Það var mikið um dýrðir í eldhúsinu í Hroðagerði þetta kvöld. Eldhúsborðið svignaði undan kræsingum af ýmsu tagi. Harry hafði aldrei á sinni ævi séð annað eins veisluborð. Þetta sló jafnvel Hogwarts veislurnar út. Á borðinu mátti finna allskyns gómsæta rétti af öllu tagi bæði forrétti, eftirrétti og aðalrétt. Þar gaf að líta krabbakjöt, rækjur, graflax, snigla, grillaða sveppi, grillsteikur á stærð við hjólbarða, kartöflur af öllu tagi, grænmeti og hvert það meðlæti sem hægt var að hugsa sér, tertur, ísrétti sem aldrei virtust bráðna, ávexti, konfekt og margt fleira sem Harry vissi varla hvað var. Veggir hússins höfðu verið skreyttir með blöðrum og borðum með hinum ýmsu áletrunum. Þar mátti sjá borða eins og: “Til hamingju með U.G.L.u niðurstöðurnar Ron, Hermione og Harry!”, “Til hamingju Ginny umsjónarmaður!”, “Velkomin Anika!”, “Lifi Galdramálaráðherrann!” og margt fleira.

Fjöldinn allur af fólki hafði safnast saman í Hroðagerði til að gera sér glaðan dag og nú stóðu allir í eldhúsinu reiðubúnir að njóta þessara glæsilegu veitinga.
Dumbledore steig fram og kvaddi sér hljóðs.
“Kæru vinir, ég vildi bara fá að segja nokkur orð í tilefni dagsins áður en veislan hefst. Ég vildi byrja á að óska Arthuri Weasley til hamingju með titilinn og hrósa honum fyrir vel valin orð í ræðu sinni í dag. Ég veit að við getum vænst mikils af þér vinur minn og orð þín í dag sýndu afgangnum af galdraheiminum við hverju þeir mega búast. Þú mátt samt eiga von á miklu mótlæti þegar þú ferð að hrinda áætlunum þínum í gang, en vittu að við stöndum öll sterk þér við hlið og gerum það sem í okkar valdi stendur til að aðstoða þig.” Hann hneigði höfuðið lítið eitt í átt til Arthurs sem brosti hógvær til baka. “Þakka þér fyrir Dumbledore.” sagði hann.
Dumbledore hélt áfram, “en það eru fleiri hér í kvöld sem eiga skilið hamingju óskir, Harry og Ron stóðu sig vonum framar í U.G.L.u prófunum í vor og hlutu prýðis einkunnir, 10 og 11 uglur hvor. Flott hjá ykkur strákar, haldið áfram á þessari braut.” Dumbledore blikkaði þá og brosti, “þeir vilja þó þakka Hermione Granger þennan árangur sinn, því hún hefur gefið þeim mikið aðhald hvað varðar heimanámið allt frá því að þau hófu nám sitt í Hogwarts. Hermione á hinsvegar skilið sérstakar hamingjuóskir í kvöld, því hún var að setja nýtt met í Hogwartsskóla þar sem hún fékk fullt hús stiga í U.G.L.u prófunum, eitthvað sem enginn hefur áður gert.” Hermione roðnaði en hópurinn í eldhúsinu fagnaði henni ákaft.
“Það var eitt enn sem ég ætlaði að fá að segja ykkur frá áður en veislan hæfist, ég ætlaði að kynna ykkur fyrir prófessor Aniku Weasley, en hún hefur eitthvað tafist,” í þessum orðum heyrðist bankað á dyrnar og frammi á gangi hóf frú Black upp raust sína sem aldrei fyrr. Molly stökk fram til að athuga hver væri á ferð, en Lupin og Tonks hlupu til og þögguðu niður í frúnni. Eftir örskamma stund komu þau aftur inn í eldhúsið og á eftir þeim kom ung falleg stúlka með rautt, liðað hár sem náði niður fyrir mitti og græn augu sem leiftruðu af lífskrafti.
