Jæja, þar sem fólk er nánast farið að setja inn korka með beiðnum um greinar, þá ákvað ég að leggja hausinn í bleyti . Útkoman var sú að kannski væri ekkert svo vitlaust að tala um hvernig skal ganga um og temja mismunandi hestgerðir. Ég mun þá tala út frá mínum aðferðum við tamningar og um vissar týpur almennt séð. Vonum svo bara að fólk hafi gagn og gaman af að lesa þetta og geti kannski nýtt sér þessar aðferðir og þekkingu.

Málið er eins og ég orða þetta að þá er tamning í raun ekki það sama og tamning. Mjög mikilvægt er að átta sig á mikilvægi þess að þekkja og skilja hverja hestgerð fyrir sig.
Þú getur tamið hest með vissri aðferð og allt fer eftir óskum, hesturinn er eins og hugur manns og er góður við þig og virðir þig. En aftur á móti þá geturu líka tamið (reynt í það minnsta) hest með þessari aðferð og allt fer bara til fjandans og þú skilur kannski ekkert hvað það er sem þú ert að gera rangt. Hesturinn er styggur eða veður yfir þig. Málið er nefnilega að hrossin bregðast við mismunandi ábendingum, hvort sem þau eru hrædd, óörugg, spök eða lítil í sér eða einfaldlega þykjast vera stórlaxar. Ég mun fara yfir núna mínar aðferir við þau hross sem ég hef kynnst, ætla ekki að tala bara um stygg hross þar sem styggur hestur er ekki það sama og styggur hestur og svo framvegis.

Spakur hestur sem er ekki frekur – Þessi hross eru nú ansi oft mjög auðveld og góð í umgengni. Í þessu tilviki þarf í raun ekki að vera neitt sérlega passasamur þannig séð þar sem hesturinn tekur á móti þér af hræðsluleisi og af virðingu þar sem hann er ekki frekur. Þarft kannski ekki að leggja hnakkinn á hestinn nema kannski einu sinni og svo geturu riðið honum í litlu gerði deginum eftir, þ.e.a.s. ef hann kann að lónserast vel.

Spakur hestur sem er frekur – Ég segji að þessi týpa af hrossum er mjög vanmetin þegar kemur að því að eiga við þau. Algengt er að frek hross vilji valta yfir þig í stíu, á ganginum eða bara hvar sem er, þessi hestur reynar oftar en ekki að stoppa eða snúa við þegar verið er að kenna honum að lónserast. Mjög mikilvægt er að hann fái aldrei færi á að stoppa og snúa við þar sem það gæti orðið leiðinlegur ávani hjá hestinum, út frá því mun hann læra að hann ræður hvað gert er. Best er að láta þessa týpu halda vel áfram því að með tímanum læra þau að við stjórnum. Algengt er að þau neiti að leyfa þér að setja beisli upp í sig, setji hausinn upp eða bíti saman tönnum. Ávallt skal fara rólega til að byrja með en ef vandamálið hverfur ekki þá fer nú aðeins að verða í lagi að banka aðeins í þau og láta þau hlusta og hlíða. Málið er að frek hross og óhrædd eru mikið líklegri til þess að hrekkja þig þegar þú ert kominn á bak heldur en smeykur og ör hestur. Málið er nefnilega að hann þarf heldur ekki að hrekkja strax, getur komið bara í miðri lónseringu þessvegna. Mikilvægt er að sá hestur fái ekki að hrekkja, hann þarf að kunna og vera næmur þegar hann á að stoppa og snúa við, þarf ávallt að vita að hrekkir eru ekki í boði. Og munið að vanmeta ekki stærðina, því minni hestur, því snarpari hrekkir;)

Ör hestur en ekki hræddur – Þessi hross eru í raun þau skemmtilegustu til þess að temja. Þau læra hraðast, gera yfirleitt ekki neitt en það borgar sig í raun að fara samt rólega í hlutina, þó ertu samt kannski fljótastur að gera þau reiðfær. Með þessi hross borgar sig þó að vera með hrekkjaól á hnakknum, aðallega vegna þess að viðbrögðin geta verið hröð fyrst eftir að þú ert kominn á bak. Þarna er rosalega mikilvægt í umgengni að standa ávallt öruggur í báðar fætur, ef þú ert eitthvað óöruggur og spenntur þá ætti það ekki að vera neitt vandamál að gera þennan hest óöruggann og spenntan, ekki láta þér bregða þó hann kippist eitthvað við vegna þess að hann er ekki að fara að gera neitt. En þrátt fyrir þetta þá verður maður að vera alveg svakalega góður við þau, ekki hasta mikið á þau eða skamma.

