Ég rakst á þetta á www.hestar847.is áðan og datt í hug að posta þessu hérna.

Ég hef nú persónulega ekki farið á þessar sýningar en held þetta gæti verið þrælgaman og aldrei að vita nema ég kíki núna.

Held að þetta sé sérstaklega sniðugt fyrir foreldra sem eiga börn með hestabakteríuna ;-)
Og ekki spillir fyrir að þetta er ókeypis svo um að gera að skella sér bara með eins mörg börn og maður mögulega getur tekið með sér ;-)

———————————-

ÆSKAN OG HESTURINN
Eins og undanfarin ár standa “ÆSKAN OG HESTURINN” fyrir Æskulýðsdegi hestamanna 10. mars n.k. og er það í sjöunda sinn sem dagurinn er haldinn. Fyrstu þrjú skiptin fór hátíðin fram í Reiðhöll Gusts í Kópavogi, en þar sem aðsókn var geysilega góð var ákveðið að færa sýninguna um set og halda hana í reiðhöllinni í Víðidal. Þar var fullt út úr dyrum og er talið að áhorfendur hafi verið nálægt 1200.

Aðgangur að hátíðinni er ókeypis og öll vinna er unnin í sjálfboðavinnu, en að deginum standa æskulýðsnefndir hestamannafélaganna á Stór-Reykjavíkursvæðinu og Suðurnesjum: Hörður, Fákur, Andvari, Gustur, Sóti ,Sörli og Máni.

Dagskrá

Hátíðin hefst á glæsilegri fánareið félagsmanna með Landbúnaðarráðherra ríðandi í broddi fylkingar. Hvert hestamannafélag mun svo sýna glæsileg atriði á hestum og þar sem þema dagsins er “Æskan” munu börn úr hestamannafélögunum sjá um skemmtiatriði á milli sýninga félaganna. Þar má m.a. nefna Jóhönnu Guðrúnu söngkonu og Margréti Freyju flautuleikara, báðar úr Sörla, og systurnar Camillu Petru og Viktoríu, sem spila á fiðlur, báðar úr Mána.

Auk nefndarmanna og listamanna munu fagmenn í hestaíþróttum aðstoða við uppsetningu og æfingar sýningarinnar, t.d. Sigurbjörn Bárðarson, Sigurður Sigurðarson, Sigurður Kolbeinsson, Sigrún Sigurðardóttir, Marjolijn Tiepen, Atli Guðmundsson og Halldór Victorsson. Kristinn Hákonarson sýnir óvenjuleg tengsl manns og hests og Daníel Ingi Smárason sýnir skemmtilegt atriði þar sem samspil hests og hunds er í aðalhlutverki. Benidikt Erlingsson leikari mun sjá um að halda uppi fjörinu.

———————————-

Kveðja,
Kisustelpan