Þar sem ég sat fyrir framan imbann í gærkveldi og horfði á hestaþáttinn þá kom eitt stutt myndskeið af Randveri frá Nýjabæ á Landsmótinu 2000. Þá glopraði faðir minn því upp úr sér að hann væri seldur.

Hann á víst að hafa verið seldur utan fyrir um sex milljónir króna. Ég held að hann eigi að fara til Svíþjóðar.

Það hefur nú stundum farið fyrir brjóstið á manni þegar hross eru seld utan en þetta finnst mér vera þær verstu fréttir sem ég hef fengið í langan tíma. Að þessi glæsilegi hestur skuli ekki vera notaður til frekara undaneldis hér á landi. Ég er á því að þessi hestur sé einn sá litfagrasti graðhestur sem ég hef augum litið. Hann er ákaflega fasmikill og glæsilegur jafnt í haga sem og í reið. Ef ég ætti hryssu og hann færi ekki utan núna þá myndi ég tvímælalaust vilja fá folald undan honum.