SR - SA 5:4 …auðvitað!
Skautafélag Reykjavíkur sýndi mikinn “karakter” í leik sínum á móti Skautafélagi Akureyrar s.l. laugardag. Okkar menn voru mættir á staðinn staðráðnir í því að sýna gestgjöfum enga virðingu. Strax í byrjun leiksins sáu áhorfendur að á ísnum voru greinilega tvö jafnvíg lið sem gáfu ekkert eftir. Heimamenn náðu að skora fyrsta mark leiksins eftir ágætis samspil þeirra Sigurðar Sigurðssonar og Kenny corp sem endaði með marki þess síðarnefnda. Ingvar Þór Jónsson og Elvar Jónsteinsson tóku til sinna ráða er þeir spiluðu varnarmenn SA uppúr skautunum og skoruðu gott mark fyrir SR. Staðan 1-1. Izaak Hudson kom heimamönnum aftur yfir 2-1 með góðu skoti rétt innan við bláu línuna í lok fyrstu lotu. Í annarri lotu var SR kominn í fullan gang, farnir að spila sitt íshokkí sem endaði með marki hins knáa leikmanns Snorra Rafnssonar. Heimamenn bættu þó við marki og var þar Sigurður Sveinn Sigurðsson að verki. Staðan því orðin 3-2 fyrir SA.
Í byrjun þriðju og síðustu lotu skoraði Snorri annað mark sitt í leiknum með fallegu skoti og jafnaði þar með leikinn. Því næst skoraði finnska tröllið Richard Tatinen stórglæsilegt mark fyrir SR með bylmingsskoti og staðan því orðin 4 - 3 fyrir SR. Nokkrum mínútum síðar náðu heimamenn að jafna leikinn og var þar enn og aftur Sigurður Sigurðsson sem skoraði fyrir SA. Norðanmenn misstu síðan menn útaf og einn þeirra alla leið inní búningsklefa, og kom hann ekki meira við sögu í leiknum. SR-ingar bættu svo við sínu 5. marki og enn var þar að verki Richard Tatinen með dúndurskoti. Síðustu mínúturnar í leiknum var húsið nærri að hruni komið af spenningi og hvatningu þar sem stuðningsmenn SR létu í sér heyra svo um munaði. Norðanmenn reyndu hvað þeir gátu að jafna leikinn en allt kom fyrir ekki, pökkurinn vildi ekki inní SR markið. Á endanum rann leiktíminn út og niðurstaðan ljós; SR sigraði SA 5-4 í gríðarlega spennandi leik og mun þetta vera í fyrsta skiptið síðan 1999 sem SR sigrar SA á heimavelli.
Meistaraflokkurinn vill sérstaklega þakka þeim fjölda stuðningsmanna sem hvöttu þá áfram í þessum leik. Sjaldan eða aldrei hafa jafnmargir SR-ingar verið í höllinni fyrir norðan og stundum var ekki ljóst hvort SR væri að spila á heimavelli eða útivelli, slík voru stuðningshrópin.
Næsti leikur hjá meistaraflokki er n.k. sunnudagskvöld en þá tekur SR á móti Birninum.
Áfram SR!!