“Vá… pabbi minn galdramálaráðherra…” Ron starði agndofa út í loftið dreyminn á svip við morgunverðarborðið þar sem Harry hafði verið að segja honum og stelpunum frá atburðum gærkvöldsins.
“Þetta er alveg ótrúlegt,” tók Ginny undir.
“Svona, skóflið í ykkur matnum, vígslan er klukkan þrjú og þá þurfið þið öll að vera hrein og fín. Við þurfum að fara í bæinn og kaupa á ykkur ný föt og það þarf að skrúbba af ykkur skítinn,” þrumaði mamma þeirra stressuð. Rétt í því birtist Albus Dumbledore í eldhúsdyrunum brosandi á svip,
“Ég tók mér það bessaleyfi að koma með bréfin ykkar frá Hogwarts persónulega þar sem uglubannið hvílir enn á Hroðagerði og þeim sem hér búa,” tilkynnti hann og rétti öllum ungmennunum sem sátu við borðið sín bréf.

Hermione stökk til og reif sitt bréf upp í hvell, það var greinilegt að hún hafði beðið lengi eftir þessu bréfi… niðurstöðurnar úr U.G.L.unum. Hún starði nokkra stund á bréfið sitt, leit á Dumbledore sem brosti til hennar, svo aftur á bréfið, roðnaði upp fyrir haus og settist svo aftur í sætið sitt.
“Hvað?” spurðu Harry og Ron samtímis, “hvað er að?” Þeir horfðu ringlaðir á Hermione og Dumbledore sem glotti í áttina til hennar.
“Fimmtán,” stundi Hermione, “ég fékk fimmtán uglur og allar Afburðagott!”
“Vá…” stundi Ron, “það eru allar uglurnar sem þú mögulega gast fengið. Þú fékkst fullt hús.”
“Fyrsti nemandi Hogwartsskóla til að fá fullt hús stiga,” sagði Dumbledore hreykinn á svip.
“En þú?” spurði Harry, “fékkst þú ekki einu sinni fullt hús?”
“Nei,” svaraði Dumbledore glottandi, “ég var alveg hryllilegur í sögu, gat aldrei munað þessi blessuðu ártöl og nöfnin á öllum þessu svartálfum.”
Frú Weasley gekk að Hermione og faðmaði hana að sér. “Til hamingju vinan, en hvað ég er stolt af þér,” sagði hún. “Strákar mínir, opnið ykkar bréf, hvað fenguð þið?”
Harry og Ron urðu hálf feimnir við að opna sín bréf, þetta var ómögulegt að toppa.
“Vá… ég náði töfradrykkjum, bæði verklegu og bóklegu” stundi Ron upp yfir sig hissa, “ég fékk Fer fram úr væntingum í báðu.”
“Ég líka,” skaut Harry inní og starði agndofa á einkunnirnar sínar, “en ég fékk Afburðagott í verklegu. Ég er með…. 11 uglur í allt!”
“Bíddu, ég er með… ahh… 10,” sagði Ron, “þú varst einni hærri. En hvernig tókst mér þetta eiginilega? Það eina sem ég náði ekki var spádómafræði, jurtafræði og saga. Ég hélt ég hefði alveg pottþétt fallið í stjörnufræði líka, en ég náði viðunandi þar.” Hann snéri sér að Hermione, faðmaði hana að sér og sagði, “Hermione, þetta er allt þér að þakka!”
Hermione roðnaði enn meira og Harry sýndist á öllu að hún vildi helst hverfa ofan í gólfið. Hann lét það þó ekki aftra sér og réðst inn í hópinn og þeir Ron föðmuðu hana á milli sín og kysstu á báðar kynnar, “Það er svo satt Hermione, ef ekki væri fyrir þig hefðum við fengið T í næstum því öllu.”
Frú Weasley bættist nú líka í hópinn og faðmaði þau öll innilega að sér og hamingjutár féllu niður vanga hennar.
En allt í einu tók Harry eftir því að Ginny sat óvenju þögul og skrýtin á svip við endann á borðinu.
“Ginny, er ekki allt í lagi?” spurði hann og sleit sig lausan úr faðmlögunum. Þau litu öll á hana með spurn í augum. Ginny leit upp með feimnissvip og rétti varfærnislega fram litla gyllta nælu. Frú Weasley saup hveljur og stökk á dóttur sína með þvílíku offorsi að Ginny féll aftur fyrir sig og þær mægður lágu í faðmlögum á eldhúsgólfinu. Harry og Ron flýttu sér að reisa þær við og aftur voru allir komnir í hópfaðmlag.