“Ah, þarna ertu þá komin fröken Weasley,” sagði Dumbledore ánægður á svip. Weasley börnin stukku á frænku sína og föðmuðu hana með gleðihrópum. Þetta var ekki það sem Harry hafði dottið í hug þegar hann heyrði að systir Arthurs væri að koma, hann hafði ímyndað sér einhverja eldri konu, einhverja á svipuðum aldri og Arthur, en Anika var greinilega mikið yngri en hann. Harry sá að hann var ekki sá eini sem var brugðið. Í hinum enda eldhússins stóð Prófessor Snape og í augum hans var eitthvað sem Harry hafði aldrei séð áður. Þar var engan kulda að sjá, enga reiði, það var eitthvað annað sem Harry sá í augum hans, en hann gat bara ekki áttað sig á hvað það var. Þegar Aniku Weasley hafði verið heilsað nægilega hélt Dumbledore áfram,
“Fröken Weasley, ég vil bjóða þig velkomna í hópinn okkar og leyfist mér að segja að ég hlakka til að starfa með þér.” Anika Weasley brosti og hneigði sig eins og ballerína og svaraði að bragði “Þakka þér fyrir Dumbledore, sömuleiðis.”
“Þá vil ég síðast en ekki síst þakka henni Molly okkar fyrir þessa dýrindis veislu sem hún hefur töfrað fram hér í kvöld.” hélt Dumbledore áfram, “Molly, ég held ég segi satt og rétt frá að glæsilegra veisluborð hef ég aldrei á ævinni séð og það er nokkuð löng ævi skal ég segja þér,” bætti hann við og glotti.
Molly Weasley roðnaði upp í hársrætur við þessi orð, leit svo yfir hópinn og sagði, “Endilega gjörið svo vel að fá ykkur, borðið eins og ykkur lystir, það er nóg til. Þið getið fengið ykkur á diskana hér og svo getið þið farið hvert sem er í húsinu og fengið ykkur sæti. Stofan á annarri hæðinni er t.d. í mjög góðu standi, búið að þrífa hana og gera huggulega.”
Það þurfti ekki að segja neinum þetta tvisvar og fyrr en varði voru allir komnir með kúffulla diska af hinum ýmsu kræsingum og gengu um húsið til að finna sér sæti.

Harry, Ron, Ginni og Hermione settust í hnapp á gólfið út í horni á stofunni.
“Sögðuð þið ekki að Anika væri systir pabba ykkar?” spurði Harry sem var mikið búinn að spá í þennan mikla aldursmun sem virtist vera á milli þeirra.
“Jú,” svaraði Ginny, “en sjáðu til, hún er bara hálfsystir hans. Amma dó þegar pabbi var 16 og þá giftist afi aftur sænskri konu sem er mikið yngri en hann. Þau áttu svo ekki Aniku fyrr en um það leiti sem Charlie fæddist.” Hún stoppaði allt í einu og varð niðurlút, virtist svo vera að reyna að harka af sér áður en hún hélt áfram í örlítið hvassari tón, “Anika og Charlie voru alveg jafn gömul, það var ekki nema mánuður á milli þeirra. Anika kom oft og var hjá okkur um jólin, því hún fór í Hogwarts á sama ári og Charlie. Afi vildi sko ekki heyra á það minnst að hún færi í Durmstrang og þá var styttra að koma til okkar um jólin heldur en að fara heim til Svíþjóðar.”
Lengra komst Ginny ekki með frásögn sína því í þessu birtust tveir nákvæmlega eins höfuðlausir líkamar með fulla diska af mat. Fólk um alla stofuna rak upp stór augu og nokkrir af skyggnunum sem voru á staðnum stukku til með sprotana á lofti. Í því gekk Tonks aftan að líkömunum tveimur og svipti tveimur gráum höttum, skreyttum með bleikum fjöðrum, af höfðunum af Fred og George sem stóðu glottandi á miðju gólfinu.
“Verið nú til friðs einu sinni,” stundi hún upp, en ekki var laust við að lítið glott læddist út að varir hennar.
“Hvað var þetta?” sagði Anika Weasley sem hafði verið nýkomin inn í stofuna. Hún settist með frændum sínum við stofuborðið og fyrr en varði voru þau komin í hörkusamræður um hitt og þetta hrekkjadót sem tvíburarnir voru að framleiða.

Tonks leit í kring um sig og sá að í myrkasta horni stofunnar sat Remus Lupin aleinn og leit ekki út fyrir að honum liði mjög vel. Hún gekk rakleitt til hans og settist á auðan stól við hlið hans.
“Jæja, segðu mér nú frá,” sagði hún. Lupin leit á hana með spurn í augum,
“Frá hverju?” spurði hann ringlaður á svip.
“Nú, því sem er að plaga þig,” svarað Tonks ákveðin á svip.
