Já, hér er komið framhald. Sagan hefur tekið stakkaskiptum og er allt öðruvísi en hún átti að verða í upphafi. Öll plön farin í súginn. Samt er ég ekki komin lengra en á annan kafla, hvernig ætli fari fyrir sögunni??
Svo þarf ég að velja nafn, hvað er við hæfi?


Annar kapítuli
Á Leka seiðpottinum
Harry sat aftast í Riddaravagninum með heitt súkkulaði í höndunum. Ökutækið hristist og kipptist til með látum og súkkulaðið slettist til í bollanum en ekkert fór útfyrir. Bollinn var búinn þeirri nýjung að ekki var möguleiki að sulla útfyrir hann en auðvelt að drekka úr honum. Það voru auðvitað galdrar; það voru álög á bollanum.
Það gerðist ekkert merkilegt á leiðinni að Leka seiðpottinum. Það eina sem gæti komist nálægt því var undarlegt augnaráð Stans Shunpike þegar hann kom í sínum fjólubláa rútuþjónsbúningi til þess að gefa honum súkkulaðið og sagði „gjörðu svo vel Neville“. Harry hafði nefnilega strax kynnt sig ákveðið sem Neville og gefið þannig til kynna að hann vildi ekki láta kalla sig sínu rétta nafni eða láta aðra vita hver hann væri. Hann var dálítið skelkaður við það að fara frá vernduðu húsi Dursleyanna en hann varð að komast burt, bæði vegna þess að það var svo stuttur tími til stefnu en einnig vegna þess að hann þoldi vart við í húsinu lengur. Venjulega kom uglan frá Hogwarts með góðum fyrirvara en þetta árið var hún allt of sein. Það yrði örugglega öngþveiti á Skástræti þessa helgi því að mánudagurinn var eftir tvo daga. Þetta var fáránlega stuttur fyrirvari og Harry velti því fyrir sér hvað hefði valdið töfinni. Það hafði örugglega eitthvað með endurkomu Voldemorts að gera. Kannski var svo mikið að gera hjá Fönixreglunni að skyldur Hogwartsskóla urðu að víkja. Það fannst Harry þó ólíklegt, Dumbledore var ekki þannig maður og auk þess væru McGonagall og fleiri að hljálpa til. Hvað væru þau annars að gera? Hvernig undirbjuggu þau skólaárið?
Svona reikuðu hugsanir hans þangað til að Stan kallaði hátt og skýrt:
„Leki seiðpotturinn gott fólk! Við erum komin á Leka seiðpottinn! Konur mínar og herrar, allir sem ætla frá borði, gjörið svo vel að standa á fætur! Ekki troðast!“
Harry var sá eini sem fór af. Dálítið reikull í spori eftir harkalega ferð gekk hann inn á Leka seiðpottinn þar sem honum var heilsað af Tom, smávaxna og hrukkótta kráareigandanum. Hann ætlaði að panta sér herbergi og búa þar þangað til hann færi aftur til Hogwarts eins og hann hafði gert á þriðja árinu sínu og vonaðist til þess að hitta einhvern, að minnsta kosti Ron eða Hermione á Skástræti.
„Ertu með eitthvað laust næstu þrjár nætur?“ spurði hann Tom sem horfði hikandi á hann og klóraði sér í skallanum.
„Þú verður að vera orðinn lögráða til þess að mega taka herbergi án ábyrgðarmanns herra Potter.“ Harry horfði vantrúaður á hann. Þetta gat ekki verið! Hvað átti hann nú að gera?
„Ég er orðinn átján,“ reyndi hann vonleysislega að segja. Þá var það komið að Tom að horfa vantrúaður á Harry.
