(fréttatilkynning)

FORSALAN AÐ HEFJAST
Forsala á Airwaves hátíðina hefst að morgni dags laugardaginn 5. október og fer fram í verslunum TALs í Reykjavík og Akureyri. Einungis 3000 miðar eru í boði á almennum markaði þar sem von er á miklum fjölda erlendra gesta á hátíðina.

Dagskrá hátíðarinnar er óvenju glæsileg í ár. Alls verða 19 tónleikar í Reykjavík þessa daga og ber þar hæst frábært lokakvöld í Laugardalshöll laugardaginn 19. okt. þar sem fram koma íslensku hljómsveitirnar Apparat Organ Quartet og Gus Gus auk bandarísku hip-hop meistaranna Blackalicious og The Hives frá Svíþjóð sem er umtöluð sem heitasta rokkhljómsveit heimsins í dag. Raftónlistarmaðurinn Fatboy Slim mun síðan sjá til þess að halda fjörinun gangandi fram eftir nóttu.

Á meðal annarra listamanna má nefna Rapture (US), Xploding Plastix (NOR), J-Live (US), Remy Zero (US), the Leaves, Vinyl, Singapore Sling, Mínus, Silt, Bang Gang, Einar Örn of Daniel Ágúst auk yfir 50 annarra listamanna og plötusnúða.

Miðaverð á alla hátíðina er kr. 5.500. Fyrir það fæst armband sem veitir aðgang að öllum atburðum hátíðarinnar. Hægt verður að kaupa sig inná einstaka atburði við hurð ef húsrúm leyfir. Það verður þó ekki hægt í Laugardalshöll, þar er armband skilyrði.

Iceland Airwaves er stærsti tónlistarviðburður ársins, skemmtileg blanda af öllum tegundum framsækinnar tónlistar, langt og skemmtilegt partý sem enginn má missa af.

Hátíðin hefst miðvikudaginn 16. október.
Upplýsingar um dagskrá og listamenn er að finna á http://www.destiny.is/dagskra

Hr. Örlygur