Af mbl.is
Helga Haraldsdóttir á í sérstöku sambandi við Harry Potter - hún er konan sem hefur þýtt bækurnar um galdrastrákinn góða. Helga býr í Hollandi þar sem hún er í framhaldsnámi í sálfræði. Á laugardaginn, um leið og fimmta bókin kom út, fékk Helga sér eintak og tók til við að lesa.
“Þýðendur fá ekkert tækifæri umfram aðra þannig að nú tekur heilmikil törn við hjá mér. Það verður í það minnsta lítið farið á ströndina í sumar.” Helga hefur þrjá mánuði til að ljúka verki sínu, því bókin þarf að vera tilbúin til prentunar á íslensku í lok september. Söguþyrstir aðdáendur Harry Potters hafa lagt í ævintýralegar gripdeildir til að komast yfir þó ekki væri nema síðu af nýju bókinni; og síðustu fréttir hermdu af manni sem stal heilum bílfarmi af bókinni frá bresku póstþjónustunni. Á Íslandi er það Bjartur sem gefur bókina út og þar bíða krakkarnir við þröskuldinn til að fá að lesa kafla og kafla í senn eftir því sem Helga skilar þeim af sér þangað. “Við höfum nú orðið að takmarka þetta, það bættist alltaf við í þennan hóp,” segir forleggjarinn, Snæbjörn Arngrímsson, og nú fá bara nokkrir krakkar að komast í bráðalesturinn á Harry Potter.
Hefur frið í útlöndum
Helga segist ekki hafa þurft að beita neinum sérstökum varúðarráðstöfunum við tölvuna sína og gestir hennar hafa ekki sýnt því sérstakan áhuga að gægjast yfir öxlina á henni meðan hún vinnur. “Þessi manía er alveg ótrúleg - en ég hef ekki fundið svo mikið fyrir þessu, þetta lendir mest á Snæbirni. Það er gott fyrir mig að vera hérna úti við þetta, hér hef ég ró og næði.” Helga segist sjálf vera rosalegur aðdáandi Harry Potters og hafa beðið jafnspennt og aðrir eftir nýju bókinni, sem er 766 blaðsíður. “Þetta er frábær bók og ég er rúmlega hálfnuð núna, enda hefur drengurinn minn verið hálf sjálfala síðan á laugardaginn. Ég er talsvert mikið að hugsa um þýðinguna meðan ég er að lesa, og ég hugsa að ég renni yfir bókina aftur áður en ég byrja á sjálfu verkinu. En ég hef mikla ánægju af lestrinum, það er alveg víst.”
Nýja Harry Potter-bókin heitir Harry Potter og Fönixreglan. Áður en hún kom út höfðu um milljón manns pantað hana gegnum netverslunina Amazon. Um helgina seldist bókin í fimm milljónum eintaka í Bandaríkjunum sem er sölumet og í Bretlandi seldist hún í á fjórða hundrað þúsund eintaka fyrsta sólarhringinn.
Fjórar fyrri bækurnar um Harry Potter hafa samtals selst í um 192 milljónum eintaka um allan heim og verið gefnar út á 55 tungumálum í yfir 200 löndum.