þetta er lagið rónaljóð af plötunni Fyrir lengra komna sem að kemur í nóvember…

ásamt mér í þessu lagi er hann Reynir Kokkur sem að finnst líklega einhverstaðar niðri í bæ að reyna að öngla saman fyrir næsta glasi…

takturinn er smíðaður af Árna Briem og Smári Tarfur plokkar strengi að venju
Tekið upp í Stúdíóinu Heiti Potturinn af Finni Hákonarsyni
Upptökustýrt og útsett af Poetrix

því miður er lagið ekki í alveg fullum gæðum vegna hömlunar á skráarstærð á myspace.

svona til gamans að þá ætla ég að láta fylgja með sögu lagsins sem var
upprunalega bara ætluð í bæklinginn sem að fylgir með disknum…




Fyrir einhverjum árum vaknaði ég eftir vikulangt svall frekar lúinn á sál og líkama. Það var fjöldaútför í hausnum á mér fyrir heilasellur sem höfðu látið lífið í hatrammri baráttu við hina ýmsu óvini. Eilítill boðefnaskortur gerði jafnvel vart við sig.

Ég labbaði fram, fékk mér ekki morgunmat en kveikti mér í einni plöntu vafðri í tóbakspappír og vorkenndi sjálfum mér. Ég rak augun í blað sem að lá á borðinu, eitthvað aukablað með dagblaðinu.

Og þar var mynd af þessum róna. Hann var með blóðsprungin augu, hafði greinilega lúskrað á þónokkrum olbogunum með nefinu á sér í blóðugum bardögum um sprittbrúsa á strætum reykjavíkur í gegnum tíðina, því það var frekar afmyndað.

Í 66 gráður til helvítis galla sem hafði liklega reynst eiganda sínum hliðhollur í gegnum ófáa pissupytti og ælupolla. Sannkallaður og nauðbeygður unnusti götunar. Og þarna var þetta ljóð eftir hann sem að varð mér innblástur í bitrum einmanaleika mínum og ég skrifaði þennan millikafla. Seinna meir í einni af innlögnum mínum á vog, þar sem ég var frekar þjakaður af sjálfum mér, fráhvörfum, fortíðarþrá og vonleysi skrifaði ég textann við þetta lag.

Löngu seinna kynnist ég þessum herramanni sem hafði skrifað þetta ljóð og við urðum ágætis sígarettufélagar og áttum ýmisleg samskipti þegar að hann gerði óheiðarlegar tilraunir til þess að reyna að hætta að drekka. Og úr varð að ég dró hann uppí stúdío og hann las inn ljóðið sem hafði orðið kveikjan að þessu lagi. Gjaldið sem þurfti að greiða voru tveir sprittbrúsar, sígarettur og gönguferð um reykjavík í frostinu.

Ég er ekki sammála sjálfum mér í þessu lagi. Enda sýn mín og viðhorf breyst töluvert frá því að það var gert. En á þessum tímapunkti var þetta raunveruleikinn í sinni tærustu mynd. Þetta var það sem að ég upplifði og í því er sannleikurinn falin. Og þetta er það stem að þúsundir þjáningabræðra minna og systra upplifa á hverjum degi. Hin svarta og vonlausa tilvera fíkilsins, sem að engin getur skilið til fullnustu nema sá sem hefur upplifað það sama.


njótið http://www.myspace.com/68375945