Eftirfarandi grein var birt í Morgunblaðinu.


TÓNLIST - Geisladiskur

Sextán slög
Original Melody - Fantastic Four **

Öll lög eru eftir Ragnar Tómas Hallgrímsson, Ívar Schram og Þór Elíasson. Helgi Pétur Lárusson annaðist upptökur. Hljóðblöndun var í höndum Helga Péturs og Earmax. Earmax masteraði. Hrafn Gunnarsson hannaði umslag. Low Key Records gefa út. 23 lög, 69:44.


ÞAÐ ER ekkert sem gefur manni vísbendingu um að Original Melody sé íslensk hljómsveit við fyrstu hlustun á nýútkomna plötu þeirra Fantastic Four. Textar eru fluttir á ensku, og framburður er svo sléttur og felldur að ekki er annað að heyra en hér séu á ferðinni blökkumenn frá New York. Þegar betur er að gáð má heyra í textum sveitarinnar vísanir til heimalandsins. Í fyrsta lagi plötunnar, “Peace, Love & Unity”, rappar Catalyst: “I was born in Iceland where we love our country. / Love it yet we hate it, just to put it bluntly. / Grew up in the States where a lot of love is missing.” Þessi menningarmunur er einnig orðaður í laginu “The Switch Up” á eftirfarandi hátt: “This is Iceland - we don't bust guns, we bust the mic.”
Í rappinu er farið um víðan völl; siðferðisleg álitamál eru þemað í “What If” og “Imagination” er óður til ímyndunaraflsins. Eftirlætis yrkisefni allra skálda kemur einnig við sögu, þ.e. hvernig á að yrkja, hversu erfitt er að skrifa o.s.frv. Vísanir í hipphopp-tónlist koma reglulega fyrir, t.d. í “Serious”, “Sunset” og einu besta lagi plötunnar “Imagination”.

Þökk sé fagmannlegri hljóðvinnslu er rappið nógu framarlega í hljóðmyndinni til þess að auðvelt sé að heyra hvað verið er að segja hverju sinni. Auk þess eru þeir Catalyst, Imagery og Shape allir saman skýrmæltir og nægilega afslappaðir í flutningi sínum til þess að hvert orð heyrist. Gæði flutningsins gera það hins vegar að verkum að maður er fljótur að taka eftir því að margir textanna eru merkingarlitlir orðfimleikar. Það er ekki endilega neikvætt að mati gagnrýnanda - heildarhljómurinn er lykilatriði. Mögulega er þetta ástæðan fyrir þeirri leiðindaákvörðun að láta texta ekki fylgja í umslagi disksins. Að öðru leyti er umslagið frábærlega heppnað og hönnuðurinn Hrafn Gunnarsson á mikið lof skilið.

Taktsmíði Fonetic Simbol er mjög vönduð. Einfeldnin er í fyrirrúmi, trommuforritun oft ekki flóknari en svo að bassatromma og snerill deili taktslögunum á milli sín og hi-hattur telji áttundupartana. Bassalínur hljóma eins og þær séu samdar í kringum þá hljóðbúta sem hvert lag byggist á, en hljóðbútarnir eru oftast sóttir í djasstónlist og oft ekki lengri en fjórir taktar. Taktarnir tveir í “Me, Myself & I” eru báðir mjög flottir, sama gildir um “Imagerybust”, og Fonetic Simbol fer á kostum í “Peace, Love & Unity”.

Þó svo að taktarnir virki ágætlega og séu mörgum klössum ofar en útspil fjölda annarra íslenskra pródúsenta, þá spyr maður sig hvers vegna ekki sé unnið meira með taktana, fleiri hljóðbútar tíndir til í hvert lag og lifandi hljóðfæraleikur notaður í meiri mæli. Trompet er til dæmis notaður með frábærum árangri í laginu “Serious” og gítar gæðir “What If” miklu lífi. Fleiri slíkar tilraunir hefðu lyft Fantastic Four upp á hærra plan. Undirspilið er nefnilega fremur einsleitt í þær sjötíu mínútur sem platan varir, hangir oftast í kringum 100 slög á mínútu og endurtekur sig í sífellu meðan á hverju lagi stendur.

Þetta vandamál er ekki einskorðað við Original Melody, þetta er vandi gríðarlega stórs hluta hipphopp-tónlistar. Hipphopp grúvar yfirleitt vel og þar er oft að finna snjallar hugmyndir og góða hljóðvinnslu. Þess vegna er sannkölluð synd að pródúsentar láti sér nægja að fullvinna fjóra flotta takta og henda síðan inn trommubreikum hér og þar. Hér mættu margir taka sér taktsmiði á borð við Prefuse 73 til fyrirmyndar. Tilraunir hans og annarra sanna að hipphopp býður upp á miklu meira en sextán slög.

Þegar rapphljómsveitir kjósa að nýta sér byggingu popptónlistar og skiptast á versum og viðlögum, eins og Original Melody gerir í mörgum laga sinna, gefst þeim tækifæri til að skipta um hljóðgrunn og jafnvel hljóm eða tóntegund í miðju lagi og gera það þannig eftirminnilegra. Því miður nýtir Original Melody þetta tækifæri ekki nægilega, það er helst að “Peace, Love & Unity” og “The Switch Up” bæti einhverju við hefðina.

Mörgum þykir gagnrýni af þessu tagi eflaust ekki eiga við þegar fjallað er um hipphopp, því þar er textinn í aðalhlutverki og tónlistin einungis til stuðnings. Undirritaður hafnar slíku og vill meina að hvort tveggja spili jafnstóra rullu, sérstaklega ef maður nefnir sig Frumlega laglínu (eða Frumlaglínu) og kýs að syngja milli erinda. Oft á tíðum er nefnilega ekki nauðsynlegt að troða laglínum inn í rapplög, viðlagið í “The Train Ticket” er t.d. afleitt og algjörlega óþarft. Original Melody hittir naglann hins vegar nær höfðinu í viðlagi lagsins “Sunset”.

Original Melody er í kröppum dansi á milli þess að vera “hefðbundið hipphopp” - þ.e. tónlistarform sem gefur skít í alla byggingu og lætur sér nægja taktfestu og orðaleiki, ekki ósvipað og djass leikur sér að tónum - og “popphopp” sem reynir við vinsældalistana með grípandi viðlögum. Original Melody-mönnum tekst eiginlega betur upp þegar þeir halda sig við rappið, því að popplög þurfa (í flestum tilfellum) bæði á A- og B-kafla að halda til að virka almennilega. Hæfileikana skortir ekki, en það vantar örlítinn byltingaranda og hugrekki til þess að Fantastic Four geti náð þeim hæðum sem margar hugmyndanna á plötunni skilja eftir í hugskoti hlustandans.

Atli Bollason