Ég ætla að gefa ykkur nokkur ráð sem ég hef lært í gegnum árin og ástæðan er sú að þetta eru allt ráð sem ég fór ekki eftir á einhverjum tímapunkti og ég sé eftir því að hafa ekki gert það, ég vona að eitthvað af eftirfarandi nýtist ykkur og endilega bætið við þetta góðum ráðum sem mér hefur yfirsést.

1. Aldrei selja neinum hljóðfæri án þess að viðkomandi staðgreiði það.
Ég hef selt gítara og allskonar hljóðfæradót af því að ég var blankur og í sumum tilfellum hefur fólk borgað hluta af ásettu verði með loforði um að borga restina eftir helgi, það hefur nánast aldrei staðist.
Það á ekki að vera nokkuð mál fyrir neinn að fá amk tímabundið hækkaða yfirdráttarheimild á debetkort hjá þeim banka sem hann eða hún er í viðskiptum við þannig að það er engin ástæða að geyma að borga einhvern 20.000 kall fyrir gítar sem maður kaupir í einhverja daga, ef einhver býðst til að borga inná hljóðfæri þá skaltu bara segja “ókei, en þú færð ekki gítarinn í hendurnar fyrr en ég fæ restina af peningunum.”

2. Ígrundaðu vandlega hvað þú ert að selja því þú færð það örugglega aldrei aftur.
Ég hef selt 1965 módel af Rickenbackergítar sem var eins og nýr fyrir algjöra smápeninga, eins seldi ég Gibson Explorer sem ég átti fyrir klink. Sko.. Skítt með hvað ég fékk fyrir þá, ég bara dauðsé eftir að hafa selt þá og það á eftir að bögga mig alla tíð, áttaðu þig á því að jafnvel þótt þú eigir í dag einhvern algeðveikann hálfrarmilljónkrónu Gibson Les Paul Custom þá er gamli Squier stratocasterinn þinn gítarinn sem þú lærðir á og þú notaðir hann í mörg ár þrátt fyrir að bara hálspickuppinn hljómaði vel og ef þú selur hann þá á þér sennilega eftir að líða eins og þú hafir gefið frá þér barn í ættleiðingu.

3. Aldrei skilja gítarinn þinn eða effektana þína eftir þar sem þú varst að spila á tónleikum.
Ég hef látið stela frá mér 3 shure sm57 hljóðnemum, 2 Boss Compressorum, 1 Alesis AirFX og alveg endalaust af snúrum. Vinir mínir hafa látið stela frá sér meðal annars 2 Marshallstæðum, 1 custom shop Fender Telecaster, myndvarpa fyrir 300.000 og guðmávita hverju öðru.
Það er regla að ef þú skilur eftir smáhluti sem passa í vasa eða undir jakka þá munu þeir hverfa.

4. Ef þið deilið æfingarplássi með öðrum hljómsveitum merkið þá snúrurnar ykkar.
Kaupið ykkur rúllu af teipi í einhverjum lit, rauðu, grænu eða hvaðeina og setjið teip utan um annann endann á snúrunni við plögginn, þannig vitið þið að þið eigið þessar snúrur, það er aldrei til nógu mikið af snúrum og það munu einhverjir fá lánaðar snúrurnar ykkar og “gleyma” að skila þeim, gangið því þannig frá þeim að þið þekkið þær aftur.

5. Umgangist fíkniefnaneytendur og fíkniefnasala eins lítið og þið mögulega getið.
Dópistar eru ekki vinir ykkar, þeir voru það kannski einhverntímann en sá tími er liðinn. Tveir “vinir” mínir brutust inn hjá mér og stálu dóti frá mér, það er frekar dýrt að vera tildæmis amfetamínneytandi og það er auðveldlega hægt að skipta stolnum gítar fyrir nokkur grömm af amfetamíni og þegar fólk er orðið að alvöru neytendum þá telur það ekkert eftir sér að ræna vini sína, þetta eru því miður einföld sannindi.

6. Tékkið á því hvað það kosti að tryggja hljóðfærin ykkar og spyrjið þá tryggingafélagið út í hvað líði langur tími þangað til það greiði fyrir eitthvað sem hverfur frá ykkur og hver sjálfsábyrgðin sé.

7. Ef þið deilið æfingarplássi með fleiri böndum setjið þá umgengnisreglur og tímatöflur yfir hvenær hvert band sé með æfingar og farið eftir þeim.
Það er ekkert meira pirrandi en að mæta á æfingu á fyrirfram umsömdum tíma og að þeir sem deili með ykkur plássi séu þá á staðnum að æfa og séu jafnvel á fylleríi, frávik frá settum umgengnisreglum á að jafngilda brottrekstri því ef hitt bandið gerir svona einu sinni og kemst upp með það þá munu þeir gera það aftur, og það á alltaf að vera á kristalstæru að hljómsveit sem deilir húsnæði með annari hljómsveit megi ekki lána öðrum hljómsveitum húsnæðið sitt nema þá að það sé með fullri vitund og samþykki hinnar hljómsveitarinnar.

Ókei, segjum þetta gott í bili, og endilega bætið við þessa upptalningu því sem ég er að gleyma.
Gítarar = Gibson Les Paul Standard, Fender Jazzmaster. Aria Einhverfjandinn.