Tónheyrn Það sem mér finnst eitt það mikilvægasta við að spila tónlist er að hafa góða tónheyrn. Ég er ekki með neitt sérstaklega góða tónheyrn en það er eitt sem ég á bara eftir að æfa upp.

Afhverju þarf maður góða tónheyrn?
Það er auðvelt að svara því, þó svo að þú þurfir það ekkert endilega, það er bara miklu betra. Með góðri tónheyrn er hægt að heyra hljóma og vita hvort þeir eru sjöundarhljómar, moll eða dúr, add9, add11 og allt þetta. Og því er mikið auðveldara að pikka upp lög með því að hlusta á þau, margir sem hafa mjög gott tóneyra láta sér nægja að hlusta á lagið einu sinni til að geta spilað það gallalaust aftur. Það er hægt að segja að á milli heilans og handa þinna eru margir veggir sem eru búnir til úr múr. Þegar þú æfir tónheyrnina þá ertu alltaf að brjóta niður fleirri og fleirri veggi og því verður leiðin þar á milli alltaf greiðari en fyrr. Og að lokum þegar þú ert búinn að brjóta niður flesta ef ekki alla veggina þá ættirðu að geta hugsað um melodíu eða eitthvað og spilað hana um leið eins og ekkert sé.
Allir þeir sem ætla sér eitthvað langt í tónlistinni ættu að hafa gott tóneyra og þjálfa það upp.

Hvernig þjálfar maður tóneyrað?
Þó svo að ég sé ekki núþegar kominn með gott tóneyra þá veit ég nokkur atriði um það hvernig hægt er að æfa það upp. Þetta eru aðferðir sem ég þarf að fara að nota meira og þið ættuð einnig að nota.

1) Fyrst af öllu vil ég benda á TAB. Margir nota TAB til að læra lög eða einhver önnur forrit eins og Guitar Pro eða Power Tab en ég bendi ykkur á það að minnka við það eins mikið og þið getið. Til að æfa tónheyrn þá er mjög gott að hlusta á lögin sem þið viljið læra og reyna að pikka þau upp sjálf/ur. Það er alltaf hægt að segja „þetta er of erfitt, ég get þetta ekki. Kannski ég skoði þetta bara frekar á TAB-i“ en þetta er bara neikvæð hugsun og það ætti ekki að hugsa svona. Hugsið frekar jákvætt eins og „ég get þetta allveg“ eða eitthvað álíka. Það ætlast heldur enginn af ykkur að pikka lögin allveg 100% rétt upp fyrst, en það er ótrúlega gott fyrir þig að halda því áfram, það er meira að segja betra en þú heldur.
Þannig að ég segi bara: Taktu þér tíma í að hlusta á lögin sem þú ert að læra og taktu þér tíma í að reyna að pikka þau upp sjálf/ur, ekki vera óþolinmóð/ur.

2) Það er gott að fá sér lítið upptökutæki til að taka upp á kasettur eða það er jafnvel hægt að nota tölvuna eða hvað sem þú ert með. Prófaðu að taka upp dúr og moll hljóma. Byrjaðu að taka upp og spilaðu einhvern hljóm, allveg sama hvar á hálsinum eða hvað hljómurinn heitir, láttu hljóminn hljóma í nokkrar sekúndur og bíddu smá og spilaðu svo annan hljóm sem er einnig annað hvort moll eða dúr og gerðu það sama og áður, taktu upp heilan klukkutíma bara af þessu. Ástæðan fyrir því að þú átt að taka þetta upp og bíða svona er útaf því að seinna áttu að hlusta á þetta og notfæra þér biðina á milli til að segja hvort þú heldur að hljómurinn sé dúr eða moll. Og seinna geturðu gert þetta aftur en gert það erfiðara með því að bæta inn sjöundar hljómum og svoleiðis.

3) Það er gott að hafa píanó eða bara hljómborð við hendina og reyna að hlusta á tónbil og segja til hvernig tónbil þetta er. En það virkar ekkert nema einhver annar spili fyrir þig á meðan þú hlustar bara án þess að horfa. Svo er auðvitað hægt að taka það bara líka upp og hlusta á það eins og ég var að tala um áðan. Þá hlustarðu á einhverjar tvær nótur í einu í t.d. bara C skalanum (allar hvítu nóturnar) og segir svo til hvort um sé að ræða tvíund, þríund, ferund, fimmund o.s.fv. Svo er hægt að gera það erfiðara með því að hækka eða lækka nótur og hafa öðruvísi tónbil (nota svörtu nóturnar líka). Samt spilarðu þá alltaf rótina (s.s. í C skalanum væri það væntanlega C nótan) auk þess að spila eina aðra nótu og þú sem sagt segir til um tónbilið á milli þeirra.

Ég man ekki allveg eftir mikið fleirri leiðum í augnablikinu en ég veit að það eru fleirri til og ég veit að ég á að kunna fleirri aðferðir. Þetta verður bara að duga um sinn og auðvitað geta aðrir komið með fleirri aðferðir, því fleirri því betra.
Ég vona að þetta hafi hjálpað einhverjum þó svo að auðvitað einhverjir og ef til vill margir hafi vitað þetta núþegar.
…djók