Kæru hugarar
Ég er kannski ekki mikið fyrir Harry Potter en mig langar að senda inn smá grein a því tilefni að þetta áhugamál er nýtt á huga.

Hér er eitthvað um höfundinn J.K. Rowling.

Harry Potter og viskusteinninn var fyrsta bók J.K. Rowling. Hana hafði lengi langað til að skrifa skáldverk, og ritaði sína fyrstu sögu, sem hún kallaði „Rabbit“ (kanína) 6 ára gömul. Áður en hún fékk hugmyndina að Harry Potter hafði hún skrifað tvær skáldsögur fyrir fullorðna, en ekki fengið þær birtar.

Árið 1990 var Rowling á leið með lest frá Manchester til Lundúna þegar hún fékk skyndilega hugmyndina að barnabók („Hugmyndin kom fljúgandi einhvers staðar að ofan,“ segir hún), og seildist eftir penna til að festa hugmyndina á blað, en fann engan. Þegar heim kom ritaði hún allt niður sem hún hafði hugsað á leiðinni. Þetta var hugmynd um ungan dreng sem lendir í alls konar klandri, og fer í galdraskóla til að læra ýmis galdrabrögð. Rowling datt strax í hug að gera hugmyndina að bókaröð - sjö bækur alls, eina um hvert ár drengsins í galdraskólanum.

Árið 1993 var Joanne Rowling fráskilin og einstæð móðir í Edinborg, með háskólapróf, en atvinnulaus og á bótum frá félagsmálastofnun. Þetta árið sat hún oft á kaffihúsinu „Nicholson“ í Edinborg og skrifaði sögu Harry Potter í minnisbókina sína á meðan litla stúlkan hennar svaf í barnavagni við hlið hennar. Seinna fékk hún starf sem frönskukennari og hlaut einnig styrk frá skoska menningarsjóðnum til að ljúka bókinni.

Það tók Rowling 5 ár að skrifa Harry Potter og viskusteininn. Þegar handritið var tilbúið sendi hún það til útgefenda, en tvö útgáfufyrirtæki höfnuðu því (þeir naga sig eflaust í handarbökin) áður en Bloomsbury samþykkti það.

Hún var þá 33 ára og ákvað að nota rithöfundanafnið „J.K. Rowling“ í stað Joanne Rowling, og halda kyni sínu leyndu þar sem útgáfufyrirtækið taldi að sumir strákar vildu síður lesa bók eftir konu!

Joanne bjó um tíma i Portúgal, sem er hennar uppáhaldsstaður fyrir utan heimaland hennar, Skotland. Faðir dóttur hennar, Jessie, er portúgalskur. Joanne segir að Jessie sé enn of ung (7 ára árið 2000) til að hún lesi Harry Potter bækurnar fyrir hana, en stúlkan hefur mest gaman að Narnia-bókunum.

Bækurnar um Harry Potter eru jafn vinsælar hjá fullorðnum og börnum, og breska fyrirtækið Bloomsbury ákvað að prenta aðra útgáfu bókarinnar með „fullorðinslegri“ kápu svo að fullorðnir þyrftu ekki að skammast sín fyrir að lesa bókina í lestum og flugvélum.

Hvaðan fékk Joanne hugmyndirnar að nöfnum persónanna?

Hedwig (uglan) var nafn á dýrlingi, Dumbledore er fornenskt orð yfir býflugu og Snape er staðarnafn á Englandi.

Nú hefur bókin verið þýdd á yfir þrjátíu tungumál og verið gefin út m.a. í Bretlandi, Bandaríkjunum, Brasilíu, Hollandi, Frakklandi, Þýzkalandi, Ítalíu, Spáni, Portúgal, Grikklandi, Tékkóslóvakíu, Svíþjóð, Noregi, Danmörku, Finnlandi, Japan - og auðvitað á Íslandi.

Eftir útgáfu fyrstu bókarinnar hóf Joanne þegar í stað að skrifa næstu bók, Harry Potter and the Chamber of Secrets (Harry Potter og leyniklefann), og það tók hana um 1 ár að skrifa hana. Þriðja bókin, Harry Potter and the Prisoner of Azkaban (Harry Potter og fanginn frá Azkaban) var um 8 mánuði í ritun, en Joanne segir að það hafi verið full mikið vinnuálag.

Rowling tók sér lengri tíma til að skrifa fjórðu bókina, Harry Potter and the Goblet of Fire (Harry Potter og eldbikarinn) sem kom út hér á Íslandi haustið 2001.

Kvikmyndafyrirtækið Warner keypi kvikmyndaréttinn að bókunum, og var fyrsta myndin frumsýnd í nóvember 2001. Rowling samþykkti handritið, og í fyrstu var reiknað með því að Steven Spielberg leikstýrði myndinni, en hann hafnaði boðinu. Rowling vildi alls ekki að gerð yrði teiknimynd.

Efnið um höfundinn fann á á Harry Potter síðu Önnu Heiðu.

Kveðja hallat.