Betarokk vs. Bumsquad Í sumar kynntist ég ungum drengjum í kringum kunningja minn Erp. Þar sem Erpur talaði hæst og mest strækaði hann mig sem foringi hópsins enda fer það honum sérstaklega vel að vera í öllum þeim forgrunni sem hann kemst í. Erpur er Johnny Nas og Blazroca og þau nöfn þekkja náttúrulega allir en svo komst ég seinna að því að hópurinn sjálfur á sér nafn og er það Bumsquad.

Rottweilerhundarnir eru í Bumsquad og var því mjög rökrétt að setja þetta undir einn hatt…….þar sem þetta var krú sem alltaf hékk saman. Líkaði mér alltaf vel við þessa drengi enda skemmtilegir djammarar og tussulegir drykkjuboltar. Fyrir örfáum vikum komst ég svo að því að Bumsquad á sér heimasíðu, Bumsquad.com og sæki ég hana reglulega til að tékka á hvernig þeim líður daginn eftir hvert djamm en það er iðulega tíminn sem þeir nota í að setja efni inn á vefinn.

Í síðustu viku sá ég svo tvo stráka af þessu krúi á hinum subbulega en indæla veitingastað Mekong í Sóltúninu. Á næstu mínútum týndust allir vinirnir inn og þá fattaði ég að ég hef aldrei hitt þá í sínu hvoru lagi. Ég fór að hugsa um svona sanna vináttu, sjálfstæði og fór í allskonar sálfræðipælingar. Pældi svo ekki meira í því fyrr en í fór að blaðra um þá í Tvíhöfða í gærmorgun. Í Tvíhöfða sagði ég að það væri eins og þeir kynnu ekki að anda í sínu hvoru lagi, þeir væru og þyrftu ábyggilega lífsnauðsynlega að vera alltaf saman. Ég minntist á að það væri sorglegt fyrir fullorðna karlmenn að vera svona háðir hópnum og voru Jón og Sigurjón mér mjög sammála. Svo til að útskýra fyrir hlustendum sem hafa aldrei heyrt um Bumsquad sagði ég að þetta væru strákarnir sem fengju að syngja fimmta hvert orð með Rottweiler og að síðustu, að þeir væru krúið hans Erps.

Bumsquadkrúið tjúllaðist og nú er Bumsquad-síðan tileinkuð mér og finn ég mig tilneydda til að svara aðeins fyrir mig og útskýra. Þar eru allskonar staðhæfingar kallaðar fram sem eiginlega gefa það upp, að sá sem skrifar hafi ekki persónulega heyrt í mér en sé voða reiður því einn eða tveir vinir hans heyrðu þetta og voru að reyna muna það sem ég sagði. Eitt af því sem ég tók sérstaklega eftir var að þeir halda því fram að ég hefði verið að dissa heimasíðuna þeirra. Mér finnst Bumsquad.com frekar fyndin heimasíða og hefði aldrei dissað hana……hve mikið sem ég bulla í Tvíhöfða, þá dissa ég aldrei það sem á ekki diss skilið. Þetta er skemmtileg síða sem þeir hafa búið til í kringum djammið og finnst mér að þeir eigi einungis hrós skilið fyrir gott djammframtak. Auðvitað dreg ég það ekkert til baka þó þér séu aðeins að blörta á mig í dag….það er líka allt á misskilningi byggt, augljóslega. En svo fer bréfritari að tala í hring, hann segir að Bumsquad sé ekki Rottweiler en að Rottweilerhundarnir séu í Bumsquad og þvertekur fyrir að nokkur í Bumsquad hafi nokkurn tímann rappað með Rottweiler. Bíddu….var hann ekki að segja að Rottweiler væru í Bumsquad??? Svona heldur þetta áfram með allskonar illa samansettum setningum og upphrópunum um frægðarþrá og hnakk og þó maður skilji ekki alveg hvað bréfritarinn Molotov sé að fara þá sensar maður pirring og það er víst nóg í svona einnar hliðar samskiptum. Að vísu gengur hann of langt um miðbik greinarinnar og segir mig horfa grátandi á “Einn, tveir og elda” og fyrir það mun ég drepa þá alla!! Takk fyrir.