Ég er búinn að vera að nota þann litla frítíma sem ég hef haft í dag til að fikta í Flextone III magnara sem ég keypti mér í hendurnar í gær.. fyrir svona gamlan kall eins og mig þá virkar þetta allt voða flókið, sérstaklega þar sem enginn leiðbeiningabæklingur fylgdi. En þegar ég er búinn að fá magnarann yfir í “manual mode” (fyrir þá sem ekki þekkja, þá þýðir það að hann notar engar stillingar úr minninu, heldur bara það sem takkarnir sýna..) þá fer ég að skoða alla þessa mismunandi herma..
Ég klikka á milli, það koma einhver gul og rauð ljós og voða gaman.. sumt hljómar of hrátt fyrir minn smekk, annað of þétt.. finn þarna mjög fallegt hreint hljóð með “Jazz clean” módúluna á gulu ljósi.. svo ramba ég á rauða ljósið við “Plexi Lead 100” .. og hugsa með mér, “mikið djöfulli hljómar þessi kunnuglega..”
Svo fer mig að langa að kynna mér aðeins meira hvað allir þessir takkar og snúrilar gera og tékka á heimasíðu Line6 hvort handbókin sé ekki þar á .pdf-formi.. fletti í gegn.. og kemst þá að því að það var ekkert skrýtið að þessi módúla væri svona kunnugleg, hún heitir “Brit Silver” og er byggð á Marshall Silver Jubilee magnara, rétt eins og þeim sem bíður eftir mér uppi í æfingahúsnæði..
Ég segi ekki að þetta sé NÁKVÆMLEGA eins, en þetta er að komast drullunálægt, og ef mér tæksit að eq-a burt smá suð sem er að pirra mig við Flextoneinn (hef ekki haft nema smátíma til að tweaka hann, en skilst að sexurnar séu frekar miklir “fiktmagnarar”), þá er ég ekkert viss um að ég myndi þekkja þá í sundur..
Clean hljómur er hinsvegar annað mál.. það er eitthvað við þetta “glerhljóð” sem kemur úr hátt stilltum lampamagnara sem ég hef ekki enn séð í modeling mögnurum. Það er sennilega vegna þess að það kemur úr kraftmagnaranum, en kraftmagnarara í línusexum eru bara ósköp venjulegir transistoramagnarar. En þegar kemur að rifnu soundi, þá held ég að line6 geti alveg blekkt stóran hluta græjunörda þarna úti..