Jæja, þar sem haustið er tími smalamennskanna og smalamennskur eiga sér víst ekki alveg stað innan áhugamála huga, en tengjast hestum á vissan hátt, þá opnum við fyrir umræður um smalamennskur hérna.. Svo hvort sem þið smalið kindum eða hestum, gangandi eða ríðandi, eða mætið bara á réttaballið, þá væri gaman að heyra einhverjar smalasögur ;Þ

Sjálf hef ég farið í smalamennskur á hverju ári í að ég held 7-8 ár og hef oftast haft mjög gaman að, var þekkt fyrir frumleg smalaköll (gelt, spangól, tófugagg, bílhljóð og almenn blótsyrði ;Þ ), en þar sem ég meiddist illa á fæti fyrir að verða fjórum árum og haltra ef ég ofreyni fótinn of mikið, þá hef ég smalað á hesti síðast liðin 3 ár ;Þ

En það hefur samt ekki alltaf gengið nógu vel, fyrsta árið sem ég smalaði á hesti festist hesturinn í mýrarpitt og ég hafði mestar áhyggjur af því að hann næðist ekki uppúr, en það tókst að lokum, en síðan þá hef ég aldrei smalað á öðrum hesti en Þokka mínum frá Þórshöfn, sem mörgum hefur fundist alger vitleysa, Þokki minn er nefnilega ofboðslega óþolinmóður, rýkur, prjónar og hálfstingur sér ef honum líkar ekki eitthvað og fékk því viðurnefnið ÓÞokki.. En á ÓÞokka mun ég aldrei þurfa að hafa áhyggjur af mýrarpittum eða slíku, þar sem hesturinn er með það á hreinu hvar er fært og hvar er ekki, þó hann rjúki þá skilur hann fyllilega að hann á að fara fyrir kindurnar og ef hann sér kindurnar þá er vonlaust að stoppa hann eftir að maður hefur sleppt honum..

Í fyrra var ÓÞokkinn minn svo ósáttur í byrjun smalamennskanna að það var erfitt að komast á bak þó tvær systur mínar reyndu að halda hestinum meðan ég fór á bak, hvorug þeirra hefur fyrirgefið hestinum fyllilega ennþá, en þegar ég var komin á bak rauk hann bara og þóttist kargur sem varð til þess að ég sagði systrum mínum að fara bara án mín ég kæmi á eftir og teymdi hann út fyrir hlið, klárinn reyndi ítrekað að slíta sig frá mér en var aðeins farin að róast þegar ég var komin út fyrir hliðið, eftir nokkur slagsmál við klárinn komst ég á bak og dreif mig af stað, ég taldi að ég væri að verða of sein, klárinn var fínn á ferðinni en um leið og við stoppuðum var prjónað og hálfstungið sér niðurúr því, djöflast í beislinu, krafsað og sparkað frá sér.. Þetta hefði svosem verið í lagi ef við hefðum ekki þurft að bíða í 2-3 tíma í fyrirstöðunni, og allan tíman treysti ég ekki hestinum til að ég kæmist á bak aftur ef ég færi af baki. En skiljanlega var klárinn orðinn vel þreyttur í lokin eftir öll þessi læti og í þegar ég var komin á svæði sem var of þýft fyrir hann og fór af baki fylgdi hann eins og hlýðnasti hundur, stökk jafnvel fyrir þegar við vorum að smala en fylgi vel.

