Vitsugur (((þessi grein gæti haldið einhverja spoilera, þannig að varist þá þið sem eruð ekki búin að lesa fimmtu bókina og drífið ykkur að lesa þá bók. ;) )))


“Þegar vitsugurnar koma nálægt mér, heyri ég Voldemort myrða mömmu mína” - Harry Potter og fanginn frá Azkaban.


Hver man ekki eftir vitsugunum? Þessar ógeðfelldu verur komu fram í þriðju bókinni um Harry Potter og gættu þær skólans fyrir flóttafanganum og, eins og seinna kom í ljós, guðföður Harrys, Sirius Blacks.

Vitsugur eru meðal þeirra verstu galdravera sem að ganga um á jörðinni. Þær nærast á tilfinningum fólks í kringum þær og öll gleði, friður og von hverfur úr loftinu í kringum þær.
Muggar finna einnig fyrir kuldanum sem fylgir vitsugunum og þó að þeir sjái þær ekki, líður þeim alveg jafn illa.

Vitsugurnar nærast á jákvæðum tilfinningum og eru stórir hópar eins og veislur fyrir þær. Við, lesendur Harry Potter bókanna, munum að sjálfsögðu eftir atvikinu þegar vitsugurnar komu á Quidditch leik Gryffindors og Hufflepuff og ollu því að Harry féll af kústi sínum og Hufflepuff vann leikinn.
Vitsugurnar eru fangaverðir í galdrafangelsinu Azkaban og gera það að hörmulegum stað þar sem þeir fangar sem hafa verið þar lengst eru orðnir að engu nema slæmum minningum.

Þó eru til nokkrar aðferðir til að verjast vitsugum og sú þekktasta er galdurinn Patronus sem kallar fram verndara. Verndarinn hrekur svo vitsugurnar á burtu.
Að kalla fram verndara er ekki auðvelt þar sem hann byggist meðal annars upp á hamingjusömum hugsunum og það eru þær sem að vitsugurnar eru svo snöggar að ná úr huga fórnarlamba sinna.
Einnig er ein önnur aðferð sem þó er frekar óþekkt. Það er aðferðin sem að Sirius Black notaði í Azkaban til þess að komast hjá því að verða nokkurn veginn tilfinningalaus. Sirius er, eins og flestir vita, umskiptingur (það er getur breytt sér í hund) og einstöku sinnum breytti hann sér í hund. Vitsugurnar fundu þá ekki fyrir eins mannlegum tilfinningum frá honum því hann var hundur og héldu að það væri einfaldlega því að hann væri að verða minna og minna mannlegur hverja stundina sem leið.

Útlit vitsuganna er ekki minna ógeðfellt heldur en allar slæmu tilfinningarnar í kringum þær.
Vitsugur eru hávaxnar, hettuklæddar verur en undir hettunni sést ekkert og aðeins heyrist hryglukenndur andardráttur, líkt og þær séu að soga meira en loft inn í sig…
Hendur þeirra eru slímugar, gráleitar og í raun afmyndaðar og veldur þetta m.a. kuldanum í kringum þær.

Vitsugurnar hafa ógnvænlegt og hryllilegt lokavopn, sem notað er meðal annars á þá fanga sem hljóta nokkurs konar “dauðadóm” hjá ráðuneytinu. Vopnið kallast “Koss vitsugunnar”.
Þá lætur vitsugan hettuna síga en undir henni er einhvers konar munnur. Vitsugan klemmir kjálkana utan um munn fórnarlambs síns og sýgur úr því sálina.
Það allra versta er að fórnarlambið deyr ekki. Nei, langt í frá, því að þú getur lifað án sálarinnar. Þú ert þá bara tilfinningalaus “skel”, lifandi manneskja sem er löngu “farin”.

Vitsugurnar hafa nú gengið til liðs við hinn myrkra herra, Voldemort, sem þýðir að fangelsismál ráðuneytisins eru í uppnámi.
Gaman verður að fylgjast með í næstu bókum og sjá hvernig ráðuneytið, fönixreglan og aðrir góðir galdramenn sem berjast gegn Voldemort og hans hyski munu ráða niðurlögum vitsugnanna.

takk fyrir mig,
sillymoo.