“Það er ekkert, ég vil ekki tala um það.” svaraði Lupin vandræðalegur.
“Ég spurði ekkert hvort þú vildir tala um það, ég sé hinsvegar að þú þarft að tala um það, svo gjörðu svo vel að byrja.” Hún var ákveðin í að gefa sig ekki í þetta skiptið. Hann hafði svo oft neitað henni um að hjálpa sér, þessi yndislegi maður sem alltaf var reiðubúin til að hjálpa öðrum en gat aldrei þegið hjálp sjálfur. Hún var ákveðin í að nú skyldi hún komast undir brynjuna hans og fá að veita honum þá huggun og hjálp sem hann var alltaf að deila til annarra.
Lupin leit á hana og virtist óöruggur um hvað hann ætti að segja, Tonks horfði spyrjandi í augu hans eins og til að hvetja hann áfram.
“Þú ætlar ekkert að gefast upp, er það?” Spurði Lupin og brosti í uppgjöf.
“Nei, helst ekki,” svaraði hún, “svo þú getur alveg eins byrjað núna.”
Lupin andvarpaði og sagði, “Æ, það er bara allt þetta umtal um varúlfa núna undanfarið sem er að ná svolítið til mín. Árásin á verndarsvæðið og svo þessi vesalingur sem réðst á Tunglskinskytrurnar. Viðbrögð fólks almennt virðast vera að við séum allir réttdræpir og… og hluti af mér er eiginlega sammála þeim.” Það glitti í tár í augnkrókum þessa ljúfa manns,
“Segðu þetta ekki, Remus,” svaraði Tonks, “Varúlfar eru ekkert verri en aðrir menn, nema þessar þrjár nætur á mánuði, en með úlfsmáraseyði er jafnvel hægt að gera þær nætur viðunandi. Heyrðirðu ekki hvað Arthur sagði í ræðunni sinni í dag? Hann sagði að ábyrgðin hvíldi á herðum ráðuneytisins að bjóða varúlfum betri kjör og veita þeim fræðslu um ástand sitt. Hugsaðu þér hvað það gæti breytt miklu ef allir varúlfar vissu af því að þeir gætu fengið úlfsmáraseyði og verið ljúfir sem lömb þessar þrjár nætur í mánuði, ef þeim yrði hjálpað að segja fjölskyldum sínum frá og útskýra fyrir þeim hvað fælist í því að vera varúlfur, ef stofnaðir yrðu stuðningshópar þar sem varúlfar gætu hist og deilt reynslu sinni með hverjum öðrum. Hugsaðu þér bara Remus, nú ætlar Arthur að fara að vinna í þessu öllu saman og breyta reglugerðunum sem nú gilda þannig að nú fer að verða auðveldara fyrir varúlfa á fá sér vinnu. Hugsaðu þér bara hvað varúlfar geta gert margt sem venjulegt fólk getur ekki. Hugsaðu þér hvað þið getið gert mikið gagn fyrir samfélagið okkar.” Hún var orðin yfir sig spennt af tilhugsuninni um allt sem hægt var að gera fyrir Remus, vin hennar, og aðra í hans stöðu. Lupin starði á hana, úr augum hans mátti lesa undrun og vantrú,
“Hvað meinarðu? Hvað getum við svo sem gert sem aðrir geta ekki?” spurði hann.
“Ertu að grínast?” spurði hún, “Varúlfar eru svo þúsund sinnum sterkari en venjulegt fólk, þið getið lyft heilu rútunum án þess að blása úr nös, þið getið barist gegn allskyns hættum án þess að vera hræddir um að deyja, þið getið heyrt minnstu hljóð úr mílu fjarlægð og eruð með áttíu og fimmþúsund sinnum næmara lyktarskyn en venjulegt fólk. Ég meina, þið vitið meira að segja hvort að fólk er að ljúga eða ekki bara á því hvernig lyktin á þeim breytist.” Lupin kímdi og svarðaði:
“Ekki alltaf, sumir eru svo ógeðslega sveittir og illa lyktandi fyrir að það breytist ekkert lyktin af þeim þó að þeir ljúgi.”
Tonks sprakk úr hlátri, “Þannig að það borgar sig kannski að vera bara drullu hauga skítugur ef maður ætlar að plata þig eitthvað?” Lupin hló með henni, léttari í bragði en hann hafði verið nokkrum mínútum áður.
