Saga Fender hljóðfæra Hér er smá yfirlit yfir upphaf rafmagnsgítarsins og rafbassans, frá sjónarhóli Fender manna. Njótið.

Eftir seinni heimsstyrjöldina hófu ýmsir hljóðfærasmiðir tilraunir með hið hefðbundna gítarform, sem var þá yfirleitt klassískur spænskur gítar. Margir hljóðfærasmiðir litu í þá átt að smíða gítar sem væri ekki holur að innan og búinn raftækni, þeir þrír þekkstustu voru Gibson, Rickenbacker og Fender. Leo Fender náði fyrstur markmiðinu, aðallega af því hann var ókunnugur hefðbundinni gítarsmíði, hann hafði engan bakgrunn í smíði kassagítara og átti þess vegna auðveldara en hinir að átta sig á því sem þurfti.

Árið 1950 kom fyrsti rafmagnsgítarinn á markað, hinn víðfrægi Telecaster, og skartaði hann tveimur pickupum, hálsi úr hlyn og því að ef að hálsinn brotnaði eða skaddaðist á einhvern hátt var lítið mál að kippa honum af og skipta um hann, þessi möguleiki hafði að vísu verið til staðar í vissum hljóðfærum áður en var nýjung á gítörum. En sökum ákvörðunar Fenders um að hafa harðan hlyn í hálsinum hefur sjaldan verið þörf á svona áhrifamiklum aðgerðum.

Samanborið við aðra gítara frá svipuðu tímabili er Telecasterinn eins einfaldur og hægt er. Hann er flatur að ofan, af því að Fender átti ekki verkfærin til að gera toppinn boginn eins og Gibson, brúin og pickuparnir eru eins einfaldir og hægt er og meira að segja liturinn á gítarnum réðist af því að notað var húsgagnalakk í stað hefðbundinna aðferða. En gítarinn naut engu að síður gríðarlegra vinsælda, og gerir enn, fyrir lágt verðlag, áreiðanleika og góðan hljóm.

Aðeins ári seinna kom hins vegar önnur nýjung frá Fender sem átti eftir að hafa miklu meiri áhrif. Ef þú varst bassaleikari fyrir árið 1951 þurftiru að eiga kontrabassa sem bæði kostaði óhemju mikið og þurfti líka nokkra þjálfun til að spila á. Eftir að nokkrir vinir hans höfðu beðið um það setti Fender bönd eins og voru á gítörum á bassa sem svipaður í laginu eins og Telecaster gítarinn, og hlaut hann nafnir Precision, eða Nákvæmnis bassi af því að með tilkomu bandanna var auðvelt að spila á bassann. Þetta olli byltingu í tónlistarheiminum. Ungir tónlistarmenn höfðu allt í einu efni á að kaupa sér bassa og læra á hann með lítilli fyrirhöfn og aragrúi hljómsveita spratt upp, eiginlega fyrstu bílskúrsböndin. Seinna var forminu á Precision bassanum breytt og leit hann þá út eins og við þekkjum hann í dag.

Aðrir hefðu sennilega sest í helgan stein þarna, búnir að umbylta tónlistarheiminum tvisvar. En Fender hélt áfram og eftir að hafa heyrt kvartanir um að Telecaster gítarinn félli ekki nógu vel að líkamanum og erfitt væri að ná til efstu hluta hálsins settist hann við teikniborðið. Útkoman var Stratocaster gítarinn, sem kom á markað árið 1954. Þegar fólk hugsar um gítar er það annað hvort Stratocaster eða Les Paul sem það hugsar um, það áhrifarík var hönnunin. Þessi nýji gítar fór vel í hendi, auðvelt var að ná alla leið upp hálsinn, og kannski mikilvægast, hann bauð upp á ótæmandi möguleika í hljóðsköpun. Í dag er ekki einu sinni búið að þrautnýta möguleika Stratocastersins.

Eftir hinar gífurlegu vinsældir Precision bassans og Stratocaster gítarsins þurfti Fender eitthvað nýtt til að halda áhuga fólks gangandi. Nýtt par var hannað, og þar sem allt snérist um djass við lok sjötta áratugarins voru hin nýju hljóðfæri hönnuð með hann í huga.

Eftir að hafa hlustað á athugasemdir bassaleikara hófst smíði Jazzbassans. Þessi nýji bassi hafði tvo pickupa og straumlínulagaðra form en Precision bassinn. Með honum var hægt að ná öllum mögulegum tónum og hann hentaði í alla tegund tónlistar. Á honum voru pickuparnir settir þannig upp að þeir gáfu frá sér mjög lítinn auka hávaða miðað við Precision bassann og hálsinn var þynnri sem gerði mönnum kleift að skjótast upp hálsinn með dágóðum hraða.

Litli bróðir Jazzbassans hét Jazzmaster. Eins og Jazzbassinn hafði endurbætt Precision hönnunina átti hann að koma í stað Stratocastersins. Hann skartaði nýjum pickupum, nýju tremolo kerfi og þeirri nýjung að ef að strengur slitnaði héldust hinir í réttri tónhæð, en hið gagnstæða var vandamál á Stratocaster gítörum. Tónar hins nýja gítars voru hlýir og hann gat auðveldlega skipt á milli þess að hamra á hljómum og þess að ná góðum tónum fyrir sóló. En á meðan að Jazzbassinn náði gríðarlegum vinsældum voru ekki margir sem litu við hinum nýja gítar, kannski sökum þess að Rickenbacker og Gibson voru nú komnir sterkir inn með nýjar hugmyndir.

Ég vona að þið hafið haft gaman af. Það kemur eitthvað sniðugt næst.
Drink mate! Get the noise!