Það hefur væntanlega ekki farið fram hjá neinum sem stundar Harry Potter áhugamálið að svokölluðum áhugaspunum hefur undanfarið fjölgað gríðarlega. Sú þróun þykir mér langt því frá að vera neikvæð og vildi helst fá spuna á úr fleiri “heimum”, t.d Hringadróttinssögu! Þó eru nokkrir gallar við spunana bæði íslenska og erlenda, sem hafa vakið athygli mína og ber þar hæst hina víðfrægu Mary Sue.

En hver er Mary Sue? Jú, það er í 98% tilfella kvenkyns karakter (óþekktur í bókunum/kvikmyndinum eða því sem við á) sem áhugaspunahöfundurinn skáldar sjálf(ur) upp og treður inn í atburðarás hinna réttbornu aðalpersóna, t.d Harrys Potters eða Fróða Bagga. Þessi “sjálfskapaði” karakter (e: original characters, sks. OC) sker sig frá öðrum persónum sögunnar (sem nota bene geta einnig verið hugarsmíð áhugaspunahöfundarins) að því leyti að hann/hún er óskhyggja höfundarins holdi klædd. Þar á ég við að þessi persóna er engin “alvöru” persóna sem hægt er að taka mark á þar sem hún er hvort sem lesendum líkar betur eða verr fullkomin. Það getur m.a lýst sér í eftirfarandi einkennum:

Mary Sue er gjarnan

# af einhverri undarlegri tilviljun á sama aldri og höfundur og á jafnvel furðulega margt sameiginlegt með honum.

# snögg(ur) að mynda innilegt vinasamband við aðalpersónurnar.

# með undarlegt og “exótískt” nafn sem á að vekja athygli. Stundum hlýtur persónan einfaldlega nafn eða “nick” höfundar.

# góð í öllum sköpuðum hlutum; frábær námsmaður, frammúskarandi norn/galdramaður, fljúgandi fær í samskiptum og fullkomlega í stakk búin til að standa augliti til auglitis við drápara, Voldemort, Sauron, Darth Vader, orka og þannig mætti lengi telja.

# áberandi falleg(ur) og vel útlítandi, hefur gjarnan útlit sem einfaldlega gengur ekki upp; sólbrún(n) en þó með rautt hár, hefur áberandi stór og fallega löguð brjóst en þó hrikalega mjótt mitti (14 ára stúlka!), er með gul/fjólublá/rauð augu, eða blátt/ fjólublátt/grænt hár og auðvitað allt saman frá náttúrunnar hendi; Ebony Demeter Archangel er jú allt sem við viljum vera!

# með einhverja einstaka ofurkrafta sem uppgötvast gjarna í hita leiksins í risi sögunnar eða jafnvel í byrjun hennar. Þá má gjarna sjá aðstæður þar sem sérstaða Harrys Potters var bara misskilningur - Tristan Lucian Black sigrar auðvitað Voldemort! Einnig þykir mér nausynlegt að minnast á klisjuna um ungu “venjulegu” stúlkuna sem vaknar einn morguninn við það að vera orðinn ódauðleg, yfirnáttúrulega fögur ómannleg vera í faðmi Legolasar/Draco Malfoy/Lestat de Lioncourt o.s.frv.

# feig. Hversu oft hafa áhugaspunaunnendur ekki mátt þjást undan sorgarferlum aðalpersónanna eftir að hin dularfulla Mary Sue dó á tragískan hátt um leið og hún bjargaði heiminum frá tortímingu?

# af einhverju undarlegu og ekki alltaf mennsku ætterni. Dæmigerð Mary Sue er auðvitað eins langt frá því að vera venjuleg og hugsast getur og því gengur ekki að láta foreldra hennar vera Jón og Gunnu úti í bæ! Algengt er að Mary sé skyld einhverju “mikilmenni” á borð við Snape (í erlendum sögum; það hef ég enn ekki séð hér), Godric Gryffindor eða Voldemort. Þá er hún eins og áður sagði oft hálf vampíra/köttur/álfur og þannig mætti lengi telja.


Eins og sjá má eiga mörg þessarra einkenna fyrst og fremst við um erlenda áhugaspuna en þó þótti mér ágætt að íslenskir höfundar (sem eru kannski ekki eins miklar nethórur og ég; ég lái þeim það ekki)fengju í það minnsta nasasjón af einni algengustu og skæðustu gryfjunni sem höfundar geta fallið í. Ég veit að þessi listi minn gæti látið einhverja halda að ég sé mótfallin ímyndunarafli og vilji síður hafa sögurnar skemmtilegar en það er misskilningur. Auðvitað mega þessi einkenni vera til staðar en þau verða að vera hófstillt og alls ekki öll til staðar í einu! Sjálf hef ég lengi verið með sögu í maganum (þótt hún sé eraunar ekki áhugaspuni) og þekki því krísurnar sem sagnahöfundar geta lent í af eigin raun. Ég vona að þessi litla grein verði góð viðbót í hafsjóinn af áhugaspununum (sem nota bene eru flestir mjög fínir:) og að höfundarnir hafi hana e.t.v á bak við eyrað í framtíðarskrifum sínum. Og munið: Það er ekkert gaman að lesa endalaust um fullkomið fólk og þeirra svokölluðu “ævintýri”

Takk fyrir mig.