“Elsku litla Ginny mín…” sagði frú Weasley með tárin í augunum sem skinu af stolti, “orðin umsjónarmaður.” Hún harkaði af sér og sagði svo hátt og skýrt: “Jah, það verður sko að halda ærlega veislu hér í kvöld. Ron, Harry og Hermione öll með svona góðar einkunnir, Ginny orðin umsjónarmaður, pabbi ykkar er að taka við stöðu galdramálaráðherra og Anika frænka ykkar kemur frá Svíþjóð seinnipartinn.”
“Anika frænka?” kölluðu Ginny og Ron í kór, “Frábært, ætlar hún að vera lengi? Afhverju er hún að koma?”
“Það kemur í ljós seinna,” svaraði mamma þeirra, “en nú verðið þið að flýta ykkur, við leggjum af stað í Skástræti eftir klukkutíma til kaupa það sem vantar fyrir skólann, athöfnina og veisluna í kvöld.”

~~~

Harry bankaði á hurðina að herberginu sem einu sinni hafði verið Siriusar.
“Kom inn!” var svarað að innan. Harry opnaði herbergisdyrnar varlega og gægðist inn fyrir. Í sólríku, björtu herberginu sat Lupin við skrifborðið, niðursokkin í lestur. Hann leit upp annars hugar en þegar hann sá hver gesturinn var glaðnaði yfir honum,
“Harry minn, hvað get ég gert fyrir þig?” spurði hann.
“Ég, hérna, sko… má ég aðeins fá að spjalla við þig?” spurði Harry varfærnislega.
“Að sjálfsögðu,” svaraði Lupin að bragði og benti Harry að setjast á rúmið. “Hvað liggur þér á hjarta?”
Harry settist niður og reyndi sitt besta til að velja orð sín vel.
“Manstu í fyrravetur, þegar ég talaði við ykkur Sirius um það sem ég sá í þankalauginni hans prófessors Snapes?” spurði hann varfærnislega,
“Jaá,” svaraði Lupin varlega og virtist ekki viss um hvert þessar samræður væru að stefna.
“Ég er búinn að hugsa svo mikið um þetta síðan og mig langar svo að vita, ég meina, ég skil ekki hvernig mamma, sem virtist svo innilega hata pabba, gat allt í einu snúið sér við og farið að elska hann. Og… líka, hvernig gat pabbinn minn, sem allir, nema Snape, hafa sagt mér að hafi verið svo frábær og meiriháttar, verið svona mikill…. asni og… bara illgjarn.”
Lupin brosti út í annað og sagði svo,
“Pabbi þinn var alls ekki illgjarn, hann var jú stundum óttalegur asni, en hver er það ekki einstaka sinnum? Hann var góður strákur, hann hugsaði vel um þá sem honum þótti vænt um og gerði hvað sem var fyrir vin í nauð. Það var hann sem kom með hugmyndina um að þeir strákarnir gerðust kvikskiptingar til að veita mér styrk á þeim tímum sem voru mér erfiðastir.” Lupin hikaði og brosti örlítið, en það var söknuður í augum hans. Úti dró ský fyrir sólu og bjart herbergið breyttist í litla dimma kytru.
“Ef ekki hefði verið fyrir hann pabba þinn, þá hefði ég verið ósköp einmana unglingsstrákur. En pabbi þinn var samt sem áður svolítið spilltur strákgemlingur sem var vanur að fá allt sem hann vildi. Hann var einkabarn foreldra sinna sem voru vel stæð og gáfu honum nánast allt sem hugurinn girntist. Amma þín og afi höfðu lengi reynt að eignast barn áður en pabbi þinn fæddist, svo þegar að hann kom loksins í heiminn var hann litla kraftaverkið þeirra og þau fóru með hann sem slíkt.

Þegar hann byrjaði svo í Hogwarts voru hann og Sirius ”sætustu“ strákarnir í árganginum, eða það fannst stelpunum allavegana, þeir voru brandarakallar og hvar sem þeir komu voru þeir hrókar alls fagnaðar. Þeir voru auk þess líka þrælklárir og við þrír vorum yfirleitt með hæstu einkunnirnar í árganginum.” Lupin brosti og nostalgían skein úr andliti hans.
“En pabbi þinn var auðvitað óttalegur krakki og átti það til að leika sér að þeim sem á vegi hans urðu.”
“Hann var enginn krakki í þankalauginni,” mótmælti Harry pirraður, “hann var jafngamall mér.”
