Áhugamál eins og hestamennska og trúarhefðir verða að mæta afgangi í fjárlögum á meðan fólk stendur í biðröðum eftir mat. Þetta kom fram í máli Þórs Saari, þingmanns Hreyfingarinnar, á Alþingi í gær. Hann kallaði eftir breyttri forgangsröðun í fjárlagafrumvarpinu.



Þór Saari, þingmaður Hreyfingar, vakti athygli á því í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í morgun að í síðustu viku hafi 550 manns sótt sér mat til fjölskylduhjálpar Íslands.

„Fólkið stendur utandyra í biðröðum oft tímunum saman nema í gær þá lánaði rútufyrirtæki bifreið til að fólk gæti haldið á sér hita í nepjunni. Þar voru fréttamenn frá franskri sjónvarpsstöð á vettvangi og þeir voru hissa á ástandinu og sögðu aðstæður í rauninni einsdæmi í allri Evrópu,“ sagði Þór.

Þór spurði Steingrím J. Sigfússon fjármálaráðherra hvort hann hygðist beita sér fyrr því að fátækt fólk á íslandi verði aðstoðað með öðrum hætti en nú er gert, „til dæmis með útgáfu matarkort sem hægt væri að nota í verslunum, í öðru lagi útvegun á viðunandi húsnæði ef hitt stendur ekki til þannig að matargjafir þurfi ekki að fara fram utandyra… það er eins og það sé verið að koma fram við fólk eins og skepnur.”

Þór benti á að í fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi sé gert ráð fyrir því að veita tæpum fimm milljörðum til þjóðkirkjunnar og milljónum til hestamannafélaga vegna kvefpestar í hrossum. Kallaði hann eftir breyttri forgangsröðun. „Því svona ástand þarf fyrst og fremst að mæta grunnþörfum fólks,“ sagði Þór. „Áhugamál eins t.d. hestamennska eða trúarhefðir, þó menningartengd séu, verða að mæta afgangi.”

Dapurlegt ástand


Fram kom í máli Steingríms að ástandið væri dapurlegt en það væri hægara sagt en gert að útrýma fátækt á Íslandi. „En ég held að við þurfum að taka þetta ástand mjög alvarlega. þetta er ekki ástand þar sem einhver einn aðili leysir með einhverjum hætti. ég held að ríki, sveitarfélög, hjálparstofnanir og aðrir þeir sem eru að sinna þessum málum þurfi að taka þarna höndum saman."
mbk. Böðvar Guðmundsson