Já,
myrkrið er djúpt sem fossgropinn hylur
áttir að vita að allt sem aðskilur
gleði og sorg, og í þínu tilviki, líf og dauða
er tími, hefðirðu þraukað einu einasta andartaki lengur
hamingju okkur umlyki,
og tár mín ei vættu blettinn auða
sem þú skildir eftir í rúminu okkar
lífið áfram skokkar
en ég orðinn seinn, get ekki fylgt því eftir
sit einn eftir, hér
því ilminn af þér leggur enn fyrir vit mín,
selta tára byrgir mér enn sýn
mun því flæði ljúka meðan ég er án þín?
úti; ljósblár himinn, sólin skín, en hún skín fyrir aðra
höfuð mitt við það að springa, eins og úttútnuð blaðra
helvítis sólskinið álíka velkomið og hvæsandi naðra
framtíðin var kannski aldrei björt
en það er betra að hjartað slái ört, af ótta
en þó taktfast og samfleytt
heldur en alls ekki neitt
einna sárast fannst að í bréfinu stóð:
“…vegna þess að ekkert er öruggt,
ég get mig á ekkert reitt”
en ástin mín, hvað með mig?
ég reyndi alltaf að vera til staðar til að grípa þig
en hey ég skil
að þú hafir haldið að ég yrði ekki alltaf þér við hlið
nú hefurðu öðlast frið - og ert ekki lengur til.