Best að stökkva í djúpa skítinn án björgunarhrings….

Er ég einn um að vera búin að fá leið á illa hugsuðum og verr orðuðum spurningum á þessum þræði? Hérna eru dæmi um nokkrar spurningar ásamt athugasemdum mínum vegna þeirra. Sumt er nánast orðrétt úr spurningunni, en annað er smá skrumstæling.

“hvernig magnara á ég að fá mér?”. Magnara fyrir hvað? Hljómborð, bassa, gítar, geislaspilara? Spurningin krefst þess að þetta sé tilgreint til að vit sé í henni.

“hvernig gítar á ég að fá mér?”. Hvað ætlar þú að (reyna að) spila? Á hvað hlustar þú? Hvað viltu gera?

“xxx eru okrarar. Ég frétti frá vini mínum sem á frænku sem sá á netinu að yyy var zzz ódýrari í Kína”. Ef koma á með fullyrðingar um verð og/eða þjónustu er um að gera að RÖKSTYÐJA.

“xxx leggja 300% á öll verð”. Þessi athugasemd á alveg rétt á sér EF þú ert innkaupastjóri eða endurskoðandi hjá xxx. Annars er þetta bara óábyrgt gas frá þér.

“ÖLL hljóðfæri eru dýrust í ALHEIMINUM á Íslandi”. Nei. Það má finna dýrari hljóðfæri t.d. í Svíþjóð og Noregi. Ég veit eins vel og þig að oft má gera betri kaup erlendis en hér.

“xxx er hörmulegur og ég myndi aldrei versla þar. það segja það allir”. Rökstuðning plís. Í hverju lentir þú sem réttlætir þetta viðhorf. Ef þú ætlar virkilega að láta teyma þig sem lamb má benda á frasann “Eat shit. 2.000.000. flies can't be wrong”.

“Þessi verslun svindlaði á mér. Seldi mér gítar á kr. 20.000 sem var drasl. Nú á ég kr. 100.000 gítar og hann er miklu betri.” Ef þú ætlar að fullyrða að kr. 20.000 gítar sé drasl þá er lágmarkið að bera hann saman við aðra kr. 20.000 gítara. Ef þú ætlar einungis að fullyrða að gítar sem kostar 5 sinnum meira sé betri ertu bara að auglýsa eigin vanþroska.

Ég á varla orð til að lýsa barnaskap þeirra sem hafa fullyrt að gítar sem kostar $200 í USA kosti einungis $200 x gengi og gleyma að reikna sendingarkostnað, virðisauka, tollskýrslugerð og þess háttar inn í verðið. Og bera síðan saman verð á Íslandi og endanlegt verð frá USA og meta hvort verðmunurinn sé meira virði en ábyrgð og þjónusta. (Oft er það alveg þess virði að flytja inn).

Ég hef ekki séð góða spurningu um innflutning á hljóðfærum lengi (þessi um hvernig á að koma með magnara frá Þýskalandi var reyndar ágæt). Það er búið að svara öllu sem mér dettur í hug. Af hverju leitar fólk ekki í eldri svörum frekar en að spyrja um:

“Hvað kostar þetta hljóðfæri ef ég panta frá Music123.com?”

“Er hægt að nota reiknivélina í ShopUSA.is” (Nei- hún var sett þarna sem djók…. duh)

og bara almennt allar spurningar varðandi ShopUSA.is og Music123.com (og reyndar allar aðrar heimasíður sem versla má af).

Ég held samt að ALLRA vitlausustu spurningarnar sem maður sér eru:

“Hvað kostar xxx gítar í Tónabúðinni?”.

Hver hjálpar svona fíflum að slá þetta inn? Hringdu bara í viðeigandi búð. Hvernig eigum við að vita þetta nema með því að gera það?

Það er ekki ætlunin að drepa niður alla umræðu hérna. En getum við ekki lift hana aðeins upp? Endilega póstið spurningar, en byrjið á því að athuga hvort búið sé að svara henni fyrr. Eins setjið inn nauðsynlegar upplýsingar.
Eins ef á að gagnrýna/hrósa eða bera saman þá endilega rökstyðjið.