Af og til sér maður unga tónlistarmenn hér á vefnum vera að kvarta yfir álagningu á hljóðfærum út úr búð hér á landi. Mig langar því aðeins að deila visku minni með ykkur og reyna að útskýra nokkra þætti (aðallega einn) sem valda þessum mikla verðmun.

Að bera saman litlu hljóðfærabúðirnar hérna og stórar keðjur úti einsog music123.com er ósanngjarnt, það er eins og að bera saman Bónus og kaupmanninn á horninu. Stóri aðilinn pantar inn margfalt, margfalt meira og fær þvílíkan magnafslátt, auk þess sem salan er svo miklu meiri að hann getur lagt mun minna á vöruna og samt skilað meiri hagnaði.

Aumingja litli smákaupmaðurinn pantar bara einn og einn gítar í tegund, í mesta lagi tvo til þrjá í þeim allra vinsælustu, og er kannski ekkert að selja í meðal mánuði nema smávöru og gítara sem hægt væri að telja á fingrum beggja handa, á meðan stóra keðjan selur álíka marga gítara á hverjum klukkutíma!

Music123 er, gæti ég vel trúað, að bjóða lægra verð á þeim hljóðfærum sem eru með hvað mestum afslætti heldur en t.d Rín eða Hljóðfærahúsið þurfa að borga fyrir þau frá heildsala, vegna þess hve mikinn magnafslátt þeir fyrrnefndu fá. Þetta sjáum við líka í matvöruverslun hér á landi, þegar hornkaupmennirnir flykkjast í Bónus til að kaupa inn fyrir búðirnar sínar því hlutir eins og Coke og fleira eru undir afsláttarlausu heildsöluverði þar.

Við skulum bara vona að netverslunin eigi ekki eftir að ganga af íslenskum hljóðfæraverslunum dauðum líkt og lágvöruverðsverslanir með matvöru gerðu við hornkaupmennina fyrir svona 10-15 árum síðan. Maður vill geta aðeins fiktað í nýja Washburninum í Tónabúðinni um leið og maður fer þangað til að ná sér í nýja snúru, jafnvel þó svo maður sé ekkert í leit að nýju hljóðfæri, ekki bara labba inn í Elko (líklegast myndu raftækjaverslanir, frekar en Hagkaup og svoleiðis búðir, taka yfir smávörusölunni færu hljóðfæraverslanir á hausinn), kaupa snúruna og labba út. Svo myndi líka vanta möguleikann á “windowshoppi” í Rín þegar maður er á rúntinum :)