Mikilvægi taktmæla Fólk fer örugglega að segja “Ertu ekki búinn að benda á þetta nógu oft? Ég held að fólk fari að átta sig á þessu!”. En samt sem áður held ég að ég bendi nú samt á þetta enn einusinni vegna þess að þetta er svo svakalega mikilvægt við hljóðfæraleik.

Hvort sem þú sért að spila hægt, hratt, eitthvað í meðalveginum þá skiptir það alltaf máli að spila nóturnar með jöfnu eða viðeigandi millibili og í takt með nákvæmni. Það sem taktmælirinn gerir er að þjálfa þennan hæfileika að s.s. spila nákvæmt og í takt. Það er sama þótt þú spilir blús, klassík, rokk, jazz eða hvað annað sem gæti verið að þú spilir, þá þarftu að geta spilað í takt við hina hljómsveitarmeðlimina og spila nákvæmt og öruggt. Sama gildir um hvaða hljóðfæri sem þú spilar á, strengjahljóðfæri, blásturshljóðfæri, áslátturshljóðfæri, allt þarf að vera nákvæmt.
Auðvitað er líka hægt að segja að tónlist þarf ekki að vera í takt, stundum á tónlist að vera óregluleg eða frjáls eins og svo oft í klassískum verkum. En ég er einmitt bara að einblína á þessa nákvæmni og að spila jafnt og hvernig skal nota taktmælinn til að þjálfa þetta.

Í fyrsta lagi:
Auðvitað er fyrsta skrefið að útvega sér taktmæli sem þú ættir að geta fengið í næstu góðu hljóðfæraverslun. Nú gætu vaknað spurningar eins og “afhverju að eyða peningi í taktmæli þegar ég get bara slegið taktinn með fætinum” jú, þú gætir nú allveg notað fótinn en ég mæli ekki með því. Taktmælirinn slær alltaf jafnt í því tempo-i sem valið er en ef þú notar bara fótinn þá á tempo-ið aldrei eftir að vera alltaf nákvæmlega það sama og nákvæmlega jafnt.
Til eru margar gerðir af taktmælum. Sumir telja alltaf með sama hljóðinu, sumir geta laggt áherslu á eitthvað ákveðið slag eða jafnvel spilað í mismunandi töktum eins og t.d. 2/4 og 3/4, 4/4, 5/4 svo eitthvað sé nefnt. Og það eru fleirri til en ég á einmitt taktmæli sem notar alltaf sama hljóðið s.s. hann leggur engar áherslur á ákveðin slög. Hann var einmitt keyptur í Tónastöðinni í SKipholtinu og þeir eru með ágætt úrval þarna. Og þess má geta að myndin með greininni er einmitt af alveg eins tæki og ég nota.


…“Alltílagi, ég er kominn með taktmælinn við hendina, hvað nú?”
Jú, það sem kemur næst er auðvitað að nota hann. Taktmælirinn er mjög öflugt tæki sem getur hjálpað manni gríðarlega í hljóðfæraleik manns.

Hérna kemur smá fróðleikur sem þú þarft að kunna og er gott að vita í sambandi við taktmæla.
Fjórðupartsnóta: Ein nóta á hvert slag.
Áttundupartsnóta: Tvær nótur á hvert slag.
Tríólur: Þrjár nótur á hvert slag.
Sextándupartsnótur: fjórar nótur á hvert slag.
Þrjátíuogtveggjapartsnótur: Átta nótur á hvert slag.

Prófaðu að spila einhvern skala fyrst í fjórðupartsnótum með kannski svona 60 eða 66 í tempo, eitthvað um það reiki. Eftir að þú getur spilað skalann í fjórðupartsnótum gallalaust þá færirðu þig yfir í Áttundupartsnótur. Og þegar þér líður vel að spila það þá færirðu þig í Tríólurnar og svo fót af fóti. En athugaðu það að tempoið er alltaf það sama en hugsjónin hvernig þú lýtur á þetta klikk breytist bara. Þannig að þú ert farin/n að spila mikið hraðar en fyrst en þó samt í sama tempo-i og í byrjun.
Mér finnst gott að stoppa í Sextándupartsnótunum og fara þá fyrst að hækka tempo-ið. Það er gott að miða við að hækka tempo-ið alltaf um 8 slög á mín. En þú hækkar tempoið ekki fyrr en þér líður vel í þeim hraða sem þú ert nú þegar í og getur spilað gallalaust í einmitt þeim hraða.

Áherslur:
Það sem hljóðfæraleikarar gera til að staðsetja sig og fylgjast með því sem þeir eru að spila þá gefa þeir ákveðnum nótum áherslur, s.s. láta þá nótu spilast aðeins hærra. Og einmitt fyrir þig ef þú ætlar þér að æfa þig að geta spilað hratt þá þarftu að geta staðsett þig svo að þú sért ekki bara í öðrum töfraheimi þar sem nóturnar fljúga framhjá og þú veist ekkert hvað sé að gerast.
Þú leggur áherslu á hvert slag sem taktmælirinn spilar, s.s. spilar fastar eða aðeins hærra en hinar nóturnar. Prófaðu þetta, þetta er ekki aðeins gott til að geta staðsett sig í hraða en þetta er gott í ýmislegt annað.

Ótrúlegt en satt!
Leyndardómur þess að spila hratt með mikilli nákvæmni er hæfileikinn til að geta spilað hægt. Það er jafnvel stundað í mörgum mjög virtum tónlistarskólum og háskólum að láta nemendur spila í svokölluðu super-slow tempoi. Þetta er nú bara einfaldlega það að spila eitthvað lag allveg ofur hægt og með mikilli nákvæmni. Þetta er margfalt erfiðara en að spila hratt því nákvæmnin þarf að vera svo mikið meiri, og það er einmitt ástæðan fyrir því að þetta er notað í kennslu. Það hjálpar manni allveg rosalega að geta spila hægt og hvað þá ofur hægt með mikilli nákvæmni.
Auðvitað er meira sem spilar inní það að geta spilað hratt, eins og snerpan, úthald, styrkur og auðvitað klukkustunda ofaná klukkustunda ofaná klukkustunda æfingu.

Byrja rólega og byggja svo síðar upp:
Margir geta eflaust spilað hratt og flott en ef þeir spila eitthvað hratt og maður spyr “hvernig spilaðu þetta hægt?” þá verða þeir undrandi og segja “hægt? hvernig ætti ég að geta spilað þetta hægt?” þannig að þeir vita ekki hvað þeir eru að spila.
Ef þú æfir þig við taktmæli og byrjar hægt en svo smám saman byggir upp meiri og meiri hraða og leggur áherslur og allt þetta þá ættirðu að hafa góða hugmynd um hvað þú ert að spila. Í raun áttu að vita það allveg uppá hár og þú ættir að geta spilað það aftur miklu hægar.

Þarna hafið þið það, smá innsýn inn í heim taktmæla. Kannski er það bara ég en t.d. þegar ég fer oft að æfa mig með taktmæli og fer að spila einhverja stutta runu og auka alltaf hraðann þá finnst mér það helvíti skemmtilegt þótt ég sitji þarna klukkustundunum saman með sama klikkið í eyrunum. Það er bara svo gaman að æfa sig og finna að maður er að græða eitthvað á þessu.
Ég vona að þetta hafi gagnast einhverjum og að þetta sé nothæfanlegt. Og eitt enn að lokum, ég mæli sterklega með að þú kaupir þér taktmæli sem fyrst.

Lykillinn að árangri er æfing!
…djók