“Harry, þú verður að átta þig á því að það felst fleira í þroska en aldur,” sagði Lupin rólega. “Þú ert alinn upp við erfiðar aðstæður og þekkir hvað það er að fá ekki alltaf það sem þú vilt. Þú hefur horfst í augu við dauðann ótal sinnum, barist við volduga galdramenn og lifað það af, misst nána ástvini og gengið í gegn um fleira en flestir, jafnvel fullorðnir menn, hafa gert. Pabbi þinn hafði aldrei upplifað nokkurt mótlæti. Það sem við upplifum mótar persónuleika okkar og pabbi þinn vissi ekki hvernig það var að verða fyrir aðkasti. Hann hafði ekki hugmynd um hvernig fólki líður sem ekki upplifir ást og umhyggju. Hann vissi ekkert hvernig það var að eiga ekki peninga. Hann vissi hreinlega ósköp lítið um tilfinningar annarra.
Þú sérð Harry, hann var alls ekki jafn þroskaður og þú ert núna, hann var bara óttalegur krakki.”
Harry hafði aldrei velt þessu fyrir sér áður, það var meira en bara aldurinn sem sagði til um þroskann. Það var alveg rétt, því ekki var Dudley nærri eins þroskaður og hann sjálfur, það vissi hann vel. Af hverju hafði honum aldrei dottið þetta í hug áður?

“En þegar hvolpavitið fór að gera vart við sig,” hélt Lupin áfram, “varð hann yfir sig ástfanginn af Lily, en hún vildi ekki sjá hann. Henni fannst hann allt of spilltur strákgemlingur sem ekkert vissi um tilfinningar annarra, sem var alveg rétt hjá henni. Mamma þín þekkti erfiðleika af eigin raun og vissi að það er ekki gott að vera utanveltu,” hélt Lupin áfram, “Við Lily vorum valin til að vera umsjónarmenn fyrir okkar árgang í Griffindor og fórum því að vera meira saman í kring um það starf okkar. Við urðum góðir vinir þó að henni væri illa við bestu vini mína tvo, pabba þinn og Sirius. Sumarið áður en við byrjuðum 6. árið okkar dó svo afi þinn í bílslysi. Lily var miður sín. Petunia frænka þín vildi endilega að hún hætti í skólanum og kæmi heim til að hjálpa henni að annast ömmu þína sem var hjartveik og þurfti oft á tíðum að dveljast á spítalanum. Amma þín mátti hins vegar ekki heyra á það minnst og lét Lily lofa sér því að hún myndi ekki hætta námi hvað sem á dyndi. Þetta var að sjálfsögðu upphafið af illindunum á milli þeirra systranna.
Þegar pabbi þinn frétti af þessum erfiðleikum sem mamma þín var að kljást við fann hann óskaplega til með henni og reyndi allt til að vera góður við hana. Smám saman fóru hún að þola að vera nálægt honum og fór að hanga með okkur strákunum í Griffindorturninum. Við vorum öll orðin bestu vinir þegar leið á vorið og sumarið eftir þetta fóru að draga sig saman og verða par. Sjöunda árið okkar í Hogwarts voru þau algerlega óaðskiljanleg og það kom varla fyrir að maður sæi aðeins annað þeirra.
Trúðu mér Harry minn, ástfangnara par en foreldra þína hef ég aldrei á ævi minni séð.”

Harry hafði setið hljóður og hlustað af athygli á frásögn Lupins. Þetta útskýrði margt, ekki allt, en margt. Hann var talsvert sáttari við tilhugsunina um foreldra sína núna en hann hafði verið allt frá því í vor.
“Takk, Lupin,” sagði hann, “Takk fyrir að segja mér þetta allt, mér líður betur núna.” Lupin sló þétt á öxl hans,
“Hvenær sem er Harry minn. Ég meina það, hvenær sem er,” sagði hann og Harry fann að Lupin var maður sem hann gæti treyst. Í því var bankað á dyrnar og inn gægðist frú Weasley.
“Þarna ertu þá Harry minn, við erum að leggja af stað. Lupin, ætlar þú ekki að koma með okkur?” spurði hún, “Tonks kemur líka, ég held við þurfum ekkert fleiri en það, hvað finnst þér?”
“Nei, það ætti nú að vera nóg fyrir svona ferð,” samþykkti Lupin um leið og þeir Harry gengu í átt að dyrunum.

~~~

Það var margt um manninn á Leka Seiðpottinum þegar frú Weasley kom þangað inn móð og másandi með hópinn sinn í eftirdragi, allir voru hlaðnir pinklum og pokum.
“Tom minn,” ávarpaði hún barþjóninn, “er nokkuð möguleiki á að við getum sest í rólegheitum einhvers staðar og fengið hádegismat hjá þér?” Tom horfði með meðaumkun á þreytta konuna sem hann vissi að var búin að ganga í gegn um svo margt þessa dagana.
