Keppni 3 - Blásturshljóðfæri Ég er blásturshljóðfæraleikari svo ætli það sé ekki best að vera öðruvísi og skrifa eitthvað skemmtilegt um blásturshljóðfæri. Ég tel mig reyndar ekki góðan penna en ég læt samt vaða. Í þessari grein ætla ég að fjalla aðeins um flokkun blásturshljóðfæra en svo ætla ég aðeins að skrifa nánar um nokkur vel valin hljóðfæri.


Blásturshljóðfæri eru, eins og orðið ber með sér, hljóðfæri sem blásið er í. Skilgreiningin er að þau hljóðfæri sem mynda hljóð með því að loft streymir í gegnum þau, flokkast sem blásturshljóðfæri. Til eru allskonar hljóðfæri í þessum flokki sem flokkast í tvo undirflokka; tréblásturshljóðfæri og málmblásturshljóðfæri, sem eru einnig kölluð brass.


Þau hljóðfæri sem flokkast undir málmblásturshljóðfæri eru miklu líkari hvort öðru en tréblásturshljóðfæri. Hljóðið myndast vegna titrings í vörunum á hljóðfæraleikaranum, þegar hann blæs í munnstykkið. Þau hljóðfæri sem eru almennt talin upp í þessum flokki eru trompet, kornett, alt horn, bariton horn, franskt horn, flugelhorn, básúna, túba og sousafónn. Það er mjög vinsælt að nota brass sveitir í allskonar tónlist enda þykir það flottur hljómur. Saxófónn er oftast notaður í þessar hljómsveitir þótt hann teljist til tréblásturshljóðfæra.


Tréblásturshljóðfæri eru ekki eins og nafnið gefur að kynna, öll úr tré. Þau voru hinsvegar úr tré í upphafi, en hafa þróast og eru mörg úr málmi eða plasti þótt sum séu ennþá gerð úr tré og þá sérstaklega vönduð hljóðfæri. Tréblásturshljóðfæri er fjölbreyttasti flokkurinn af hljóðfærum. Þau eru flokkuð í undir-undir flokka, ég finn hvergi hvað þeir heita nákvæmlega á íslensku en á ensku eru það:

Single-reed instruments - Einkennast af því að þau hafa einfalt bambusblað sem myndar hljóð þegar það titrar. Nokkrar gerðir af saxófónum og klarinettum tilheyra þessum flokki.
Double-reed instruments - Einkennast af því að hafa tvöföld blöð úr bambusi. Óbó, enskt horn og fagott eru þau hljóðfæri sem eru oftast nefnd í sambandi við þennan flokk, en í honum eru einnig sekkjapípa og hljóðfæri sem kallast á ensku crumhorn.
Flautur - Hljóðið myndast við að lofti er blásið á brún á munnstykkinu sem myndar titring. Til eru bæði opnar og lokaðar flautur og þær sem heyrist oftast talað um eru þverflauta, piccoloflauta, blokkflauta, panflautur og allskonar blístrur.


Í saxófónafjölskyldunni er venjulega talað um sópran, alt, tenór og baritón en stundum er líka talað um bassa. Þótt þetta séu hljóðfærin sem eru venjulega talin upp hefur maður heyrt um risavaxna kontrabassa og pínulitla sopranino saxófóna, þótt þeir séu ekki algengir. Venjulega byrja krakkar á að læra á alt saxófón en sumir færa sig yfir á tenór eða baritón þegar þeir eldast. Saxófónar eru oftast notaðir sem sólóhljóðfæri en dýpri gerðirnar eru í bassa í lúðrasveitum. Saxófónn virðist ekki eiga heima í þessum flokki því þrátt fyrir að vera tréblásturshljóðfæri er hann oft talinn sem brass. Ástæðuna fyrir þessu má rekja til þess þegar hann var fundinn upp. Adolphe Sax, belgískur hljóðfærasmiður, smíðaði fyrstu saxófónana í kringum 1840 en sagan segir að hann hafi viljað sameina krafta trompetsins og fallega tón klarinettsins. Tónninn myndast á sama hátt og í klarinetti, það verður titringur í blaðinu, svo hann er talinn tréblásturshljóðfæri. Hérna er mynd af ýmsum stærðum og gerðum, allt frá kontrabassa til sopranino.


