Leikur SR við Björninn í Íslandsmóti karla um helgina var sannkallað taugastríð fyrir leikmenn og aðdáendur SR. Ekki þótti byrjunin lofa góðu hjá SR-ingum er Sergei Zak rauf “shut-out” hrinu Gulla yfirmarkverju gegn >Birninum með “power-play” marki er SR-ingar þurftu að leika 3 á móti 5 Bjarnarmönnum.
Stuttu síðar, eða á 13.mínútu, náði Jónas Breki Magnússon að auka muninn með fínu “power play” marki og tæpum fjórum mínútum síðar bætti Zak öðru marki við eftir stoðsendingu frá Jónasi Breka. Útlitið var því ekki gott fyrir okkar menn, en SR-ingar eru ekki þekktir fyrir að gefast upp þótt á móti blási. Þjálfarinn Peter Bolin er þar engin undantekning en hann skaut bylmingsskoti frá bláu línunni sem Rósar í marki Bjarnarins réð ekkert við.
Fyrsta leikhluta lauk því 3 - 1, Birninum í vil. Andrúmsloftið var því þungt í SR-ingum, menn urruðu og geltu í ergelsi, en ákváðu þó að taka sig saman í andlitinu og einbeita sér að sínum leik. Í öðrum leikhluta var því allt annað að sjá til SR-inga og áður en tvær mínútur voru liðnar skoraði Ingvar Þór flott mark eftir samspil Elvars og Jónasar Rafns. Staðan orðin 3-2 og því ögn betri fyrir SR-inga. Bjarnarmenn náðu þó að svara fyrir sig á 13. mínútu er Brynjar Þórðarson skoraði með aðstoð frá Zak og Brekanum. Staðan 4 - 2 fyrir Birninum er öðrum leikhluta lauk.
Andrúmsloftið í búningsklefa SR var þó orðið léttara og menn farnir að leggja á ráðin hvernig ætti að spila síðasta leikhlutann og vinna leikinn. M.a. var varnarmaðurinn Jónas Rafn settur í sóknina og ákveðið að keyra á reynslunni. Þessar breytngar höfðu góð áhrif á leik SR-inga. Strax í upphafi 3. lotu tók Ingvar Þór sig til og skoraði svokallað “coast-to-coast” mark, þ.e.a.s hann skautaði upp svellið frá sínum vallarhelmnig, þvældi hvern Bjarnarmanninn á fætur öðrum og skilaði pekkinum í netið hjá Rósari. Útlitið orðið miklu bjartara fyrir SR-ingar, þeir búnir að setja í 5 gír, og einungis tímaspursmál hvenær þeir næðu að jafna. Jöfnunarmarkið kom svo tæpum 5 mínútum síðar er Jónas Rafn skoraði fjórða mark SR-inga með aðstoð frá Ingvari. Tæpum 5 mínútur fyrir leikslok sigldi freygátan Elvar Jónsteinsson inn í varnarsvæði Bjarnarinns og skoraði vinningsmarkið með aðstoð frá Ingvari og Richard Tatinen. Þrátt fyrir harða sókn að marki SR náðu Bjarnarmenn ekki að jafna leikinn og lokastaðan því 5 - 4 SR í vil.
Einna merkilegast við þennan leik var að SR-ingar slógu öll fyrri met sín í refsimínútum eða alls 20 mín í leiknum. Vonandi er toppnum náð hjá SR í þessum málum en sigurinn einungis það sem koma skal.