Sunnudaginn 21. ágúst verður haldið brunmót í Reykjafelli. Keppnin hefst klukkan 13:00, skráning keppenda og skoðun öryggisbúnaðar lýkur klukkan 12:00. Keppt er í einum flokki 18 ára og eldri. Foreldrar eða forráðamenn verða að sækja um leyfi skriflega til keppnisstjóra ef þátttakandi er yngri en 18 ára. Keppnisgjald er 1000kr.
Skilyrði fyrir þátttöku í mótinu er að keppandi hafi farið 2 ferðir í brautinni. Brautin verður opin á laugardag 20. ágúst og á keppnisdag frá klukkan 10:00 - 12:00.

Mótið í Reykjafelli í Mosfellsdal er jafnframt síðasta mótið af þremur í Bikarmótaröð GÁP.

Öryggisbúnaður. Keppendur skulu allir klæðast eftirfarandi öryggisbúnaði:

1. Lokuðum hjálmi
2. Bak, hné, olnboga og axlahlífum með hörðu yfirborði (brynju).
3. Legghlífum
4. Hnésíðum buxum
5. Síðerma treyju
6. Heilum hönskum (kevlar)

Mælst er til þess að keppendur klæðist mjaðmahlífum, hlífðargleraugum, ökklahlífum, úlnliðshlífum og punghlífum.
Reiðhjólið, og þá sérstaklega öryggisbúnaður reiðhjólsins, skal vera í fullkomnu ásigkomulagi. Mælst er til þess að keppendur séu á fulldempuðum hjólum með diskabremsum (8 tommu).
Keppendur eru á eigin ábyrgð í keppnum HFR.
HFR vonast til að sjá sem flesta keppendur á sunnudaginn, fjallabrunið er fjörug viðbót í flóru hjólreiðaíþróttarinnar

Til þess að komast að Reykjafelli er keyrt eftir Vesturlandsvegi þar til komið er að hringtorginu rétt hjá Kentucky Fried Chicken. Þar er tekin hægri beygja og farið inn á Reykjaveg, hann keyrður þangað til tekin er vinstri beygja inn á Bjargsveg.