Wayne Gretzky Fannst bara gaman að senda þetta inn þar sem maður getur aldrei lesið neitt um Wayne Gretzky í blöðunum eða einhverstaðar annarstaðar svo ég segji bara njótið! ATH. Þetta er tekið af ÍHÍ.is!


Gretzky spilaði 20 tímabil í NHL deildinni með samtals fjórum liðum; Edmonton, Los Angeles, St Louis og New York. Yfirburðir hans á ísnum voru slíkir að hans verður minnst í sögubókum framtíðarinnar. Gretzky vann Stanley bikarinn fjórum sinnum og Kanada bikarinn (canada cup) þrisvar sinnum, en á þessum árum var Canada bikarinn eina mótið sem NHL gaf leikmönnum sínum frí frá deild til að taka þátt í móti og var því lengi vel talið eina mótið sem virkilega gat skorið úr um hvaða þjóð átti besta hokkílið í heimi. Á Olympíleikum og Heimsmeistaramótum kepptu þá aðeins þeir atvinnumenn sem voru í fríi frá sínum deildum.

Gretzky náði þeim einstaka árangri á sínum ferli að hirða flest met deildarinnar s.s. markahæsti og stoðsendingahæsti leikmaður deildarinnar frá upphafi, bæði í deildarkeppni og úrslitum. Á ferlinum var hann 10 sinnum stigahæsti leikmaður deildarinnar, 9 sinnum var hann valinn besti leikmaður deildarinnar og til glöggvunar á yfirburðum hans hlaut hann þann titil 8 ár í röð þ.m.t. fyrsta tímabilið hans í deildinni, hann var tvisvar sinnum valinn besti leikmaður úrslitakeppninnar, 5 sinnum var hann valinn prúðasti leikmaður deildarinnar, 18 sinnum spilaði hann í NHL stjörnuleiknum (ALL-STAR) og af þeim 18 skiptum var hann þrisvar sinnum valinn besti maður leiksins.
Hann á næstum því öll met sem sóknarmaður getur sett í NHL. Fyrir utan að vera bæði marka og stoðsendingahæsti leikmaður NHL frá upphafi þá var hann t.a.m. með að meðaltali 192 stig á hverju tímabili í sjö ár. Hann hefur skorað flest mörk allra á einu tímabili eða 92, (100 mörk með úrslitakeppni, einnig met) flest stig í einni úrslitakeppni eða samtals 47 og einnig á hann metið fyrir flest stig á einu tímabili eða alls 215 stig. Alls er met hans í NHL 61 talsins.

Sem frekari vitnisburð um áhrif Gretzky á íshokkí þá má nefna hve víðtæk áhrif félagaskipti hans höfðu á íþróttina. Hann hóf feril sinn hjá Edmonton Oilers í Kanada árið 1979 og vann m.a. alla Stanley bikarana hjá þeim en árið 1988 fór hann suður fyrir landamærin og gekk til liðs við LA Kings í hinni sólríku Kalíforniu Bandaríkjanna. Þetta þótti á sínum tíma ein allra merkilegustu félagaskiptin í íþróttaheiminum og peningaupphæðirnar sem skiptu um hendur voru áður óþekktar við slíka gjörninga. Sagan segir að þetta haust hafi algerlega breyst landslagið í bandarísku hokkí. Fyrir þennan viðburð hafði hokkí í raun aldrei náð raunverulegum hæðum á meðal íþróttaáhugamanna og t.a.m. var höllin venjulega aðeins að hluta til setin áhorfendum á heimaleikjum. Skömmu eftir komu Gretzky í bæinn var LA Kings fyrst allra liða til að selja hvert einasta sæti í höllinni á hverjum einasta hokkíleik allt tímabilið.

Í framhaldi af þessu tók hokkí að breiðast út með undraverðum hraða um suðurríki Bandaríkjanna þar sem sólin skín hátt og himni og fram að þessu hafði fólk varla leitt hugann að hokkí. Hokkíáhuginn breiddist hratt út og fljótlega eftir 1990 var íþróttin orðin ein sú vinsælasta í Kaliforníu, Flórida, Georgíu, Norður-Karólínu, Tennessee og Texas – eitthvað sem engum hafði órað fyrir.

Gretsky spilaði í 8 tímabil í borg englanna og eftir stutt stopp hjá St. Louis Blues lauk hann ferlinum í stóra eplinu, New York með þremur tímabilum. Þegar hann loks hengdi upp skautana hélt hann blaðamannafund og það vill svo til að akkúrat á þeirri stundu var íslenska landsliðið í íshokkí að keppa í fyrsta skiptið á heimsmeistaramóti í S-Afríku. Blaðamannafundurinn var sýndur í sjónvarpinu þar sem öll liðin dvöldu í meðan á keppninni stóð og það var frekar athyglisverð upplifun að horfa á stóran matsal af illvígum hokkíleikmönnum héðan og þaðan úr veröldinni horfa á skjáinn með tárin í augunum þegar konungurinn sjálfur kvaddi sportið.

Síðasta tímabilið hans var það eina sem hann fór undir 1 stig að meðaltali í leik en þá var hann með 62 stig í 70 leikjum…. og ef einhverjum þykir það lítið þá er rétt að taka það fram að hann var stigahæstur í Rangers þetta tímabilið sem og hin tímabilin tvö sem hann spilaði þar og ávallt var hann með fæstu mínúturnar í refsiboxinu.

Skömmu eftir að hann hætti að spila var hann heiðraður með því að skyrtunúmer hans, #99 hefur verið friðað um ókomin ár, en öll lið NHL tóku sig saman um að aldrei skyldi annar leikmaður í NHL spila í treyju nr. 99 – slíkt hefur aldrei verið gert áður og verður að öllum líkindum aldrei gert aftur.
I ran like hell faster than the wind