Kylja kom með þá hugmynd, ekki fyrir löngu, að fólk lýsti reiðskjótum sínum til að lífga örlítið upp á áhugamálið ,,hestar”. Þetta þykir mér ágæt hugmynd og hyggst nú segja frá fákunum mínum tveim.

Hestarnir mínir heita Pjakkur og Dinni.

Pjakk fékk ég þegar ég var sex ára. Ég hafði um sumarið farið með frænda mínum að skoða hross í Bræðratungu í Biskupstungum og sá að þar var mikið stóð. Ég reiknaði út að Sveinn bóndi væri vel aflögufær um eitt handa mér og fór til hans í réttunum um haustið og óskaði eftir að fá keypt folald. Folald fékk ég, lítið og jarpt með hvítan blett á flipanum –það var Pjakkur. Nafnið er komið frá stóðhestinum Pjakk sem einu sinni var til (kannski enn ég hef ekki grænan um það). Þennan hest sá ég stundum í sjónvarpinu og fannst hann flottur og því var minn hestur nefndur eftir honum. Pjakkur ber nafn með rentu því hann á það til að vera bölvaður pjakkur. Ég held að honum þyki fátt skemmtilegra en að stríða og monta sig. Stundum lætur hann ekki ná sér og hleypur burt, reistur á brokki með stertinn upp í loftið. Hann er samt yfirleitt frekar fljótur að gefa eftir og leyfa manni að beisla sig ef maður gengur á eftir honum svolitla stund. Pjakkur er montrass. Í útreið með ókunnugum hrossum er oft tjaldað öllu sem til er, viljinn rýkur upp og tölt verðu allt í einu aðal gangurinn. Annars er Pjakkur þægur og góður hestur með allan gang, léttur í taumi. lipur og ágætur að sitja hann. Pjakkur er undan Örvari sem aftur var undan Hervari frá Sauðárkróki.

Dinni er tæknilega ekki mín eign. Ég hef eignað mér hann þar sem enginn annar hefur sérlega mikinn áhuga á að ríða honum. Upphaflega fékk frændi minn, Grímur, þennan mósótta klár í stúdentsgjöf 1997. Áhugi eigandans fyrir hestamennsku var þá að fjara út og fór svo að hesturinn fékk litla athygli og hefði líklega farið í tunnuna (saltkjötstunnuna) ef ég hefði ekki farið að stelast á bak honum fljótlega eftir að hann var taminn. Nafnið Dinni er ekki sérlega hefðbundið eða algengt ef það þá telst sem nafn. Þetta heiti er tilkomið með þeim hætti að annar frændi minn kallað Grím ævinlega Dinna þegar hann var að læra að tala og festist þetta gælunafn við hrossið. Dinni er talsvert ólíkur Pjakk. Hann er viljugur, sterkur og duglegur og á það til að rjúka þegar æsingurinn er mestur. Dinni er lítt gefinn fyrir hinn fræga gang íslenskra hesta töltið en fer helst eingöngu á brokki eða stökki. Hann er fremur þungur í taumi (ég nota stangamél upp í hann) og ekkert allt of sveigjanlegur og á það til að vera afspyrnu þrjóskur sérstaklega við hestakerrur og ókunnug hesthús. Þrátt fyrir þessa mis góðu eiginleka vildi ég ekki án hans vera. Hann er sá besti þegar að því kemur að hleypa fyrir óþekka kind í grýttu landi inn á reginfjöllum því hann gerir ekki mun á því hvort undir er gras eða hraun þegar á að flýta sér. Faðir Dinna heitir Bragur og er sá frá Skollagróf í Hrunamannahreppi (nú geldur).

Hestarnir mínir hafa ekki nokkurt erindi á sýningar eða mót nema sem áhorfendur. Þess vegna eru ekki birtir hér neinir dómar lærðra manna um sköpulag og hæfileika þessara sveitajálka.

Ég vona að þessi grein verði einhverjum til gamans.

Mæja