Já… ég var að eignast folald…( nú verð ég að fara að lesa greinina sem ég skrifaði sjálf um folöld á húsi)… skipti á hryssu sem ég átti og folaldinu. Já, ég veit. Að skipta á tamdri hryssu og ótömdu folaldi, það er “madness” en hvað með það, ég hef mínar ástæður. Folaldið er betur ættað en hryssan, pabbi var að hugsa um að fara að selja þessa hryssu til að fækka hestunum. Þannig að þið þarna úti sem segið að þetta hafi verið glapræði: *%&#F=/$ !!! þetta var mín ákvörðun og ég vildi þetta og þetta er ekki glapræði fyrir mig!


Allavega, þetta átti ekki að verða blogg á móti fólki sem er á móti mér. Þetta á að vera um folaldið mitt, hana Hróu.

Hún er frá Miðengi og er undan Galdri frá Laugarvatni og Bóthildi frá Húsatóftum sem er mjög gott. Hróa er rauðskjótt, höttótt og tvístjörnótt.

Það var langur undanfari áður en ég fékk Hróu, mikið um skrif og samninga á netinu og svoleiðis, en loksins ákváðum við að Hróa skyldi koma til mín og hryssan mín sótt í leiðinni, það gerðist þann 29. janúar, þannig að ég þurfti að hafa Hróu og einn annan hest inni um áramótin sem fór alveg með mig því ég var svo hrædd um grey hrossin mín í öllum látunum. Áramótin fóru samt bara vel í hrossin, ég fór og kíkti á þau rétt eftir miðnætti og það virtist allt vera í lagi hjá þeim. Hróa fékk að vera ein í stíu og Faxi var í stíunni við hliðina á henni.

Í fyrstu viku janúars ákvað ég að mýla nú Hróu og prófa að binda hana. Kærastinn minn hjálpaði mér að halda henni og mýla hana og svo gerði ég góðan hnút og batt hróu við stallinn. Ég hef aldrei séð svona rólegt folald bundið við stall áður, ég batt hana og fyrst fattaði hún reyndar ekki að hún væri bundin en þegar hún fattaði það bakkaði hún og togaði af öllu afli í reipið í smástund og lét sig svo, og þá var það búið. Ég prófaði svolítið næstu daga að hafa hana bundna í smástund í senn og það var alltaf í lagi og Hróa var farin að venjast því að fá mig inn í stíuna.

Þann 6. janúar tókum við inn restina af hestunum og þá kom Skvísa til að deila stíu með Hróu, ég hef smá áhyggjur af því að Skvísa sé að éta Hróu út á gaddinn en kannski er þetta bara ímyndun í mér. Núna síðastliðnar tvær vikur hef ég verið að mæta í hesthúsið og taka Hróu úr stíunni og venja hana við allskonar snertingu og alltaf er hún jafnróleg. Núna er ég komin á það stig að ég er að fara að venja hana við að ég snerti fæturnar á henni og það gengur afar vel, ég er komin niður að hnjám og henni bregður ekki við neitt af þessu, ég ætla samt ekki að fara að flýta þessu eitthvað heldur taka þessu bara hægt og rólega. Og ég verð að muna að gera Hróu ekki að ofdekruðu folaldi sem virðir mann ekki, því ég veit að það er alveg hræðilegt.

En allavega… ég vona að hún Hróa reynist vel og þið fáið meiri fréttir af henni þegar við vinnum einhver mót í framtíðinni.
Með kveðju frá hestafríkinni…