“Þannig að ef ég finn að það er svitalykt af þér þá veit ég að þú ert eitthvað að bralla. En það er að sjálfsögðu ástæðan fyrir því að ég forðast Mundungus Fletcher.” Tonks hló enn meir og fann hjarta sitt slá örlítið léttar.
“En hvernig stendur annars á því að þú veist svona mikið um varúlfa?” spurði Lupin.
Hún brosti til hans og svaraði lúmsk á svip:
“Ég hef verið að lesa mér til.”

~~~

Morguninn eftir var 1. september og allt var á fleygiferð í Hroðagerði því yngstu dvalargestirnir fjórir áttu að vera komnir út á lestarstöð eftir klukkutíma. Frú Weasley fussaði og sveiaði yfir seinaganginum í fólki og rak Hogwartsnemana með harðri hendi út í ráðuneytisbílinn þar sem Lupin, Tonks, Skröggur og Kingsley Shaklebolt biðu þeirra. Bíllinn var lítill volkswagen bjalla sem lögð höfðu verið á álög þannig að fimmtán manns hefðu hæglega komist fyrir í aftursætinu og allur þeirra farangur í skottinu. Harry sat með Hedwig í fanginu og við hlið hans var Ginny með aðra snæuglu sem var örlítið minni en Hedwig. Uglan hefði verið gjöf frá foreldrum hennar í tilefni af umsjónarmannstitlinum.
“Ertu búin að nefna hana?” spurði Harry og dáðist af fallegri uglunni.
“Ég er búin að nefna HANN.” svaraði Ginny að bragði, “Hann heitir Merlin.”
“Heyrirðu það Hedwig,” sagði Harry, “þú ert bara kannski búin að eignast hér kærasta, eða hvað heldur þú?” Hedwig leit á Merlin sem sat í búrinu við hliðina á hennar og virtist bara lítast ágætlega á uglukostinn.

Það var margt um manninn á lestarpalli 9 ¾ enda lestin að leggja af stað eftir fimm mínútur. Harry, Ron, Ginny og Hermione kvöddu fylgdarmenn sína og hröðuðu sér um borð í lestina. Harry var sá eini sem ekki þurfti að fara í umsjónarmannavagninn svo hann var sendur sem fulltrúi hópsins til að finna vagn þar sem allir gætu hist eftir að fundinum lyki.
Hann fann lausan vagn aftarlega í lestinni og var rétt að ljúka við að koma sér fyrir þegar Neville Longbottom og Luna Lovegood birtust í dyragættinni.
“Megum við vera hérna hjá þér?” spurði Neville,
“Sjálfsagt,” svaraði Harry, “ég var einmitt að vonast til þess að þið mynduð birtast.”
Neville og Luna gengu frá farangrinum sínum og fengu sér sæti á móti Harry rétt í þann mund er lestin rann af stað.

“Höfðuð þið það gott í sumar?” spurði Harry til að reyna að hefja einhverjar samræður.
“Ó já, við pabbi fórum í mjög fræðandi ferð um Alsír og lærðum heilmargt um furudinkla.” svaraði Luna. Harry hafði ekki hugmynd um hvað furudinklar voru en ákvað að vera ekkert að spyrja.
“En hvernig hafðir þú það, Harry?” spurði Neville varfærnislega. Harry vissi eiginlega ekki hverju hann átti að svara. Ekki hafði hann nú haft það fínt, en varla gat hann sagt að hann hefði haft það drullu skítt.
“Bara svona eins og við var að búast,” sagði hann að lokum. Neville og Luna kinkuðu bæði til að hans kolli og skildu greinilega hvað hann átti við. Það var svo gott við Neville og Lunu, þau vissu alveg hvernig það var að vera ekki alveg í toppformi á hverjum degi. Harry fann að það var gott að tala við þau.
“Harry,” spurði Neville, “dó bróðir Rons og Ginnyar í árásinni í Rúmeníu?”
“Já,” svaraði Harry.
“Hvernig eru þau að taka þessu?” spurði Neville áhyggjufullur á svip.
“Ron er rosalega reiður þessa dagana,” svaraði Harry. “Hann er með mjög sterkar tilfinningar, hann er annað hvort súper glaður eða öskureiður, sjaldan nokkuð þar á milli. Ginny er aftur á móti frekar viðkvæm, en hún er samt mikið sterkari en ég átti von á.”
Harry, Neville og Luna héldu áfram að spjalla saman þar til Ron og Hermione komu af umsjónarmannafundinum og fengu sér sæti hjá þeim.