„Herra Potter, ég held að allur galdraheimurinn viti að þú sért ekki orðinn lögráða.“ Harry sló flötum lófanum á afgreiðsluborðið og blótaði,
„Hvað á þetta eiginlega að þýða? Hvað á ég að gera? Sofa á götunni eða hvað? Leyfðu mér að minnsta kosti að fá herbergi í nótt!“
„Því miður, lögin taka það skýrt fram að það megi ekki.“ Tom var vandræðalegur en fastur fyrir.
„Heyrðu nú mig!“ kallaði Harry næstum en komst ekki lengra því rödd fyrir aftan hann tók fram í fyrir honum:
„Ég tek ábyrgð á honum Tom. Hérna, ég skal borga fyrir nóttina Harry.“ Harry snéri sér við.
„Lupin!“ hrópaði hann upp yfir sig og Tom sussaði á hann og bað hann að trufla ekki aðra gesti staðarins. „Hvað ert þú að gera hér?“
„Það er nú mitt mál,“ svaraði Lupin stuttaralega og borgaði. Harry var of brugðið til þess að mótmæla, Lupin virtist í slæmu skapi en það var ekki líkt honum að láta það bitna á öðrum. Hann tók í handlegg Harrys og dró hann stuttan spöl frá afgreiðsluborðinu.
„Hvað á þetta að þýða að stinga svona af án þess að láta nokkurn vita Harry James Potter?“ Hvíslaði Lupin milli tannanna. Hann var reiður við hann og það kom illa við Harry. „Dursleyfjölskyldan sagði okkur hvað gerðist og mér finnst þú hafa tekið þessum brandara fáránlega illa.“ Harry rankaði við sér.
„Brandara? Sögðust þau hafa verið að grínast? ÞAÐ er þá brandarinn! Þau neituðu að keyra mig hingað…“
„Ég veit Harry,“ Lupin vísaði honum á stól, sem Harry settist í, og settist síðan á móti honum við borðið. Hann andvarpaði.
„Fyrirgefðu Harry, ég er bara svo þreyttur og ég hafði áhyggjur af þér. Þú hlýtur að skilja það,“ sagði hann og horfði í augun á honum. Harry leit undan og niður á borðið. Hann hafði samt séð þungu pokana undir rauðum augunum og órakað skeggið. Lupin hafði elst mikið á þessu eina ári fannst Harry. Hann var nú næstum alveg gráhærður. Enda hafði þetta verið erfitt ár; endurkoma Voldemorts, öll vinnan hjá Fönixreglunni, dauði Siríusar…
„Ég skal borga þér herbergið aftur,“ sagði Harry skyndilega og fór að þreifa eftir peningum svo Lupin sæi ekki framan í hann.
„Nei, nei, ekki hafa áhyggjur af þessu, ég býð, í alvöru,“ svaraði Lupin. Harry hætti að leita og var komin með kökk í hálsinn. Afhverju hafði dauði Síríusar þessi áhrif á hann? Hann saknaði hans ógurlega jafnvel þótt hann hefði í raun ekki kynnst honum það vel. Vonin, hugsaði hann, og vissan um það að einhverjum þótt vænt um hann eins og alvöru foreldrar.
„Harry,“ spurði Lupin varlega, „er allt í lagi?“
Harry svaraði ekki og Lupin sagði ekkert strax.
„Ertu að hugsa um Síríus?“
Harry saug upp í nefið og ræskti sig, hann ætlaði sko ekki að fara að gráta og sanna fyrir krumpuðu hnetunni honum Tom að hann væri smábarn.
