Það er víst best að byrja þetta fína áhugamál á einhverju róttæku….

Það er nú mikið gert af því að flytja íslenska hestinn út, en afhverju hefur enginn viljað flytja inn erlend hross. Þó ekki væri nema færeyskan smáhest! Ég er svo sem ekkert svakalega fylgjandi hestainnflutningi til landsins, en finnst þetta umhugsunarefni. Mér fyndist ágætt að fá hingað fleiri tegundir, eins og t.d. Thoroughbread, Shire eða jafnvel einn arabískan….

Auðvitað koma upp mörg vandamál við svona innflutning. Geta erlendir hestar ráðið við íslenskt veður? Ég veit að í Svíþjóð eru allra þjóða hestar, en þar er líka breitt teppi yfir flesta þeirra ef byrjar að rigna! Það er hætt við að Arabískir gæðingar þyrftu mikla umönnun ef þeir kæmu hingað. Þeir þyrftu pottþétt að vera inni allan veturinn, og hvaða gaman er þá hægt að hafa af þeim?
Svo er það auðvitað spurning um sjúkdóma. Íslenskir hestar eru sem betur fer lausir við marga sjúkdóma sem herja á evrópsk hross. Með innflutningi skapast auðvitað hætta á að ýmsar hestapestir komi til landsins þannig að nauðsynlegt væri að setja hrossin fyrst í sóttkví (Hrísey?)

Svo er það auðvitað aðaláhyggjuefnið, hverfur þá ekki íslenski hesturinn burt? Blandast hann ekki of mikið? Ég held ekki. Alvöru hrossaræktendur vilja að sjálfsögðu hafa sína hesta af sem bestum ættum og vilja enga blöndun við sinn hestastofn. Auðvitað verða nú slys, en atvinnumennirnir passa sitt.
Mér finnst þetta vera nokkuð áhugaverð hugmynd, svona innflutningur, en býst við því að það verði 10 sinnum erfiðara að fá þetta í gegn en innflutning á t.d. norskum beljum. Fyrst bændum þykir svona vænt um íslensku kýrnar sínar, hvað finnst þeim þá um “þarfasta þjóninn”?
íslenskt, játakk
Refu
Að sigra heiminn er eins og að spila á spil