Gullnu reglurnar! Langar að setja inn það sem kallast Gullnu Reglurnar!


Ef maður ætlar sér að verða góður knapi sem stefnir á keppni verður maður að temja sér viss atriði til að allt heppnist. Hér fyrir neðan eru Gullnu Reglurnar sem allir knapar ættu að þylja í höfði sér áður en þeir stíga á bak. Þetta eru nokkur stikkorð sem fær mann til að bæta sig sem knapi. Það hjálpar einnig viðkomandi mikið að vita eftir hvaða reglum skal leika leikinn.

Jákvæðni:
Knapinn verður að vera jákvæður vilji hann að hlutirnir gangi upp. Ef þú brosir framan í heiminn brosir heimurinn framan í þig. Knapinn skal vera kurteis við aðra og vera ófeiminn við að tala við hestamenn á förnum vegi. Knapinn skal vera brosmildur og vera ánægður með það sem hann hefur, það gleður og öll vandamál sem upp koma er auðveldara að leysa. Knapinn á ekki að gefast upp þó hlutirnir hafi ekki tekist alveg, hann á að sjá jákvæðu hliðarnar og reyna betur næst. Knapinn skal láta sér annt um dýr og menn og vera í sátt og samlyndi við aðra. Knapinn á ekki að renna öfundaraugum á manneskjuna í næsta húsi. Ekkert hatur og leiðindi. Að vera ánægður með það sem maður hefur skiptir öllu. Að einbeita sér að hag annara eyðir hamingju og árangurinn manns sjálfs lætur á sér standa. Knapinn á aldrei að gera hlutina til að sýnast fyrir öðrum ? hann á að gera hlutina til að vekja eigin hamingju og þrár. Geri hann hlutina til að sýnast fyrir aðra munu hlutirnir ekki unnir á réttan hátt og oft fer ekki eins vel og maður vonaðist til ? t.d. í keppni.

Jafnvægi:
Knapinn verður að hafa gott jafnvægi á hestinum. Ef hann hefur það ekki þá getur hann ekki ætlast til þess að hesturinn hafi gott jafnvægi á gangtegundunum. Knapinn verður að sitja kyrr í hnakknum og fylgja hreyfingum hestsins. Til að æfa jafnvægi er gott að fara í hringgerði og fá vin/vinkonu til að hjálpa sér. Þá fer knapinn berbakt á hest og hjálparkokkurinn lónserar hestinn á meðan knapinn lætur út hendurnar og gerir allskyns tiktúrur til að auka öryggi sitt og jafnvægi á baki. Stökkáseta er einnig mjög góð til æfingar á jafnvægi. Hæga stökkinu er auðveldlega hægt að fylgja eftir og knapinn öðlast öryggi. Ásetuþjálfun er mjög mikilvæg svo knapinn viti ávallt hvernig hann ætlar að sitja hestinn á viðkomandi gangi. Þá lendir hann síður í vandræðum með gangtegundirnar. Sama ásetan eykur öryggi hestsins og hann skilur fljótar á hvaða gang knapinn vill fá hann.

Tækni:
Knapinn þarf að vita hvaða tækni hann á að nota til að t.d. fá hestinn til að stöðva, beygja, bakka og fleira. Hann þarf að vera opinn fyrir öllu og segjast aldrei vera bestur því þá þróast hann aldrei áfram. Knapi getur alltaf orðið betri. Hann þróar sig á hverjum degi og reynslan hleðst utan á hann og hjálpar honum. Knapinn á að vera duglegur að kynna sér fræðsluefni og bækur til að auka tækni sína, fara jafnvel á hestanámskeið eða fá ráð frá vönum hestamönnum og færa allt inn í sínar eigin aðferðir. Maður ætti í raun aldrei að taka neitt alveg bókstaflega sem aðrir segja, t.d. eins og að berja hestana sé eina ráðið til að fá þá til að hlýða. Maður á að mynda sér sjálfstæða skoðanir en hafa ráð og fræðsluefni til hliðsjónar. Pæla dálítið í hlutunum og mynda sér sína eigin góðu reiðmennsku. Tækni tengist jafnvægi því lítið virkar tækni án jafnvægis í hnakknum. Hesturinn skilur ekki skipanirnar nægilega vel og hlutirnir ganga ekki upp.

Athygli:
Knapinn verður að fylgjast stíft með hestinum og sjálfum sér vilji hann að allt takist sem best. Einu skiptin sem ungknapar virðast gera þetta er á keppnisvellinum sjálfum. Það er ekki síður mikilvægt að hafa athyglina í lagi ef maður ætlar að koma hestinum í þjálfun. Knapinn þarf að aga sig (lestu ?Röddin skiptir sköpum? á Fróðleikssíðunni) og hestinn vilji hann sjá árangur. Hann þarf að fylgjast vel með líkamlegu ástandi hestsins og að hann og hesturinn séu að gera réttu hlutina í reið.

Einbeitni:
Knapinn þarf að einbeita sér að því sem hann er að gera til að sjá árangur. Einbeitni fylgir ákveðni. Hann má ekki gleyma sér í samræðum við félaga og leyfa hestinum að lulla undir sér eða brokktölta. Hesturinn á að vera hreinn á gangi. Auðvitað á ekki að gilda heragi og hesturinn á ekki að ?vinna? eilíflega á öllum gangtegundum (t.d. endalaust hægasta hægt tölt) heldur hreyfa sig rétt. Einbeitni tengist athygli.

Meðvitund:
Knapinn þarf að vita hvað hann er að gera og hvað hann ætlast til af hestinum. Hann þarf að setja sér skammtímamarkmið og reyna að ná þeim. Knapinn á alltaf að vita hvert hann ætlar að fara og að hverju hann ætlar að einbeita sér að áður en hann fer í reiðtúr. Gott er að ímynda sér að hverju maður ætlar að stefna að fyrir hverja viku. Það eykur líkur á því að hesturinn komist í form fyrr og að knapinn geri hlutina í stað þess að sitja heima og glápa á sjónvarpið.

Þessi 6 mikilvægu orð Jákvæðni, Jafnvægi, Athygli, Einbeitni, Meðvitund og Tækni skalt þú læra utan að og skilja hafir þú áhuga á að bæta þig sem knapi. Þegar eitthvað gengur ekki upp í reiðtúr skellir knapinn skuldinni á hestinn en í 95% tilvika er það knapinn sem er að klikka. Auðvitað hljóma þessar reglur eins og heragi fyrir fólk sem ætlar að keppa (þetta er það) en þetta á vel við hinn venjulega reiðmann. Ef hann vill fá hestinn betri eru Gullnu Reglurnar jafn mikilvægar fyrir hann og keppnisfríkið. Hlutirnir komast í vana og bráðum verður ótrúlega gaman að ríða út, jafnvel á gömlum barnahesti. Knapinn er jákvæður og veit alltaf hvað hann ætlar að gera og það fær hestinn til að fá áhuga á reiðtúrunum. Þá finnst báðum aðilum gaman, ekki satt?