„Veistu,“ hélt Lupin áfram, „ég sakna hans alveg ægilega líka. Hann var besti vinur minn. Daginn sem foreldrar þínir dóu, Harry, missti ég alla mína nánustu vini. Ekki bara James, Lily og Peter, sem ég hélt myrtan, heldur líka Síríus, því ég vildi ekki eiga morðingja og svikara að vini. Ég hélt að hann hefði svikið okkur öll fyrir myrku öflin og orðið valdur að dauða þriggja bestu vina minna. En svo, fyrir rúmum tveimur árum braust hann út og hitti þig og tókst að hreinsa mannorð sitt gagnvart sumum, þar á meðal mér. Hann fyrirgaf mér fyrir að trúa því að hann hefði verið svikarinn og við urðum aftur vinir. Veistu hvað það er erfitt að eignast góða vini þegar maður er varúlfur? Það að við höfðum orðið vinir aftur eftir tólf ár af hrikalegum lygum og svikum er ótrúlegt, lygilegt en það að hann hafi síðan horfið fyrir fullt og allt svo stuttu síðar…“ rödd Lupins brast og hann ræskti sig áður en hann byrjaði að nýju.
„Harry, ég vil bara segja þér að ég veit hvernig þér líður og að ég er hér til staðar ef þig langar til þess að tala um þetta.“
“Mig dreymdi hann í nótt…“ Harry missti þetta algerlega út úr sér. Hann hafði alls ekki ætlað að segja neitt. En fyrst hann var byrjaður… Hann fann eiginlega til smá léttis, þótt setningin hefði verið stutt, svo hann ákvað að halda áfram og segja Lupin frá draumnum.
„Mig dreymdi það í nótt. Atvikið þegar hann… féll.“ Já, hugsaði hann, hann bókstaflega féll í bardaga. Eins og hetjurnar í fornsögunum. „Nema hvað hann datt ekki, það varaði einhver hann við. Og hann var svo raunverulegur. Draumurinn sko.“ Lupin hnyklaði brýrnar og Harry flýtti sér að leiðrétta: „Þetta var samt ekki eins og draumarnir með Voldemort, þessi virðist ekkert skyldur þeim.“
„Ég veit, ég veit!“ sussaði Lupin á Harry og leit flóttalega í kring um sig, „en ekki svona hátt Harry! Það er aldrei að vita hver er að hlusta.“
„Afsakið,“ hvíslaði Harry hissa, „En hvernig veistu?“
„Af því að mig dreymdi sama drauminn!“
Harry starði opinmynntur á hann áður en hann gat svarað.
„Ha?“ var þá það eina sem hann gat sagt.
„Já,“ svaraði Lupin og gat ekkert annað sagt í bili.
„Veist þú hver það var sem öskraði?“ spurði Harry eftir smá stund.
Lupin hristi höfuðið. „Nei. En ég sá að það var stelpa klædd eins og muggi.“
„Er það? Já, það er rétt, ég man það, nú þegar þú segir það. Ég tók samt ekkert sérstaklega eftir því. Helduru að hún hafi verið muggi?“
„Líklega ekki. Kannski er það hennar vegna sem okkur dreymdi þennan sama draum, kannski sendi hún okkur hann, hver veit.“
Harry reisti sig snögglega við.
„Ætli fleiri hafi dreymt hann líka? Veistu nokkuð um það?“
Lupin hugsaði sig um. „Nei, ég veit ekki. Það er best að ég spyrji og reyni að finna út úr því hvaðan þessi draumur kom, því ekki er hann eðlilegur.“
Harry kinkaði kolli en bætti samt við:
„En ekki fara að segja öllum að mig hafi dreymt þetta því það hafa allir svo hrikalega miklar áhyggjur af mér og ef þau frétta af þessu eiga þau ekki eftir að láta mig í friði frá ofverndun og augngotum.“
„Ég skil þig. Ég gæti þess. Ég spyr bara hvern og einn sér í lagi.“
Það var ekki mikið sem þeir gátu sagt hvor öðrum um drauminn, nema hvað Lupin hafði séð stelpuna sem hafði varað Síríus við aðeins betur en Harry og gat lýst henni. Hún hafði verið með sítt ljóst hár og klædd í gallabuxur og dimmgrænan bol en það var allt og sumt, hann hafði ekki séð nein einkenni á henni og hvorugur kannaðist við hana. Að lokum fóru Harry og Lupin til herbergja sinna og lögðust til svefns.