“Fyrir þig Molly mín,” sagði hann, “eða á maður kannski að segja frú Galdramálaráðherra?” bætti hann við með glotti, “er alltaf laust pláss hér.” Hann fylgdi þeim inn í lítið en rúmgott bakherbergi þar sem lagt var á borð fyrir sjö manns, “Gjörið svo vel, ég kem eftir skamma stund og tek pantanirnar ykkar.” Frú Weasley brosti þakklát til Toms um leið og hún fékk sér sæti.
Þegar þau voru rétt að ljúka matnum tók Hermione upp eintak af Spámannstíðindum sem hún hafði keypt fyrr um morguninn. Hún hafði flett nokkrum blaðsíðum þegar hún rak augun í frétt sem fangaði athygli hennar.
“Guð minn almáttugur!” hrópaði hún upp yfir sig. Allir við matarborðið litu á hana með spurnarsvip. “Sjáiði hvað gerðist í morgun.” Hún rétti upp blaðið svo allir gætu séð fréttina:

VARÚLFUR GERIR ÁRÁS Á TUNGLSKINSKYTRURNAR
5 starfsmenn og 3 gestir láta lífið.

Ungur muggi sem bitinn var af varúlfi fyrir hálfu ári
réðst inn í Tunglskinskytrur galdramálaráðuneytisins
í morgun og reyndi að sprengja þær í loft upp með
muggasprengjum. Þetta átti að vera svokölluð
“sjálfsmorðsárás” sem muggar nota gjarnan til að
mótmæla hlutum sem þeir hafa mjög sterkar
skoðanir á. “Sjálfsmorðsárásir” eru framkvæmdar
þannig að viðkomandi muggi bindur sprengiefni utan
á líkama sinn áður en hann fer á staðinn sem reiði
hans beinist að. Þegar á staðinn er komið sprengir
mugginn sprengjurnar, sem enn eru bundnar við hann,
með þeim afleiðingum að hann lætur lífið samstundis
og tekur með sér þá sem standa nálægt honum og
meirihluta húsnæðisins í leiðinni. Þessar árásir eru
mjög hrottalegar og hafa orðið mörgum mugganum
að bana.
Mugginn sem hér um ræðir hafði þó ekki meira vit
á eigin ástandi en svo að hann gerði sér ekki grein
fyrir að ekki er hægt að drepa varúlfa nema með
silfri eða afhöfðun. Hann er nú undir ströngu
eftirliti á St.Mungos sjúkrahúsinu í London þar sem
verið er að sinna slæmum brunasárum og innvortis
blæðingum sem hann hlaut í sprengingunni.
Aðrir sem í kringum hann voru áttu ekki sama láni
að fagna því í sprengingunni létust fimm ráðuneytis-
starfsmenn og þrír gestkomandi galdramenn.
Nöfn hinna látnu er ekki hægt að birta að svo stöddu.
Duncan McFallafan, var rétt stiginn út fyrir dyr
Tunglskinskytranna, ásamt 6 ára sonardóttur sinni,
þegar árásin átti sér stað.
“Við vorum að færa syni mínum nestið sem gleymst
hafði heima um morguninn og Tina litla vildi endilega
sjá pabba sinn. Ég er bara dauðfeginn að við vorum
þó rétt komin út og barnið er heilt á húfi. Það sama
er þó ekki hægt að segja um föður hennar sem ekki
hefur fundist af tangur né tetur eftir þetta voðaverk.
Að ráðuneytið skuli leyfa þessum skepnum að ganga
lausum, það ætti að taka hvern einn og einasta varúlf
og höggva af þeim hausinn. Útrýma þessum andskotum!”
sagði Duncan McFallafan, sem var heldur en ekki heitt
í hamsi. Spennandi verður að sjá hvort að nýr galdra-
málaráðherra, Arthur Weasley, sem vígður verður til
starfa í dag, er á sama máli og hr. McFallafan.
Spámannstíðindi senda aðstandendum þeirra sem létu
lífið í sprengingunni samúðarkveðjur.

Það var þögn við litla borðið í bakherbergi Leka Seiðpottsins.
“Hvað eru Tunglskinskytrurnar?” spurði Ginny sem rauf þögnina.
“Staðurinn þar sem varúlfar eru lokaðir inni yfir nætur á fullu tungli,” svaraði Lupin svo lágt að orðin heyrðust varla.
