Jæja ég hef verið að ríða út í sumar og fer aðallega á 3 hesta og datt í hug að spjalla aðeins um þá og reyna aðeins að lífga upp á þetta áhugamál :-)

FREYR
————–
Fyrsti hesturinn og minn uppáhalds er hestur sem pabbi á en enginn ríður honum nema ég svo ég kalla hann alltaf minn. Hann er jarpur og heitir Freyr. Þegar við fengum hann þá var hann alger draumur. Hann er alltaf frekar þykkur sama hve mikið maður hreyfir hann, eins og hann hafi ekki í sér að vera grannur. En hann hefur alveg gífurlegt þol og ég held svei mér þá að hann kæmist bara endalaust áfram.

Hann er alger draumur ennþá fyrir utan 2 atriði :-( Mamma senti hann í þjálfun fyrir nokkrum árum og eftir það þarf ég að reka hann inn í hesthús til að ná honum, og getur tekið mig upp í hálftíma að komast á bak því hann er svo erfiður ( bakkar, reynir að sleppa frá mér, ýtir við mér, snýst í hringi… ). Fyrir þann tíma labbaði ég bara að honum og fór á bak og ekkert vandamál :-( Svo ég ráðlegg ykkur að passa ykkur hvert þið sendið hestana ykkar !!

Hann á það líka til að byrja frekar erfiður á vorin og sérstaklega þegar ég var með hann og hestinn minn Óríon saman þá voru þeir alltaf að bíta hvorn annan og Freyr átti það til að prjóna og sparka og eitthvað svona gaman gaman en þegar á leið þá hættu þeir þessu og urðu bara bestu vinir. En þeir eiga það báðir til að vera dálítið misjafnir í skapi og hátterni… mætti halda að þeir væru kvenkyns hehe ;-)

Um daginn reyndar gerðist kraftaverk, ég fór með vinkonu minni á bak og ákvað að taka Frey bara með en ríða honum ekki, svo þegar við komum til baka þá sleppti ég honum lausum í smá girðingu við hesthúsið og labbaði svo að honum aftur og það var bara ekkert mál. Svo rak ég þá út í stóru girðinguna og viti menn labbaði að honum aftur þar. Vanalega kemst ég ekki nær honum en svona 2 metra í mesta lagi. Rosalega var ég kát þann dag !!

LOFTUR
————–
Næsti hestur sem ég ríð út er hestur sem kunningi minn á ( hann er með minn hest, var að ríða út í vetur og langaði að prufa að hafa annan hest ). Hann er brúnn og heitir Loftur. Hann var uppáhaldshestur minn þegar ég var yngri og ég held ennþá mikið upp á hann, þá vorum við ekki komin með svona góða hesta. Hann heltist fyrir einhverjum árum og var lengi að jafna sig eftir það. Á tímabili var haldið að hann myndi ekki jafna sig :-(

Hann á það til að vera sífellt að misstíga sig og um daginn þá datt hann alveg niður á fram hnén og vinkona mín sem var á honum rúllaði fram af honum. Sem betur fer sást ekkert á honum eftir þetta eða henni :-)

STÍGANDI
————–
Þriðji og síðasti hesturinn er hesturinn hennar mömmu. Hann er brúnn og heitir Stígandi. Hann er alltaf mjög grannur, akkúrat andstæðan við Frey. Ef maður setti þá saman þá myndu koma 2 passlegir hestar ;-) Hann minnir mig alltaf á svona hefðarfólk. Hann reynir alltaf að hlífa sér og þegar maður er búinn að ríða honum dálítinn spöl þá byrjar hann að hægja á sér og dragast aftur úr og hoppar einhvern veginn svona upp, veit ekki af hverju en er frekar óþolandi !! En mjög fínt hross fyrir alla byrjendur. Mér finnst ágætt að hafa hann með og þá vera með písk.

Alveg ótrúlegt með flest hross hve mikið viljugri þau verða bara við að sjá písk. Ég lem þá ekki með þeim heldur held bara á honum og það dugar á þá enda er ég alfarið á móti því að pískar séu notaðir til að berja hross !!

Stígandi og Loftur eru svipaðir persónuleikar nema Loftur er ekki svona mikill hefðarmaður í sér eins og Stígandi.

————–
Um daginn fórum við 3 á hestbak. Ég á Frey og 2 vinkonur mínar fóru á Loft og Stíganda. Stígandi er búinn að vera í bænum í allan vetur og búið að hreyfa hann mikið en þetta var í annað sinn sem ég hreyfði Frey og Loft. Freyr bara æddi áfram, meðan hinir drógust aftur úr þegar líða tók á útreiðartúrinn. Samt var hann í mikið minni þjálfun en Stígandi og jafn mikilli og Loftur. Alla mína tíð á Frey þá hefur hann aldrei reynt að hlífa sér og letingjast… hann bara fer áfram þar til ég segi annað. Alger draumur.

Ég hef reyndar verið of löt að fara á bak því ég hef yfirleitt engann til að fara með og það er alveg gífurlega erfitt að ná Frey einn en það er sá hestur sem ég ríð langmest út.

En jæja þetta er held ég komið nóg í bili :-)

Kv. catgirl