stað þegar hann taldi aftur í sig kjark og sneri sér við á ný.

“Ég er ekki eins og hann var,” sagði hann ákveðinn á svip. Snape leit undrandi á hann.
“Hvað áttu við?” spurði hann.
“Ég er ekki eins og pabbi minn var, ekki eins og hann var í minningunni þinni. Ég kem ekki svona fram við aðra. Ég legg ekki álög á fólk í kring um mig. Ég er ekki svona.”
“Jæja,” svaraði Snape, “Hversvegna hef ég þá oftar en einusinni þurft að senda Hr. Draco Malfoy upp á sjúkraálmu með hina ýmsu kvilla af völdum álaga? Svaraðu mér því?” Hann horfði á Harry með spurn í augum.
“Það er allt öðruvísi.” svaraði Harry, “Malfoy gerir í því að egna mig, hann er alltaf að stríða Ron á því að fjölskyldan hans sé fátæk og kalla Hermione blóðníðing og gera grín að vinum mínum. Hann kallar þetta yfir sig, svo er hann nú líka nokkuð lunkinn við að senda mig og mína vini á sjúkraálmuna sjálfur, þótt mér leiðist að viðurkenna það. Í minningunni þinni, sem ég sá, þá voru pabbi og Sirius bara að þessu af því að þeim leiddist. Það er bara alls ekki það sama og mér finnst það í rauninni alveg óafsakanlegt.” Þetta var greinilega ekki svarið sem prófessor Snape hafði búist við. Hann varð hissa á svipinn en svaraði engu.
“Mér fannst mjög andstyggilegt að sjá pabba minn haga sér svona,” hélt Harry áfram, “mér fannst þetta virkilega illa gert og ég dauðskammast mín fyrir að hann hafi hagað sér svona. Ég skil vel að þú skulir hafa hatað hann, en er það þessvegna sem þú hatar mig? Af því að ég minni þig svo mikið á hann?” Það var grafarþögn í stofunni.
“Harry, ég hata þig ekki,” svaraði Snape alvarlegur á svip. Það hnussaði í Harry,
“Jæja, hvað þá?” svaraði hann af bragði. Snape varð vandræðalegur á svip og varð um stund mjög niðursokkinn við að þurrka af krukku með þurrkuðum sniglum. Harry stóð kyrr og horfði á hann með spurnaraugum. Loksins leit Snape upp á ný og spurði,
“Hvað veistu um samband mitt við foreldra þína?” Þessi spurning kom Harry mjög á óvart,
“Ég veit ekki neitt nema það sem ég sá í þankalauginni og að þú og pabbi voruð svarnir óvinir.” svaraði hann hissa. Snape horfði hugsi á hann.
“Harry, geturðu hitt mig hérna á skrifstofunni minni eftir kvöldmatinn á morgun, ég þarf að sýna þér nokkuð fleira í þankalauginni.”