Byrjun mín í hestamennskunni.. Hæhæ, ég ákvað að lífga aðeins upp á þetta áhugamál með því að skrifa smá grein um hvernig ég byrjaði í hestamennskunni.

Ég hef alltaf haft mjög mikinn áhuga á hestum, og í raun öllum dýrum bara… og þegar ég var lítil fór mamma oft með mig á hestaleigur rétt fyrir utan bæinn og svona þar sem við áttum þá ekki hesta sjálf. Svo fékk ég að fara á reiðnámskeið hjá Fák þegar ég var 6 ára að mig minnir, ég og besta vinkona mín fengum undanþágu því við vorum í raun of ungar. En ég hafði endalaust gaman af því að vera á baki og stússast í kringum þessar skepnur, en ég átti þó við það vandalmál að stríða að ég var alveg skíthrædd að teyma hesta. Fyrsti hesturinn sem ég fékk á reiðnámskeiðinu hét Jökull og var gamall reiðskólahestur. Þau voru ófá skiptin sem ég gjörsamlega missti mig þar sem mér fannst að hann ætlaði bara að labba á mig, hann var náttúrulega mörgum sinnum stærri en ég og stundum þegar ég stoppaði labbaði hann bara í hringi í kringum mig. En sem betur fer eltist þetta af mér og eitt af því fyrsta sem ég vandi hestinn minn á þegar ég eignaðist hann var að hann stoppaði um leið og ég þegar ég teymdi hann ;)

Svo var ég svo heppin að frændi minn á hestaleigu og ég fékk oft að fara á bak hjá honum, en þegar ég var 10 ára fékk ég svo minn eigin hest. Hann var jarpur með tvær stjörnur, eina á enninu og eina hjartalaga á snoppunni. Í fyrsta sinn sem ég sá hann var hann með einhverja sýkingu í auganu greyjið og gat því varla opnað annað augað. En þetta var eins og ást við fyrstu sýn  Ég gaf honum nafnið Ljúfur og ég á hann ennþá í dag. Hann hefur kennt mér svo ótrúlega mikið. Svona sem dæmi um hversu góðir vinir við vorum, þá ætlaði ég einhvern tíma að keppa á honum á vetrarleikum í hestamannafélaginu mínu og bauðst einn vinur okkar, sem er tamningarmaður, til þess að tuska hann aðeins til fyrir keppnina. Ég leyfði honum það, og hann fór nokkra hringi á vellinum, og þegar hann kom af baki hafði hann á orði við mömmu hvernig í ósköpunum hún gæti látið mig ríða þessum hesti, hann væri snarbrjálaður… Við hlógum mjög mikið af þessu, hann vildi bara ekki fá neinn annan en mig á bak. Og ég er líka sú eina sem get labbað að honum í haga 

Eins og gengur og gerist þá erum við Ljúfur nú ekki alltaf sammála samt, og ég hef nokkrum sinnum dottið af honum. Í fyrsta sinn sem það gerðist vorum við í reiðtúr og á miðjum veginum var stór og klæklótt trjágrein. Honum brá svo þegar hann sá hana að hann hoppaði til hliðar og ég varð eigilega eftir í loftinu. Ég hef líklega verið svona 11-12 ára, og var svolítið lítil í mér. En þegar hann áttaði sig á því að ég hafði dottið af þá snarstoppaði hann og kom svo og otaði snoppunni í mig svona eins og til að biðjast fyrirgefningar og gá hvort það væri allt í lagi með mig.

Semsagt þá þetta svona í grófum dráttum hvernig ég byrjaði í hestamennskunni. Ég er mjög þakklát fyrir fyrsti hesturinn minn hafi verið svona yndislegur (og er auðvitað enn), því ég veit að það er ekki sjálfgefið að það myndist svona sterk tengsl milli hests og manns. Ég veit nú ekki mikið um uppruna Ljúfs, nema mér var sagt að hann væri undan 1.verðlaunahryssu sem heitir Assa.