Í fjórða skipti munu Poetrix og Mohawks blása til veislu. Veislan fer fram í
Mohawks í Kringlunni fimmtudaginn 25. júní kl. 19:00 að staðartíma. Tilefnið
er að fagna öllum þeim hæfileikum sem ungir listamenn hafa sýnt á þessum
kvöldum hingað til. Og líka því okkur finnst gaman að geta sagst vera að
vinna þegar við erum að hlusta á tónlist, textagerð og að halda tónleika í
Kringlunni. Sérstaklega huggulegt.

Í þetta skipti mæta tvær rapphetjur, sem að eru fyrir löngu búnar að sanna
snilli sína á míkrafóninum í íslensku hiphop senunni, til þess að taka
fyrstu skóflustunguna í því að byggja upp brjálaða stemmningu.

Fyrstan ber að nefna Marlon Pollock, sem er af mörgum talinn einn allra
besti freestyle rappari sem að hefur blessað sviðsljósið með nærveru sinni
hér á landi. Hefur hann gefið út fjölda laga síðastliðinn ár, rappað sem
klúbbarappari í london, hitað upp fyrir 50 cent og þannig mætti lengi telja
þannig að hann er hokinn af reynslu.

Gunnar Maris, eða G.maris hefur verið umfangsmikill allt frá því að hann
steig svo harkalega fram á sjónarsviðið í íslensku hiphop senunni að það
brotnaði og sigraði rímnaflæði 2003 með hljómsveitinni textavarp. Hann hefur
einnig unnið með flestöllum af bestu taktasmiðum landsins og er sérstaklega
þekktur fyrir frábæra sviðframkomu og gott flæði.

Þessir tveir munu byrja ballið á fimmtudaginn með lögum, frjálsflæðisrímum
eða hverju sem ballið býður uppá og eftir það verður orðið á götunni gefið
laust fyrir hvern sem að langar að taka þátt í veislunni og blessa okkur með
gómsætum rímnamolum. Einnig munu fleiri þekktir rapparar mæta í búning
leynigesta á svæðið og flæða rímum yfir takta eftir stemmningu.

3 ungir rapparariddarar hafa gengið í burtu með allt sem hugurinn girnist
síðastliðin kvöld (fataúttekt í Mohawks) eftir að hafa sýnt míkrafóninum
hvar Davíð keypti ölið. Sem fyrr verða verðlaun í boði fyrir bestu
frammistöður kvöldsins og geta ungir rímnasmiðir blandað geði við þá
reyndari í bransanum og fengið hjálp við textagerð, flæði o.sv.frv.

Sjáumst stórfenglega sköpunarglöð næsta fimmtudag…