“Hvar er Ginny?” spurði Harry undrandi. Þrumuský var yfir andlitinu á Ron þegar hann svaraði á milli samanbitinna tannana,
“Hún fór til að vera með Dean Thomas.”
“Ahh.. já ég var búin að gleyma að þau byrjuðu saman í vor.” svaraði Harry. Ron var greinilega ekki sáttur við þessa ákvörðun systur hans og muldraði eitthvað um að Dean skyldi fara varlega og vera vel á verði.
Í því sáu þau hvar Draco Malfoy gekk fram hjá dyrunum að klefanum þeirra. Hann leit örsnöggt inn til þeirra en hraðaði sér svo áfram.
“Bíddu nú við,” sagði Harry “síðan hvenær gengur Malfoy framhjá án þess að segja eitthvað andstyggilegt?”
“Síðan pabbi hans er orðinn strokufangi á flótta undan réttvísinni, sem núna er pabbi hans Rons,” svaraði Hermione og glotti. Þetta vakti mikla kátínu í vagninum og jafnvel Ron hætti að skammast yfir Dean Thomas og hló með þeim hinum.
Stuttu seinna birtist nornin með nammivagninn og farþegar þessa vagns tóku dágóðan toll af honum áður en henni var hleypt áfram. Það sem eftir var ferðarinnar nutu þau þess að borða sælgæti og spjalla saman í rólegheitum.

Fyrsta veisla skólaársins var ekki síðri en venjulega. Þegar flokkunarathöfnin var afstaðin og matnum var að ljúka stóð prófessor Dumbledore á fætur og hóf upp raust sína.
“Kæru nemendur, ég er hér með nokkrar tilkynningar áður en þið getið farið að koma ykkur fyrir á heimavistunum ykkar.
Fyrst vil ég fá að kynna nýjan kennara í Vörnum gegn myrku öflunum en það er ungur prófessor sem er sérmenntaður í þeim efnum, ég vil biðja ykkur að bjóða velkomna prófessor Aniku Weasley.” Harry var svo brugðið að honum svelgdist á drykknum sínum, hann leit á vini sína og sá að þeim var jafn brugðið og honum. Það tók þau nokkra stund að átta sig áður en þau gátu tekið þátt í lófaklappinu með hinum nemendum skólans. Harry leit upp á kennaraborðið og sá að þar sat Anika við hliðina á prófessor Snape, sem virtist varla geta tekið af henni augun.
“Því næst vil ég fá að biðja ykkur öll afsökunar á því hversu seint bréfin ykkar bárust í ár, þá sérstaklega 6. árs nemana, sem ekki fengu U.G.L.u niðurstöðurnar sínar fyrr en í gær. 6. árs nemar hafa því ekki haft tækifæri til að velja sér fög fyrir veturinn en við ætlum að bæta ykkur það upp með því að hafa sérstakan valdag á morgun, þar sem þið getið rætt við yfirkennara ykkar heimavista og ákveðið í samráði við þá hvaða fög þið viljið taka. Nemendur sem ekki eru á 6. ári mæta í tíma samkvæmt stundaskrám, að því undanskildu að prófessorar McGonnagal, Snape, Flitwick og Sprout verða upptekin við valdaginn og er því frí í tímum hjá þeim.”
“Yess..” heyrðist frá Ginny, sem sat á móti Harry og hallaði sér upp að Dean Thomas, “ég átti að vera í töfradrykkjum í fyrsta tíma á morgun,” sagði hún glottandi.
“Að lokum,” hélt Dumbledore áfram, “leiðist mér að tilkynna að vegna þess hve ástandið í galdraheiminum í dag er óstöðugt og mikill ótti ríkir meðal foreldra neyðumst við til að fresta öllum Hogsmeade helgum um óákveðin tíma.” Mikill óánægjukliður barst um salinn við þessa tilkynningu. “Við munum reyna að gera okkur glaðan dag hér í skólanum í staðinn, en því miður verður þetta að vera svona allavegana á meðan ástand umheimsins helst óbreytt.
Ó, já, það var eitt í viðbót,” bætti hann svo við, “prufur fyrir quidditch liðin verða haldnar á morgun klukkan fimm á vellinum hér fyrir neðan skólan, allir sem eru á öðru ári eða eldri mega spreyta sig.
Þá býð ég ykkur góða nótt og hlakka til að starfa með ykkur eitt árið í viðbót.”