Nokkur atriði sem gera trommuleik þægilegri Jæja mig langar að skrifa aðeins um hvaða hluti þú getur tileinkað þér til að líða betur þegar þú trommar.

Mér finnst langskemmtilegast að vinna með bandinu mínu á æfingum þegar ég get einbeitt mér að því að semja nýja takta og breik, án þess að vera alltaf að pæla í því hvar í fjandanum china crashinn sé nú þarna fyrir aftan mig, eða hvernig ég eigi að fara að því að ná hraðanum / tækninni sem ég þarf í taktinn sem ég hef í huga.

Það er hægt að minnka álagið á þennan part trommuleiks með því að gefa sér góðan tíma í að stilla upp settinu fyrirfram og prufa sig áfram varðandi uppsetningar ofl.

Hér eru t.d. nokkur atriði sem ég hef pælt mikið í, og vandað mig við, sem gera mér kleyft að gleyma mér við settið í marga klukkutíma án þess að þurfa nokkurtímann að pæla í neinu öðru en “tónlistinni”.

1. Veldu fótabúnað sem hentar þér.

Margir velja að spila berfættir eða í sokkum (það gerði ég allavega þegar ég var að byrja). Það er svosem fínt, en passið ykkur þá á því að pedalarnir meiði ykkur ekki ef þið spilið lengi.

Aðrir spila þó í skóm, og þá getur verið mjög mismunandi hvað fólk vill. Ég vil t.d. vera í skóm sem eru með mjög þunnum botni, rétt þannig að þeir gefi mér grip og verndi húðina á mér gegn málminum, en annars vil ég ekki finna fyrir þeim. Aðrir vilja vera í hermannaklossum (mæli þó ekki með því ef þið ætlið að spila lengi).

Ekki henda gömlu skónum ykkar þegar þið kaupið nýja, athugið hvort þeir henta vel á settið, þrífið þá og notið svo við trommuleik. Ég mæli alfarið á móti því að nota þá í útiveru samfara a því að nota þá á trommurnar, því að litlu sandkornin undir þeim rispa pedalana mjög hratt.

(Trikk fyrir þá sem vilja byggja upp hraða; ef þið hafið aðgang að skóm með stáltá eða stálbotni, prufið þá að æfa bassatrommutæknina ykkar með þeim, og eftir svona mánuð skipta aftur í mjög létta skó. Hraði og úthald eykst töluvert.)

2.Æfið ykkur að spila með lokuð augun / ljósin slökkt.


Ef þið eruð búin að stilla settinu upp þannig að það sé þægilegt að spila á það, prufið þá að æfa ykkur að spila með lokuð augun. Nei ekki bara búmm búmm tsja, heldur notið allt settið.

Ég áyrgist að ef að þið gerið þetta samviskusamlega nokkrum sinnum, þá þurfiði aldrei aftur að horfa á hvað þið eruð að gera (nema til að bæta tæknina auðvitað).

Það er rosalega þægilegt að geta bara horft á hina hljóðfæraleikarana í bandinu og gefið hvor öðrum merki (nú eða bara blikka sætu stelpurnar sem standa fremst þegar þið spilið opinberlega).

3. Grifflur/hanskar?

Sumir kannast við það vandamál að fá blöðrur á puttana eftir ákveðinn tíma. Yfirleitt er það vegna þess að vitlaust grip er haft á kjuðunum, en sumir eru einfaldlega með viðkvæmari húð en aðrir (hún venst þessu þó fljótt).

Ef þið eigið kærustu og viljið ekki strjúka henni um vangann með höndum sem eru álíka viðkomu og malarvegur, finnið ykkur þá þægilega hanska eða grifflur (hjólahanskar eru góður valkostur) sem vernda húðina ykkar og gefa aukið grip. Þeir verða þó að anda vel svo maður svitni ekki á höndunum.

4. Endilega lesið hina greinina mína hér á /hljodfaeri sem heitir “Hvernig ég byggði upp hraða á settið”. Þar eru ýmis atriði varðandi öndun og annað slíkt sem hjálpa manni að slaka á við settið.

Svo megið þið auðvitað líka bergja af viskubrunnum ykkar varðandi þessi mál! Öll ný ráð og leiðréttingar eru vel þegnar.
Vó hvar er ég?