Enskt horn hefur lengi verið eitt af draumahljóðfærunum mínum. Í rauninni er það eins og lækkuð útgáfa af óbói en hljómurinn er dapurlegur og fallegur. Nafnið er villandi, því þetta er ekki ein tegund af horni. Nafnið hefur í rauninni ekki verið þýtt rétt því hljóðfærið er einnig nefnt Cor Anglais. Cor þýðir horn og anglais er mjög líkt latneska orðinu angulus sem þýðir krókur eða öngull, nafnið getur því alveg eins þýtt bogahorn eða eitthvað álíka. Þótt ég hafi ekki fundið miklar heimildir um hljóðfærið crumhorn sem ég nefndi fyrr í greininni, þykir mér það mjög merkilegt að nafnið hefur svipaða merkingu og getur því vel verið að það hafi verið forfaðir enska hornsins, en eins og ég sagði hef ég engar heimildir fyrir því og eru þetta bara ágiskanir. Hljóðfærið er langt og mjótt en bjallan breikkar og mjókkar aftur eins og kúla, sem er ólíkt öðrum hljóðfærum. Hérna er mynd af ensku horni


Flugelhorn er mjög vinsælt að nota í jazzi eins og trompet. Það virðist vera mjög líkt trompeti eða kornetti, eins og sést hér , en er aðeins öðruvísi í laginu og tónninn er líka örlítið frábrugðinn. Fingrasetningin er eins og á öðrum brasshljóðfærum og þess vegna er ekki erfitt fyrir kornett og trompetleikara að spila á Flugelhorn. Tónninn er mýkri og dekkri en trompet en það er mun erfiðara að stjórna hærri tónunum. Adolphe Sax þróaði þetta hljóðfæri einnig á sama tíma og saxófóninn. Flugelhorn er alltaf kallað þessu þýska nafni en það gæti þýtt wing horn á ensku og er talið að það sé vegna þess að hljóðfærið hafi verið notað í stríðum til að stefna flokkum (wings) hersins saman til orrustu.


Sousafónar eru stór brasshljóðfæri sem eru oftast notuð í lúðrasveitum. John Philip Sousa, , var óánægður með túbuna á þessum tíma og lét gera þetta hljóðfæri, sem hentaði betur í hljómsveitum. Bjallan snýr upp og fram en á upphaflegu sousafónunum sneri hún beint upp í loftið og eru þau hljóðfæri oft kölluð “raincatchers”. Lögun hljóðfærisins gerir það að verkum að tóninn nær betur að “flæða” yfir hljómsveitina. Sousafónn er jafn langur og túba og tóninn er jafn góður, en mun auðveldara er að bera hann eins og sést á þessari mynd


Til eru ótalmargar tegundir af flautum. Ásamt slagverki voru þetta fyrstu hljóðfærin og fólk hefur verið að blása í einhver tré, bambus eða bein í 50.000 ár. Allsstaðar í heiminum eru til gamlar flautur sem frumbyggjar landanna spiluðu á og má þá nefna tinflautu, sem er notuð í keltneskri tónlist, og panflautur. Flautur geta verið mjög einfaldar en líka flóknar. Nútíma þverflautan er úr nickel, silfurhúðuðu brassi eða gegnheilu silfri og hefur flókið kerfi af tökkum. Blokkflautur hafa aðeins göt en panflautur eru bara röð af rörum sem blásið er í. Munnharpa og pípuorgel eru talin með þessum flokki, og sýnir það greinilega hvað hljóðfærin eru fjölbreytt. Flautur eru einnig oft gerðar úr plasti og henta vel sem leikföng, enda finnst krökkum gaman að æra foreldra sína með hávaða. Hér sjást ýmisskonar þjóðlegar flautur.

Mörgum finnst blokkflautur bara vera barnahljóðfæri eða leikföng, en þetta eru alvöru hljóðfæri. Þær eru flestar úr plasti og tónninn er leiðinlegur. Ég spilaði á tenor blokkflautu í vetur og kennarinn minn á bassa. Þá komst ég að því hvað þetta eru falleg og vanmetin hljóðfæri. Tónninn er fallegur og hreinn en plastflautur jafnast ekki á við alvöru flautur úr tré. Þverflautur eru líka til úr tré og jafnvel úr gleri, en þær eru oftast úr málmi og þykja bestar úr silfri. Á tímum tréþverflautunnar voru þetta ekki talin merkileg hljóðfæri enda mjög lágværar og höfðu ekki eins fallegan tón og nútímaflautur. Mörgum tónskáldum þótti þær ekki þess virði að semja fyrir þær og eina þverflautukonsert Mozarts samdi hann vegna þess að honum var sérstaklega vel borgað fyrir hann, en venjulega vildi hann ekki semja fyrir þessi lélegu hljóðfæri. Algengastar á Íslandi eru venjuleg þverflauta og piccoloflauta sem er áttund ofar, en óalgengari tegundir eru t.d. altflauta, bassaflauta og “Flûte d'amour”. Þessi hlýtur að hafa kostað sitt því hún er úr kristal.


Takk fyrir mig. Ægishjálmur.