Knabstrup - Hestategundin Knabstrup eða Knabstrupper er mjög áhugaverð og þá sérstaklega fyrir litinn en hestar af þessari tegund eru hvítir í grunninn og með svarta eða brúna deppla, ekki ósvipað og dalmatíuhundarnir.
Hér á eftir ætla ég að koma með smá fróðleik um þessa tegund.

Sagan:
Þessi tegund varð til í kringum árið 1812 þegar Major Villars Lunn keypti rauða meri og setti undir stóðhest svo út kom mjög litríkt hestfolald. Merin og þetta folald voru svo notuð til undaneldis og úr varð þessi líka litríka tegund sem nefnd var Knabstrup eftir bænum sem folaldið fæddist á sem heitir Knabstrupgaard og er/var staðsettur í Danmörku. Þessi tegund varð fljótt mjög eftirsótt í Evrópu.
Um 1870 var skyldleikaræktun orðin verulegt vandamál vegna þess hve lítill stofninn var og ekki bætti úr þegar kviknaði í hesthúsinu á Knabstrupgaard árið 1891 og 22 af bestu undaneldishestunum drápust. Stofninn snarminnkaði næstu ár til ársins 1971 þegar fluttir voru inn Appaloosa hestar, sem eru afkomendur spænskra doppóttra hesta, og var þeim blandað saman við Knabstrupper hestana til þess að bjarga stofninum. Þetta kyn er þó ennþá mjög sjaldgæft í dag.

Liturinn:
Það eru ekki allir Knabstrupper hestarnir doppóttir en þó langflestir. Litaafbrigði eru ýmis, en engin tvö eru eins. Doppurnar eru ýmist svartar, brúnar eða jarpar. Hestarnir geta verið allt frá alveg brúnum, svörtum eða jörpum lit (þá er talað um að doppurnar renni saman í eina heild) til alveg hvítra þar sem allar doppur vantar, auk alls þar á milli, doppurnar geta runnið saman á einum stað en verið með dágóðu millibili á öðrum stað.

Skapgerðin:
Auk litarins eru Knabstrupper hestarnir þekktir fyrir góða skapgerð, að vera auðveldir í þjálfun, sterkir, hraustir og úthaldsgóðir. Þeir hafa sannað fjölbreytileika sinn því þeir hafa í gegnum tíðina ekki bara verið notaðir í “hobby” reiðmennsku, heldur líka í veiðar, hindrunarstökk, sýningar af ýmsu tagi og keppnir.

Undirtegundir:
Knabstrupper hestarnir hafa greinst í 3 mismunandi “týpur” síðustu 2 aldir.
The Sport Horse type: Eru stærri en hinar “týpurnar”, oft notuð á sýningum s.s. í hindrunarstökk og þess háttar. Henni hefur verið blandað við ýmsar evrópskar “sporty” tegundir.
The Baroque type: Er minni og breiðari en sporttýpan og minnir meira á dráttarhest.
The Pony type: Er ennþá minni en hinar tvær týpurnar og hefur notið mestra vinsælda hjá börnum í Evrópu.

Knabstrupper hestarnir eru yfirleitt um 1,52-1,6 metrar á hæð en þó getur “Pony týpan” verið minni en 1,4. Þeir eru upprunnir eins og áður kom fram í Danmörku en eru núna einnig ræktaðir í Þýskalandi, Svíþjóð, Bretlandi, Ítalíu og Bandaríkjunum.

Vona að ykkur finnist þessi tegund jafn fróðleg og áhugaverð og mér.. ég verð eigilega að láta í ljós fáfræði mína því ég vissi ekki að það væri til tegund svona á litinn en það fyrsta sem mér datt í hug þegar ég sá mynd af svona hesti var hesturinn hennar Línu Langsokks :)

Heimildir fengnar af:
http://www.equiworld.net/uk/horsecare/Breeds/knabstrupper/
http://en.wikipedia.org/wiki/Knabstrup