En þar sem það voru svona mikil læti í fyrra hafði ég orðið svolitlar áhyggjur af því hvernig klárinn yrði í ár, í talsvert meiri þjálfun, og þar með hugsanlega mikið viljugri.. En í heimasmöluninni var hann lánaður og þá þóttist hann latur, teymdist varla og manneskjan, vön tamningakona sem hafði hreyft hann fyrir mig meðan ég var í skólanum og benti mér upphaflega á hann þegar ég var að leita mér að hest, þurfti að nota pískinn til að koma honum áfram því hann nennti þessu engan veginn.. Þegar ég fór svo á hann daginn eftir var hann allt öðruvísi, hann var agaður en vel viljugur, kláraði að læra að prjóna eftir skipun í byrjun smalamennskanna, ég hafði reyndar smá áhyggjur af því að hann prjónaði yfir sig en það gerðist sem betur fer ekki. En svo þegar flestar kindurnar voru komnar niður sá ég kindur koma niður langt fyrir aftan fyrirstöðuna og ákvað að það yrði einhver að fara þangað og hverjir hentuðu betur í það en við ÓÞokki? En þegar við nálguðumst ruku kindurnar af stað þær ætluðu alls ekki inn að Hrísum, þar sem réttin var, en þarna missti klárinn sig alveg í eltingarleiknum og það var ekkert annað að gera en halda sér fast, klárinn er nefnilega jafn þrjóskur og ég hann ætlaði að ná fyrir kindurnar. Þetta er ábyggilega ósléttasta svæði sem ég hef varið um á harðastökki, djúpar þúfur, mýrar, skurðir og brött hlíðin þar sem við fórum upp í hana, 2-3 var ég næstum dottin þegar klárinn stekkur um meter niður og til hliðar, en þá hægði hann á sér eitt andartak meðan ég náði jafnvæginu og þaut svo áfram. En þegar við loksins komumst fyrir kindurnar var klárinn nánast sprunginn og náði varla andanum, þar sem kindurnar voru líka við það að gefast upp þá gátum við stoppað smá stund og náð andanum, en svo hélt klárinn ákveðinn áfram eins og ekkert hefði í skorist, 9 af þessum 12 kindum enduðu á kerru útettir en hinar tvær eltum við (þangað til okkur var sagt að skilja þær eftir) á leiðinni yfir ánna hneig hesturinn svo niður, til að lenda ekki undir honum stökk ég af, lenti að sjálfsögðu í kaldri ánni, en varð ofboðslega feginn þegar ég sá hestinn standa upp strax aftur og beið þarna eftir mér hálf skömmustulegur og ég stökk því á bak aftur, fór upp á veg og fékk fólk til að segja mér hvort hesturinn væri nokkuð haltur en svo virtist ekki vera, líklega bara svona þreyttur þar sem það er ekki séns að þetta hafi verið fótaskortur þegar hann datt, en þar sem enginn nálægt treysti sér til að teyma hann þá tók ég hnakkinn af setti hann í bílinn og sleppti honum með beislið, ætlaði að sækja hann á eftir.. Ég var orðin alveg raddlaus af kuldanum og ætlaði því að segja þetta gott í bili, ég hafði alltaf áður klárað smalamennskurnar en ég vildi ekki hætta á meiri veikindi.

En ÓÞokki minn var ekki sammála, við vorum ekki komin langt þegar hesturinn kom frammúr okkur, hann ætlaði sko að ljúka smalamennskunum og því varð ég að fara að ná í hann svo hann yrði ekki fyrir, það var stelpa á hesti þarna sem treysti sér til að reyna að teyma hann með og hann sættist á það, en þegar við komum að svæði þar sem þurfti að smala almennilega fór ég út og tók við ÓÞokkanum mínum og hljóp af stað, svo sá ég kindur sem þurfti að fara fyrir en ég hefði ekki getað hlaupið fyrir og var of raddlaus til að snúa þó ég kæmist fyrir þær svo ég stökk á bak berbakt og fyrir kindurnar, lét klárinn prjóna, svona ekta prjón þar sem hesturinn hjólar alveg í loftinu og kindurnar gáfust allar upp og fóru í rétta átt, hesturinn virtist vera vel búin að ná sér og því kláraði ég smalamennskurnar berbakt, en þrátt fyrir allt voru allir sammála um að þetta voru einar bestu smalamennskur sem nokkur mundi eftir, enginn alvarlega fúll, vissulega rigndi smá og skall á smá þoka, en oftast verða einhver leiðindi, einkenni smalamennska í sveitinni okkar hefur verið að allir eru brjálaðir út í allt og alla! En það voru allir undalega geðgóðir í ár ;Þ

Það eina sem er skrítið við þessar smalamennskur er að ég sem hef farið á réttaballið frá 13 ára aldri, alltaf smyglað inn, nennti ekki núna, það vantaði hálft fjörið þegar maður var orðinn nógu gömul til að komast inn..

En daginn eftir teymdi ég svo í fyrsta sinn án vandræða á ÓÞokka mínum, en þá þurfti ég að koma hestunum að Hólum þar sem þeir eru í hagagöngu núna, en fyrir smalamennskurnar var teymt á honum einhvern spotta til að koma hestunum inneftir og einhvern veginn hefur það náðst inn hjá honum þá að þetta er ekkert hættulegt..

En hvernig hafa smalamennskurnar verið hjá ykkur? Hvenær eru/voru þær? Hvernig gekk? Smöluðu þið labbandi eða ríðandi, og þá á hvaða hesti? Eða fóruð þið á réttaball?
-