Það er eins gott að fara varlega... Í gærkvöldi um 6-leytið fórum við þrjú upp í hesthús til að undirbúa komu hestana, setja saltsteina og svona, en þeir koma á hús á morgun og er mikil tilhlökkun í gangi..

Við vorum eitthvað að dunda okkur við að setja drasl í bílinn þegar kona kemur keyrandi og gerir sig líklega til að tala við okkur.. Við förum að bílnum og konan spyr okkur hvort við söknum nokkuð jarps hests, við áttuðum okkur ekki alveg á hvert hún var að fara með þetta, hvort hún hefði fundið lausan hest eða hvað.. en þá segir konan okkur að það hafi orðið slys þarna rétt hjá, þau hafi náð jörpum hesti og séu að leita að húsinu sem hann eigi að vera í því að knapinn sé líklega mjög alvarlega slasaður. Svo bendir hún okkur á að láta kannski fólk vita sem sé á ferð á hestbaki í þessa átt því það sé allt í blikkandi bláum ljósum við enda götunnar, svo heldur konan áfram ferð sinni.

Við erum náttúrulega í smá sjokki, enda alltaf svakalegt að heyra af svona slysum og við vissum ekkert hversu slasaður knapinn var.. En eftir smástund erum við á leiðinni út úr hverfinu og sjáum þá tvo sjúkrabíla stopp á veginum og lögreglubíl keyrandi hægt í gegnum hverfið. Ég sá að inn í öðrum sjúkrabílnum voru a.m.k. þrjár manneskjur að stumra yfir einhverjum sem lá greinilega á börunum.

Meira veit ég ekki fyrr en ég kíki á mbl.is og sé þar frétt á forsíðunni:

Kona á sextugsaldri fannst látin við reiðveg sem liggur við Kaldárselsveg í Hafnarfirði um klukkan sex í gærkvöldi. Vegfarandi sem fann konuna lét lögregluna vita. Að sögn lögreglu báru lífgunartilraunir ekki árangur.

Konan var með reiðhjálm á höfði og klædd í reiðfatnað. Lögregla telur líklegt að konan hafi fallið af hestbaki en ekki liggur fyrir að svo stöddu hvað hafi dregið hana til dauða. Konan virðist hafa verið ein á ferð. Hestur hennar var ekki nálægt þegar konan fannst, en hann fannst stuttu síðar.

Ekki er hægt að greina frá nafni hinnar látnu að svo stöddu. Málið er í rannsókn.

Það er auðvitað ekki vitað hvað gerðist nákvæmlega, en þetta fær mann samt til að hugsa sig aðeins um. Aðstæður þarna í Hafnarfirðinum voru þannig að það var svartamyrkur og ekki góð lýsing á reiðveginum sem hún fannst á. Maður veit ekkert hversu lengi hún hafði legið þarna eða hvað, en ég mun hugsa mig um áður en ég fer ein í reiðtúr í svartamyrkri, sérstaklega þegar það eru svona fáir á ferli eins og voru í gærkvöldi..

Ég viðurkenni það alveg að ég hef ekki verið mjög dugleg að nota endurskinsmerki og svoleiðis, en ég ætla að fara að taka mig á í þeim málum, þó svo að það sé ekki víst að það hefði eitthvað bjargað konunni, getur alveg vel verið að hún hafi verið með endurskinsmerki.. en mergur málsins er þessi:

Allur er varinn góður…

Ég bara votta þeim samúð mína ef einhvern hérna þekkti konuna, það er hræðilegt að heyra um svona slys..