Heitasta  jólagjöfin 198X!!!! Sá merki áfangi varð í lífi mínu síðastliðið vor að ég lærði mitt fyrsta gítargrip, það var Em og ég var 21 árs gamall. Fljótt bætturst fleiri grip í hópinn og fyrr en varði var kominn kassagítar í eigur mínar, föður mínum til mikillar skelfingar. Fljótlega fór ég að fletta söngbókum af miklum móð og gafra á netinu auk þess sem ég kíkti í hljóðfærabúðirnar í leit að kennsluefni. Þá uppgötvaði ég það að það er sennilega mikill markaður fyrir svona efni.
Mánuðirnir liðu svo einn af öðrum og nú nýlega fékk ég þá feikilega góðu hugmynd að leita á kazaa að kennslumyndböndum í stað þess að borga fyrir þau dýrum dómum og viti menn!! Haldiði að ég hafi ekki bara fundið heitustu jólagjöfina 198X!!! Myndbönd með Yngwie Malmsteen í tugatali ásamt köppum eins og Paul Gilbert og George Lynch. Ekki nóg með að þessir kappar séu sjúklega góðir á gítar er þetta alveg viðurstyggilega fyndið.
Í þeir eru undantekningarlaust með sítt hár og annað hvort hálfberir að ofan, í hlýrabolum eða í sjúkum 80 jökkum, með suddalega gítara með metal ýlfursándi frá neðra. En þetta verður nú fyrst fyndið þegar þessir gaurar sem líta í flestum tilvikum ekki út fyrir að geta sagt fullmótaða setningu fara að bauna út úr sér löngum tónfræðilegum útskýringum sem hvaða smókingklædda flygilfífl gæti verið stolt af. Annað atriði sem er mjög fyndið er þegar Yngwie er í miðju sólói, þvílikt einbeittur þá allt í einu bendir hann út í loftið og þá fer af stað þessi líka svakalegi trommuheili og saman rokka þeir út í eitt, í eins og hálfa mínótu eða svo.
Myndatakan er svo alveg kapítuli út af fyrir sig, en menn hafa greinilega verið nýbúnir að finna upp bluescreenið því Paul Gilbert svífur oftar en ekki um stræti og torg á kolli sínum, plokkandi riff á rauða gítarinn sinn. Mjög reglulega skjótast svo inn á skjáinn myndbrot sem eiga það eitt sameiginlegt að vera alveg út úr kú, spanjólar, klappstýrur og svo frv….
Þessi myndönd eru svo sannarlega börn síns tíma og gjalda þess óspart, ef þeir væru ekki svona klæddir myndi boðskapur þessara snillinga án efa skila sér betur til einstaklinga dagsins í dag, sem eru vanir því að enginn skeri sig úr og að allir séu steyptir í sama mót.
En ég mæli eindregið með því að fólk reyni að hafa upp á þessum gömlu metalkennslumyndböndum, bæði hafa þau ótvírætt skemmtanagildi og eins er alveg magnað að fylgjast með því hvað þetta eru færir hljóðfæraleikarar, hraðinn er alveg ógurlegur.
Ég votta því þessum gítarhetjum virðingu mína og vona að fleiri en ég hafi gaman af þessum myndbrotum.
Og að lokum legg ég til að Karþagó verði lögð í eyði.