Hræddur hestur – Venjuleg hrædd hross verður að ganga varlega um, hesturinn reynir að forða sér en þó síður að verja sig. Mikilvægt er að bakka þegar farið er inn í stíu til hans, hann verður að vita að þú ætlar ekki að meiða hann (rándýr myndu t.a.m. aldrei bakka að bráð sinni). Mikilvægt er að leggja hönd sína á bakið og strjúka honum fram og aftur en aldrei taka hendina af bakinu svo hann viti ávallt hvar hann hefur þig. Aldrei skal hasta á hestinn, það er mjög mikilvægt. Þegar þú ferð að setja hnakk þá er mikilvægt að herða gjörðina mjög lítið í einu, leyfa hestinum að venjast gjörðinni, taktu svo hnakkinn af hestinum og þá ertu að sýna honum að þetta er ekki eitthvað eilífðar tæki sem festir sig á hann, sama svo þegar þú ferð að fara á bak. Þegar hesturinn er orðinn vanur hnakknum og þú ferð að fara á bak, þá er rosalega mikilvægt að sama hvað hesturinn gerir, þú bara tókst einfaldlega ekki eftir því. Þá eykur hann traust sitt hjá þér og þú verður meiri leiðtogi fyrir vikið. Í raun sama hvort hesturinn hrekkir, ríkur, bregður eða sér eitthvað, þú tókst ekki eftir því því hræddur hestur má aldrei finna fyrir spennu hjá þér því hvernig á hesturinn að treysta þér ef þú ert spenntur, hann gerir sér ekki grein fyrir því að ástæðan er væntanlega hann sjálfur. Mikilvægt er að kenna hestinum að þegar þú er með hann í taumi að ef þú gengur á móti honum og ferð svo meðfram honum þá á hann að standa kjurr. En aftur á móti ef þú ferð til hliðar við hann þá á hann að fara frá þér, þessi aðferð auðveldar þér að komast á bak þegar komið er að því, sem og ef þú stoppar og þarf að herða hnakkinn. Passið svo að vera ekki með neinar óþarfa handahreyfingar, þá geta þau haldið að þú sért ávallt að biðja sig um eitthvað og það er ekki gaman.

Hræddur hestur, skapmikill – Þessi hross geta verið hættuleg, hrekkjótt, rokugjörn, fram eða afturslæg og bíta þig jafnvel, ég er ekki að segja að þau séu það en líkurnar eru mikið meiri. Eins og áður kom fram þá er mjög mikilvægt að bakka inn í stíu, bæði er það betra fyrir hestinn sem og er betra að fá spark í rassinn heldur en ÞIÐ VITIÐ HVAR. Mjög mikilvægt er að venja þau rosalega vel áður en hnakkur er settur á, ef þú ert með langann spotta getur verið gott að kasta honum upp á bak og draga til baka, vefja spottanum utan um hestinn og herða og sleppa, herða og sleppa og svo framvegis. Það getur borgað sig að setja hnakkinn á úti í gerði þar sem viðbrögðin við hnakknum geta verið mikil, bæði minnkar það hættu á slysum á þér og hestinum, sem og á hnakknum sjálfum. Vertu með snúrumúl svo þú getur tekið fast í án þess að skemmta neitt. Taktu því bara rólega þó svo að hesturinn sé þægur inni í litlu gerði, það er ekkert mála ð skemma svona hross ef eitthvað gerist.

Oki, ég er búinn að skrifa svo mikið að ég man ekkert hvað ég er búinn að segja eða hvað ég á eftir að segja, vonum bara að þetta geti gagnast einhverjum. Auðvitað eru kannski ekki miklar breytingar sem skal gera á hverri hestgerð en þær litlu breytingar sem gera þarf eru líka mjög mikilvægar

Ef það er eitthvað sem ykkur þyrstir á að vita sem er ekki þarna þá líka endilega spyrjið og ég get reynt að svara eftir bestur getu. Eins og ég segji, þá er pottþétt að ég gleymi helling og tala ekki um allt sem ég ætti að tala um þar sem ég er enginn snillingur í greinaskrifum.
“Aldrei að treysta manni með of stuttar fætur…… heilinn er of nálægt afturendanum”:-)