Harry starði á Lupin. Maðurinn hafði sagt að það ætti að drepa alla varúlfa, hvern einn og einasta. Hann sá Tonks rétta út höndina og snerta hönd Lupins sem færðist undan í flýti. Tonks varð niðurlút og hrygg á svip.
“Jah.. Arthur er sko sannarlega ekki á sama máli og hr. McFallafan, það get ég vitnað um.” þrumaði frú Weasley sem var greinilega bálreið. Hún leit á klukkuna sem hékk fyrir ofan dyrnar og stökk á fætur.
“Hjálpi mér hamingjan,” hrópaði hún. “Vígslan hefst eftir tæpan klukkutíma og við erum ekki nærri því tilbúin. Svona allir af stað.”

Klukkutíma síðar stóð allur hópurinn, hreinn og strokinn í nýjum sparifötum, í hátíðarsal galdramálaráðuneytisins. Jafnvel Lupin var snyrtilegur í dag, enda hafði Molly krafist þess að fá að kaupa á hann nýja spariskikkju og klippa á honum hárið, en þó var ekki laust við sorgarglampa í augum hans.
Vígslan var afstaðin og Arthur stóð í ræðupúltinu og hélt sína fyrstu ræðu sem galdramálaráðherra. Hann var búin að tala um hin og þessi málefni, þakka fyrir traustið sem honum væri sýnt og um margt sem hann hafði í hug að gera fyrir galdraheiminn.
“Eftir árás sem gerð var á Tunglskinskytrurnar í morgun,” sagði hann, “varpaði blaðamaður Spámannstíðinda fram þeirri spurningu hvort ég væri sammála þeirri skoðun að útrýma ætti öllum varúlfum,” einhversstaðar í hópnum heyrðist hrópað “Heyr! Heyr!” en Arthur hélt áfram án þess að hika.
“Það er ég alls ekki! Ég get vel skilið að faðir sem var að missa son sinn af völdum varúlfs geti hugsað svona. Varúlfur drap næst elsta son minn fyrr í vikunni,” hann hikaði örlitla stund en hélt svo áfram, “en ég kenni ekki varúlfunum um. Ég segi að sökin liggur hjá þeim sem koma fram við menn sem hafa orðið fyrir þeirri ógæfu að verið bitnir af varúlfi, eins og þeir séu skepnur. Þeir sem rífa muggana upp með rótum, rífa þá upp frá fjölskyldum sínum, vinum og ættingum, setja þá í nýjan ókunnugan heim, hrædda og einmana og ætlast svo til þess að þeir spjari sig á eigin spýtur. Manngreyið sem réðst á Tunglskinskytrurnar í morgun hafði ekki einu sinni fengið að vita nákvæmlega hvað felst í því að vera varúlfur, annað en það að umbreytast í skrímsli þrjár nætur í mánuði. Hann hafði ekki hugmynd um að hann gat ekki dáið á þennan hátt. Eiginkona hans hafði nýlega yfirgefið hann og tekið dóttur þeirra með sér því hvorugt þeirra fékk nokkra fræðslu eða hjálp til að kljást við vandamál hans. Það eina sem var gert eftir að bitið uppgötvaðist var að skrá hann sem hættulega galdraskepnu hjá ráðuneytinu og færa hann í Tunglskinskytrurnar á hverju fullu tungli. Að sjálfsögðu er ekki hægt að réttlæta þennan verknað, síður en svo, en það hefði hugsanlega verið hægt að koma í veg fyrir þetta.
Ef Galdramálaráðuneytið myndi sjá sóma sinn í því að sinna þessu fólki almennilega, veita því fræðslu um ástand sitt, full réttindi innan galdraheimsins og gæta hagsmuna þeirra, þá værum við mikið betur stödd. Þá ætti Sá-sem-ekki-má-nefna ekki jafn auðvelt með að fá á sitt band svo marga varúlfa sem hann notar á svo hryllilegan hátt. Því flestir þeir sem eiga við þetta ástand að stríða eru ekki vont fólk, það er bara fólk sem hefur engan rétt og er komið fram við eins og þau séu skepnur. Heiðvirðir varúlfar geta varla lifað af í dag, vegna þess að gildandi reglugerðir gera þeim nánast ómögulegt að fá sér vinnu. Hvað gerir maður sem hvergi fær vinnu og er að tærast upp af hungri þegar Sá-sem-ekki-má-nefna býður honum gull og græna skóga? Þegar hann segir honum að nú sé kominn tími til að hefna sín á fólkinu sem ekkert vill með hann hafa?
Höfum í huga hvað við getum gert til að hjálpa þeim sem minna mega sín inn á réttar brautir á ný.”

Í hjarta Remusar Lupins kviknaði örlítill vonarneisti.