Nú er nýkomin út önnur sólóplata akureyrska hiphop taktsmiðsins Sadjei; Activity. Sadjei er eins og margir vita maðurinn á bak við takkana hjá Skyttunum og einn virtasti taktsmiður landsins, eins langt og það nú nær í þessari dvergvöxnu senu. Sjálfur hef ég fylgst með honum með öðru eyranu til lengri tíma. Fyrstu lög Skyttana lofuðu heldur betur góðu. Hann gaf svo út sólóplötuna Aðgerðarleysi fyrir nokkrum árum, þar sem einnig mátti greina hæfileika. Ófullnýtta og svolítið stefnulausa, en engu að síður greinilega einhver með getu umfram þau ógrynni af meðalmönnum sem tætta sundur sömpl hér á landi af fádæma smekkleysi. Þessvegna beið ég með þó nokkurri eftirvæntingu eftir Illgresinu, fyrstu eiginlegu plötu Skyttnanna. Hún reyndist vera þunglyndislegt gítarpopp og hlutur Sadjei á plötunnu var hálfkæfður. Vonbrigði.

Og þá (ef frá eru talin nokkur minniháttar samstarfsverkefni) erum við komin að þessari nýju plötu, Activity. Við fyrstu hlustun gat ég ekki heyrt betur en að hér væri Sadjei aftur að valda mér vonbrigðum. En eins og segir í öðru lagi plötunar, A useless shape, er þetta tónlist sem krefst þess hlustað sé af nokkuri athygli.



Activity er nefnilega nokkuð fráhrindandi í fyrstu. Fyrsta lag plötunar, Disaster Waiting er til að mynda versta lag plötunnar; óspennandi melódíur og einfeldingslegur hljómagangur, lýjandi taktur sem er hvorki rokk né fönk heldur bara innantóm slög ofaná yfirkeyrt drama. Svo er hljómur plötunnar, sándið, afar einsleitt sem gerir það að verkum að við fyrstu hlustun er erfitt að greina mikinn mun milli laga. En ég gaf henni séns, reyndi að sigta út sérkennin og renndi henni aftur í gegn. Nú eru þær umferðir orðnar fleiri en ég hef tölu á og ég er þeirrar skoðunar Activity sé besta íslenska plata sem komið hefur út í langan tíma.

Tónn plötunar er dimmur, þungir taktar, sveimandi millikaflar og oftar en ekki hleypir Sadjei á stökk undir lok laganna í temmilega viltum rafmagnsgítar köflum. Hér er engum diskósömplum né partí-hiphoppi fyrir að fara, enda nefnir Sadjei í plötuhulstrinu sem sína helstu áhrifavalda úrvalslið vælukjóa og svartsýnismanna; Neil Young, The Who, Genesis, Pink Floyd o.s.frv. Rigningartónlist óneitanlega, en ég ætla samt að fá að nota orðið ljúfsár frekar en þunglyndisleg: Hoppandi litlar klavíer/hljómborðs melódíur sleppa iðulega í gegn og afar falleg og ljúf radd-sömpl brjóta upp nokkur lög.

Áðurnefnd sánd-einsleitni er líka í jöfnu mæli blessun og bölvun, því sándið er framúrskarandi, sérstaklega hvað varðar Bassa og trommur. Bassinn er oftast nær plokkaður inn með bassagítar (heyrist mér) eða spilaður með syntha frekar en samplaður, sem gefur vissa samheldni, þrátt fyrir þau fjölbreyttu og mismunandi sömpl sem sigla bassalínurnar. Einnig er eitthvað um gítarspil en þar á ég erfitt með að greina milli sampla og nýrra upptakna (sem er ekkert nema gott).

Platan er rétt tæp klukkustund, nokkuð löng, enda framvinda frekar hæg (sem er heldur enginn galli). Athygli vekur að Sadjei scratchar lítið sem ekkert, það er rétt svo maður heyri að vínyll hafi verið samplaður og lítið annað. Það gerir þó ekki að sök, hver hefur jú sinn stíl.



Svo ég rekji nú aðeins gang plötunnar eru fyrstu tvö lögin af tólf hálf ómerkileg, það seinna þó mikið betra. En á þriðja lagi ( Too Much Space, sem hægt er að sækja á Hiphop.is) hrekkur Sadjei loksins í gang og þaðan frá er allt uppímót. Með lögunum Tomorrow Rip (RIP?), Fucking Thoughts og Breathless sem eftir fylgja stigmagnast gæðin. Það síðastnefnda er gullfalleg blanda af einmannalegu rauli, bjöllum, gítargutli og strengjum sem er svo brotið upp með illvígum hráum syntha í frábærum millikafla. Eitt besta lag plötunar án efa. Lagið þar á eftir, Good Timing, er einnig mjög gott, afar stórt lag, mikið í gangi og allt að verða vitlaust undir lokin án þess hann grípi í öskrandi rafmagnsgítar til að gefa vigt. Næsta lag, It Seems to be Gone, er gott rólyndis chill, soldið einmannalegt og Madly in Love er ágæt rokk keyrsla ofaná örlítið tilgerðarlegt 70’ reverb-gítar plokk. Þar á eftir kemur síðasti hluti hins frábæra miðbiks plötunar, lagið Can’t Anybody Sing? Mjög fallegt söng-sampl og hnausþykk bassalína strax frá byrjun og allskonar skemmtilegheit út í gegn. Frábært lag.

Síðust tvö lög plötunar eru hinsvegar eilítið gölluð. Cold Anxiety er eina rappað lagið á plötunni, og þar ljær Class B úr Forgotten Lores Sadjei rödd sína. Class B er að mínu mati besti íslenskumælandi rappari fyrr og síðar. En hann mælir hér á ensku en ekki íslensku og hreimurinn fer í taugarnar á mér. Það breytir því ekki að flæðið er óviðjafnanlegt og textinn góður. En fleira bjátar á: einhvernvegin er ekki nægur samhljómur milli ákefðarinnar í Class B og þessa þunga myrkra takts sem Sadjei hefur matreitt undir rímurnar. Smellur bara ekki alveg saman. Ekki slæmt lag, en nokkur vonbrigði. Síðasta lagið, Decision Failure tekur sig svo full hátíðlega, hljómar næstum eins og kvikmyndatónlist fyrir miðbikið, grafalvarlegur kór yfir marserandi trommum og rock-out mómentin eru svolítið þunn, vantar eitthvað uppá til að vera sannfærandi.



Activity er lengi að vakna en hristir svo af sér slenið og kemst á fljúgandi ferð fyrir miðið en laskast örlítið í lendingu. Nokkrir hnökrar sem auðvelt reynist að líta hjá er fram líða stundir. Veit það er klisja en hún vex við hverja hlustun. Ég gef henni einkunina 8, fjórar stjörnur af fimm og gef Sadjei fast sæti í landslið taktsmiða eftir langa veru af og á varamannabekknum.

Þá er bara að sjá hvernig nýja platan hans Hermigervils, Sleepwork og 7,9,13 þeirra Byrkis og Intrós feti í fótspor Sadjeis. Þetta gæti enn orðið gott ár.

Afsakið stafsetningu, DaC.