Básúnur koma fyrst fram um miðja 15. öld, sem nokkurskonar sleðatrompetar. Þau hljóðfæri voru kölluð “trompone” á ítölsku, sacque-boute á frönsku og sackbutt á ensku og líta út nánast eins og nútíma básúnur að öðru leyti en því að bjallan var mun minni. Á þessum tíma þóttu básúnur mjög fjölhæfar því hægt var að ná fleiri tónum á þær en trompeta og horn. Þær voru mikið notaðar í minni hljómsveitum þess tíma sérstaklega í kirkjunum en verða ekki algengar í stærri hljómsveitum fyrr en á 18. öld. Mozart notaði básúnur nær eingöngu í kirkjuverkum og óperum, einna þekktast er básúnusóló í “Requiem”.

Tónskáld rómantíska tímabilsins voru margir hrifnir af básúnunum og töldu þær geta túlkað margskonar tilfinningar, frá hinum veikustu og blíðustu til þeirra hörðustu og sterkustu. Reyndar gerir maður nokkur að nafni Algernon Rose grein fyrir því í bók árið 1895 að “sú árátta básúnuleikara að spila alltaf of sterkt, hafi orðið til þess að hljómsveitarstjóri nokkur lét hanna básúnu með bjöllu sem snéri afturábak!”.



Básúnan á nú sinn fasta sess í sinfóníuhljómsveitum en hefur einnig verið mikið notuð í jasstónlist og eitthvað í popptónlist líka. Einn þekktasti básúnuleikari síðust aldar var jassarinn J.J.Johnson. Christian Lindberg, sænskur básúnuleikari er þekktastur núlifandi básúnuleikara og var hann nýlega kosinn básúnuleikari aldarinnar af alþjóðasamtökum básúnuleikara.

Básúnur eru til nokkrum stærðum, algengust er tenórbásúnan og næst algengastar eru bassabásúna og altbásúna. Tenórbásúnur geta verið misstórar og mælt er með því að ungir byrjendur leiki á létt hljóðfæri með grönnum pípum, en skipti yfir á stærra hljóðfæri og stærra munnstykki með tímanum.

Tekið af síðunni http://skolahljomsveit.kopavogur.is/basuna.htm