Sæl verið þið.

Ég ætla að segja ykkur frá Völundi mínum. Hann var fyrsti reiðhesturinn minn og var það í mörg ár. Hann er meðalstór jarpur hestur. Hann er orðinn 17 vetra gamall núna og er lítið notaður þessi ár. Ég er bara að leyfa honum að hafa það gott því að hann var búinn að þjóna mér í öllum mínum reiðtúrum og ferðum í nær 12 ár.

Völundur er undan þeim Högna frá Sauðárkróki og Stjörnu frá Laugardælum. Hann er sem sagt albróðir stórmeistarana Júní frá Syðri-Gróf (Vann A-flokk gæðinga á LM '86) og Júlí frá Syðri-Gróf (Var í 5 ár hæstdæmdi 4-gangshesturinn á Íslandi).

Mín fyrstu kynni við Völund voru þau þegar hann var graður. Mjög ljúfur og góður töltari. Pabbi vildi ekki hafa hann graðan lengur vegna einum of góðs geðslags og var því ákveðið að gelda hann. Eftir geldinguna var hann alltaf forystuhesturinn hjá hópnum.

Ég fékk hann í afmælisgjöf þegar ég var 8 ára og var þá búin að nota hann í 1 ár. Ótal ferðir fór ég á honum og alltaf reyndist hann vel. Var með hann í reiðnámskeið í 3 ár. Svo varð hann notaður sem reiðnámskeiðhestur og allir voru hrifnir af honum vegna þess að hann var svo góður við alla sem fór á hann.

Þegar ég var 9 ára kenndi ég honum að sleikja hendurnar í stað þess að bíta þær. Enn í dag get ég gengið að honum með hendurnar að kjaftinum og hann sleikir enn.

Eitt skipti þegar pabbi var fastur inní stíunni hjá honum, örugglega að gera við vatnið, gekk Minn klár til hans. Pabbi varð skíthræddur við að hann myndi bíta sig, en klárinn sleikti á honum alla hendina. :) Svo góður er hann.

Í dag nota ég hann helst sem teymingarhest. Hann gefur ekkert á eftir þegar ótemjurnar reyni að toga í hann eða bíta hann. Hann heldur bara ferðinni áfram og sinnir sínu. Hann er albesti teymingarhesturinn sem ég hef átt og notað. Sá albesti..

Ef ég myndi velja hest til þess að klóna í framtíðinni, myndi ég velja Völund. Þótt að hann sé enginn gæðingur er hann samt Völundur minn.