Mig langaði aðeins að velta einu fyrir mér með ykkur. Það er afhverju sé ekki notað meira af sígildum hljóðfærum eins og fiðlum, sellóum, víólum og þess háttar strengjum sem og trompet, bariton, básúnu, þverflautu og þess háttar blásturshljóðfærum í íslensku poppi.

Ég er t.d. mjög ánægður með nýja lagið frá Írafár sem heitir “Allt sem ég sé”, þar notast þau við amk tvær fiðlur og svo kemmur sæmilega þungt rokk stef inní lagið líka. Hljómsveit sem ég persónulega átti ekki von á að kæmi með svona vandað lag - en þeir komu virkilega á óvart!

Ég man þegar Botnleðja gaf út lag með frægum trompet kafla (man ekki hvað lagið heitir). Það var mjög öflugt og skemmtilegt lag, en það var að mig minnir eina lagið sem þeir gerðu með svona blástri.

Mér finnst persónulega alltaf hljóðfæri í þessum dúr gefa virkilega skemmtilega og góða fyllingu um leið og þau geta brotið lögin upp og komið með öðruvísi millikafla…

Hins vegar finnst mér ömurlegt þegar hljómsveitir gefa út lög með rosa sinfóníu í bakgrunninum - en svo þegar maður hlustar vandlega og hækkar þá heyrir maður að þetta er bara eitthvað hljómborð og hljómurinn er frekar sléttur og dauður. Það er bara ódýrt!

Hins vegar veit maður svo sem alveg að það er erfitt að koma svona lögum vel frá sér á tónleikum og böllum, og það er sennilega ástæðan fyrir því að Botnleðja lagði ekki áherslu á lög með trompet köflum. En þá er hægt að notast við tæknina og nýta hljómborð til að gefa þessa fyllingu og leika þessar laglínur.

Ég skora á íslenskar hljómsveitir til að notast við þessi hljóðfæri. Því að það er alveg á hreinu að það vantar ekki hæft og fært fólk á klakann til að spila á þessi hljóðfæri því að við erum búin að ala nokkrar kynslóðir í gegnum tónlistarskóla til að leika á þau.

Endilega látið heyra í ykkur ef þið eruð ósammála mér (eða sammála)! ;)
kv, Andri