1. Björk Guðmundsdóttir
Langholtskirkja, 26. ágúst.
Björk lauk eins og hálfs árs Tónleikaferðalagi með litllum en einstaklega innilegum tónleikum. Langbestu tónleikar ársins.

2. Sigur Rós
Laugardalshöll, 23. nóvember.
Gulldrengirnir kláruðu sinn túr með glæsilegum tónleikum þar sem ekkert var til sparað. ,,Næstum því of fullkomnir tónleikar,'' sagði einn málsmetandi rýnirinn.

3. Hinn íslenski Þursaflokkur og Caput
Laugardalshöll, 23. febrúar.
Ein allra besta rokksveit íslandssögunnar sneri aftur með glæsibrag og Caput sér við hlið, og sýndi að hún hafði raunverulega engu gleymt.

4. Náttúrutónleikar Bjarkar og Sigur Rósar
Laugardalur, 28. júní.
Frábær tónleikastaður, höfug sumarstemming, uppbyggilegur pólitískur boðskapur og tvö ,,stærstu'' nöfn íslenskrar dægurtónlistar. Og frítt inn. Er hægt að biðja um það betra?

5. Bob Dylan
Laugardalshöll, 26. maí.
Eitursvalur Dylan með band svo þétt að vatnið komst ekki á milli.

6. Amiina og Kippi Kaninus
Hafnarhúsið á listahátíð, 19. maí.
Einstaklega vel heppnaður samsláttur tveggja listamanna. Seyðmagnaðir, draumkenndir og algerlega dásamlegir tónleikar.

7. Sálin hans Jóns míns
Laugardalshöll, 14. mars.
Popphljómsveit íslands með stóru P-i innsiglaði stöðu sína með bravúr á glæsilegum afmælistónleikum í troðfullri Höll.

8. Tindersticks
Nasa, 11. september.
Tónleikar þessarar goðsagnakenndi sveitar urðu að nokkurs konar helgistund. ,,Eitt langt og fallegt augnablik,'' sagði gagnrýnandi.

9. Hjaltalín
Miklatún á menningarnótt, 23. ágúst.
Með þesum tónleikum kórónaði Hjaltalín einkar giftusamt ár og þegar leynigesturinn Páll Óskar kom á svið kyrjaði allt túnið með einum rómi.

10. Agent Fresco
Iceland Airwaves á Nasa, 15. október.
Sigurvegarar Músiktilrauna sýndu hér og sönnuðu að sigurinn var engin tilviljun. Geysiþétt framkoman skildi salinn eftir gapandi.


Samkvæmt Morgunblaðinu miðvikudaginn 31. desember 2008.
Hvernig breytir maður um undirskrift?